Vorið kemur, heimur hlýnar, hjartað mitt

Á Hringbraut er nýr þáttur á dagskrá er nefnist Tilveran. Þátturinn er unnin í samvinnu við Biskupssofu á þeim tímum þegar fólk getur ekki sótt kirkjuna sína. Sveinn Valgarðsson og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir, prestar, eru þáttastjórnendur. Í fyrsta þættinum var sr. Karl Sigurbjörnsson biskup emiritus gestur, ásamt Pétri Markan samskiptastjóra kirkjunnar. Aldís Rut Gísladóttir prestur Langholtskirkju flutti hugverkju í þessum fyrsta þætti sem hægt er að lesa i heild sinni hér.

Síðustu daga og vikur hefur heimurinn mætt vá sem er dæmafá. Afleiðingar faraldursins eru miklar og enn sér ekki fyrir endan á þeim. En afleiðingar faraldursins er margvíslegar, ekki einungis er landamærum lokað, samkomu og samgöngubönn sett á heldur sjáum við líka hvers megnug við erum sem samfélag. Þvert á landamæri, hörundslit, túarbrögð, og þjóðerni þá stöndum við öll saman í baráttunni við þennan faraldur. Við sjáum mitt í þeirri áþreifanlegu staðreynd hversu smá við erum frammi fyrir vánni, hvers megnug þó við erum, hverju við getum áorkað með samstöðu og náungakærleika. Við finnum að innsti kjarni okkar allra er sá sami, við óskum einungis hvert öðru heilsu og hamingju og þegar við sjáum sameiginlegann innsta kjarna þá sjáum við svo vel hvað við erum öll jöfn, hvað við erum öll mennsk. Við höfum öll áhyggur af okkar nánasta fólki sem glímir við undirliggjandi sjúkdóma og af þeim sem öldruð eru. Okkur þykir öllum sárt að geta ekki heimsótt þau sem okkur þykir vænt um en við erum einmitt að sýna svo mikla væntumþykju þegar við höldum okkur í fjarlægð, við berum hag okkar nánustu fyrir brjósti. Þetta er þversögn og það erfið þversögn en með þeirri tækni sem nútíminn hefur upp á að bjóða verður fjarlægðin bærilegri. Við getum spjallað saman í gegnum síma og notað myndsímtöl, skrifast á í gegnum netið, jafnvel spilað netskrafl við okkar nánustu. En þó eru þau sem ekki eiga marga að sem eru mjög einangruð. Kirkjan er til staðar og starfsfólk hennar og hvet ég ykkur til að leita til presta, djákna og annars starfsfólks kirkjunnar eftir sálgæslu og samtali. Innan þjóðkirkjunnar er mikið af fagfólki sem er til staðar fyrir ykkur á þessum óvissutímum. Það er oft sagt að Íslendingar séu áfallaþolin þjóð en þó við séum áfallaþolin þá er ekki þar með sagt að við þurfum að burðast með harm okkar í hljóði. Við eigum að vera óhrædd við að tjá áhyggjur okkar og láta laust það sem fyrir innan býr. Við megum ekki gleyma að hlúa vel að okkur sjálfum á þessum tímum, hlúa vel að andlegri líðan okkar. Bænin er góður farvegur fyrir áhyggjur og ótta og í Matteusarguðspjalli stendur:  Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld.  Deilið áhyggjum ykkar með öðrum, áhyggjurnar hverfa ef til vill ekki alveg en það er ótrúlegt hvað samtalið getur milt þær, við getum fengið annað sjónarhorn og hvílt hugann.

Og vonandi, áður en við vitum af getum við gengið út í græna lundinn, sterkari, jafnari og mannlegri sem aldrei fyrr.

Áhugasamir geta nálgast þáttinn hér:

https://hringbraut.frettabladid.is/sjonvarp/tilveran/24-mars-2020/