Kór Langholtskirkju

Kórinn æfir í Langholtskirkju á miðvikudögum kl. 19-22. Í vetur mun kórinn flytja kafla úr Náttsöngvum (Vespers) eftir Sergei Rackmaninov, Requiem eftir Fauré, Jólasöngva og Jóhannesarpassíuna eftir Johann Sebastian Bach. Auk þess syngja kórfélagar við aðrar athafnir svo sem útfarir.

Kór Langholtskirkju er metnaðarfullur, blandaður kór sem starfar undir handleiðslu Magnúsar Ragnarssonar. Kórinn flytur reglulega stór, klassísk verk, tekur þátt í starfi kirkjunnar, flytur íslenska tónlist og syngur á erlendri grundu. Þá er kórinn þekktur fyrir Jólasöngva sem fluttir hafa verið í Langholtskirkju síðan 1977.

Á liðnu starfsári flutti kórinn kór konsert eftir Alfred Schnittke, Requiem eftir Gabriel Fauré, sína árlegu Jólasöngva og keppti í alþjóðlegri kórkeppni í Frakklandi ásamt öðrum verkefnum.

Allt frá því að kórinn var stofnaður 1953 hefur hann getið sér gott orð með flutningi á stórum, klassískum verkum úr tónlistarsögunni og má þar geta öll stóru verkin eftir Bach, „Petite Messe solenelle“ eftir Rossini, „Ein Deutsches Requiem“ eftir Brahms, „Messías“ eftir Händel, „Messe solenelle“ eftir Beethoven, „Sköpunina“ og messur eftir Haydn, „Requiem“ og messur eftir Mozart og „Brúðkaupið“ eftir Stravinski.

Hér má sjá verkefnaskrá kórsins frá upphafi.

Kórinn flytur reglulega ný íslensk verk og hefur fengið tónskáld til að semja fyrir sig og má þar geta Guðbrandsmessu sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir kórinn í tilefni 50 ára afmælis hans. Hann hefur farið í fjöldamargar tónleikaferðir m.a. til Norðurlandanna, Mið- og Suður- Evrópu, Ísraels þar sem hann flutti Messías eftir Händel, Kanada og Bandaríkjanna, Englands þar sem hann flutti m.a. messu í h-moll eftir Bach í Barbican tónleikahöllinni með ensku kammersveitinni og Frakklands þar sem kórinn keppti í alþjóðlegri kórakeppni.

Kórinn hefur gefið út fjölda af hljómplötum og geisladiskum m.a. „Land míns föður“,

„An Anthology of Icelandic Choir Music“, „Jóhannesarpassían“ eftir Bach, „Barn er oss fætt“ og „Ísland er lýðveldi“.

Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson, magnus.ragnarsson@gmail.com.

Formaður er Guðmundur Alfreðsson, mummia@internet.is.

Gjaldkeri er Heimir Þór Kjartansson, hemmi.hk@gmail.com.

Hér að neðan má sjá umfjöllun um tónleika kórsins frá í apríl 2018 þegar hann flutti Messías eftir Handel.