Barokorgel Langholtskirkju

Þegar tekin var ákvörðun um val á orgeli fyrir Langholtskirkju, var margt sem hafa þurfti í huga. Langholtskirkja er að mörgu leiti sérstakt hús. Hljómburður kirkjunnar er einstakur, mikill og hlýr. Hann er og nálægur hljómburði bestu hljómleikasala en þó með eftirhljómi sem uppfyllir þær væntingar sem gerðar eru til kirkjuhljóms.

Kirkjan sjálf er afar einföld í sniðum. Allar línur eru hreinar og einfaldar. Mörgum hefur fundist hún köld þar til hún fyllist af tónlist. Reynslan af flutningi helstu verka baroktímans sýndi að sú tónlist fer henni vel. Því var ákveðið að velja henni hljóðfæri sem hæfði hljómburðinum og væri einnig mótvægi við einfaldleik hennar, gleddi augað jafnt sem eyrað.

Með barokorgeli Langholtskirkju hefur íslenska orgelfjölskyldan eignast stílhreint hljóðfæri sem skilar baroktónlist frábærlega. Rómantíska tónlist er þó vel hægt að leika þó vissulega megi þá halda því fram að það hafi of mikinn barokhljóm. En þá er svarið einfalt: þetta er barokorgel.

Hið nýja Noack orgel er gersemi fyrir auga og eyra og ásamt hinum áhrifamikla glugga Sigríðar Ásgeirsdóttur hefur orgelið gert Langholtskirkju að enn betri helgidómi. Á heimasíðu Noack má sjá mynd af orgelinu og raddskipan:

Vefslóð er: http://www.noackorgan.com/

Fritz Noack, orgelsmiður, skrifaði eftirfarandi grein í tilefni af vígslu orgels Langholtskirkju 1999:

Í mörg ár hef ég átt mjög ánægjuleg samskipti við organista, presta og sóknarnefndir í Reykjavík. Þetta samstarf hefur leitt til þess að orgelsmiðja mín hefur nú á haustdögum 1999 lokið við að smíða tvö álíka stór orgel, en mjög ólík að gerð, annað fyrir Langholtskirkju og hitt fyrir Neskirkju. Allir sem tóku þátt í þessu tvíþætta verkefni lærðu mikið hver af öðrum, ólíkar hugmyndir voru ræddar ítarlega og allir lögðu sitt að mörkum. Ég er sannfærður um það að okkur tókst að lokum að smíða orgel fyrir þessar tvær kirkjur sem munu, hvort á sinn sérstæða hátt, auðga trúarlíf safnaðanna, hvort sem um verður að ræða undirspil með safnaðar- eða kórsöng eða tónleika með fjölbreytilegum einleiksverkum fyrir orgel.

Langholtskirkja á sér langa tónlistarhefð sem fyrst og fremst ber að þakka Jóni Stefánssyni organista og frábæru starfi hans með kórum kirkjunnar. Við urðum fljótt sammála um það að orgel í norður-evrópskum barokstíl mundi best henta kirkjunni, ekki síst með hliðsjón af glæstri tónlistarhefð kirkjunnar og lútherskri arfleifð hennar. Orgelverk J.S. Bachs munu svo sannarlega eiga heima hér en orgelið hæfir einnig hvers kyns einleiksverkum fyrir orgel og líka sem með- eða undirleikur með annarri tónlist. Ef til vill er það ekki tilviljun að þetta orgel var smíðað í Nýja Englandi í Bandaríkjunum, þar sem kórsöngshefð er sterk og þar sem ítarlegar rannsóknir hafa farið fram á evrópskri tónlistarsögu.

Þótt flokka megi þetta nýja hljóðfæri sem barok orgel, þá er það í raun og veru nútíma orgel sem ætlað er Langholtssöfnuði í nútíð og framtíð. Raddskipanin er að mestu norður-þýsk með “prinsipalkór” og flautur sem helst eiga ættir að rekja til orgelsmiða frá Saxlandi á tímum Bachs. “Svellverkið” er lítið og minnir helst á 19. aldar kórorgel frá Nýja Englandi og það gerir einnig hinn mildi tónn orgelsins. Við vildum gjarnan halda skýrleika barok orgelsins, eins og algengt er í nýjum orgelum, en bæta við hlýjum og mildum tóni til að endurspegla kærleiksboðskap kirkjunnar.

Hið háa orgelhús, sem smíðað er úr aski, á ættir að rekja til sígildra norður-evrópskra orgela. Gljáandi tin pípurnar fremst í orgelinu og hinn vandaði útskurður eftir James Lohmann gefa hljóðfærinu hátíðlegt og sígilt yfirbragð. Saman mynda orgelið og nýju steindu gluggarnir virðulegan bakgrunn fyrir helgi guðsþjónustunnar.

Hljómborðið er “mekanískt” og er það staðsett fyrir framan orgelið sjálft. Raddstýringin (stop action) er einnig “mekanísk”. Í orgelinu eru stillanleg “forte” og “piano” fótstig fyrir hljómborðið og pedalann og einnig blásari sem staðsettur er í sérherbergi en það kemur í veg fyrir auka blásturshljóð og hávaða. Þá er einn stór fleyglaga belgur fyrir hljómborðið og annar fyrir pedalann og sérstakur útbúnaður á hvorri vindhlöðu sér til þess að blásturinn er eðlilegur og stöðugur. “Tremulantinn” er franskur (og suður þýskur) að gerð.

Fyrir hönd allra sem starfa við Noack orgelsmiðjuna vil ég þakka fyrir að hafa fengið tækifæri til að hanna og smíða þetta orgel. Okkur þótti þetta sérstaklega ánægjulegt verkefni, ekki síst vegna góðs stuðnings og samstarfs við starfsfólk kirkjunnar, prest, organista og söfnuð. Af þeim mörgu sem við vildum þakka fyrir frábært samstarf er rétt að nefna sérstaklega séra Jón Helga Þórarinsson, Jón Stefánsson, organista og kórstjóra, og Þórarin Þórarinsson arkitekt, sem hannaði nauðsynlegar breytingar á kirkjunni.

Prófessor Michael Radulescu, organisti og prófessor í Vín hélt tónleika í tilefni af vígslu orgels Langholtskirkju og skrifaði eftirfarandi grein í framhaldi:

Í september síðastliðnum veittist mér sú ánægja á fá að dveljast í Reykjavík og leika á hið nýja Noack-orgel Langholtskirkju á sérstökum tónleikum.

Ég hreifst þegar í stað af byggingu og hljómi hins nýja orgels. Hin spengilega, glæsilega og hátimbraða framhlið orgelsins fellur prýðilega að píramídalöguðu byggingarsniði kirkjunnar. Andstæður, þ.e. lóðréttir fletir á móti halla veggjanna og láréttum gólffletinum, gera einmitt hina klassísku framhlið hljóðfærisins þeim mun glæsilegri svo að það verður að sérstaklega mikilvægum, sjónrænum miðpunkti í kirkjunni.

Við hönnun framhliðarinnar og alls orgelhússins réðu, eins og í svonefndri “klassískri” orgelsmíði, fyrst og fremst þau sjónarmið sem lúta að hljómburði og tæknilegri útfærslu. Skýr og greinileg skipting framhliðar og orgelhúss í einstaka hluta gefur kost á frábærum hljómi, blæbrigðum og, vegna loftstokka ( Schleifladen) og ekki síst hljómstillingar (Intonation), nánu samspili hluta og radda. Greinileg og einföld stýring og tæknilegt fyrirkomulag (beinar hljómborðs- og raddtengingar) tryggja annars vegar að hljóðfæraleikarinn getur stjórnað hljóðfærinu af mikilli nákvæmni og lágmarkar hins vegar viðkvæmni einstakra tæknieininga gagnvart breytingum á hitastigi og loftraka. Þegar orgelið er skoðað að innan vekur sérstaka athygli skýr niðurröðun og afar vandaður frágangur einstakra hluta.

Hljómur hljóðfærisins er framúrskarandi góður. Loftblásturskerfið er mjög gott og fullnægjandi og loftið er óþvingað og virkt, en það kemur sér sérstaklega vel við áslátt og “fraseringu”. Hin fagurfræðilega og stílfræðilega samsetningarhugmynd á sér mjög góðar hliðstæður í barokkstíl, en í hljóðfærinu sameinast áhrif frá klassískri enskri orgelsmíði og mikil fjölbreytni grunnradda, svo að það tekur mið af ýmis konar byggingarstíl, þ.e. fjölröddun barokksins, “rómantískum” hljómagangi, franskri litauðgi, og samtímatónlist. En næm og stílhrein hljómstilling (Intonation) hverrar einstakrar raddar og orgelsins í heild hæfir sérstaklega vel samtímatónlist.

Að lokum skal einnig nefnt, hversu þægilegt er að leika á hljóðfærið og hve prýðilega það hljómar í kirkjunni.

Hiklaust og réttilega má fullyrða að smíði þessa nýja orgels hafi heppnast sérlega vel. Megi það um langan tíma í krafti virðulegrar en þó ekki yfirþyrmandi stærðar sinnar og vegna þokka hljómradda sinna hrífa, göfga og örva til hlustunar sóknarbörn, gesti og orgelleikara! Bæði þeir sem af hálfu Langholtskirkju hafa átt hlut að máli og Fritz Noack og starfslið hans verðskulda viðurkenningu og þökk svo og einlægar hamingjuóskir!

Vín, 14. nóvember 1999.

Michael Radulescu