Sunnudagaskóli og messa kl. 11 sunnudaginn 4. september

Messa og sunnudagaskóli kl. 11

Guðbjörg Jóhannesdóttir sóknarprestur þjónar, félagar úr Fílharmóníunni syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar organista.  Einsöng syngja þær Halldóra Eyjólfsdóttir og Hólmfríður Friðjónsdóttir.  

Sunnudagaskólinn hefst með öllum kirkjugestum, svo förum við saman inn í litla salinn eftir dýrðarsönginn, þar sem við syngjum, spjöllum, dönsum, biðjum og horfum saman á myndband tengt biblíusögu dagsins. Stundin tekur u.þ.b. 40 mínútur og þá fáum við okkur að borða saman inn í safnaðarheimili, leikum okkur og litum ef við viljum. Á hverju ári er tekið fyrir eitt lag sem sungið er í byrjun hverrar stundar, á meðan kveikt er á kertinu, og þema lagið okkar í ár er frumsamið lítið lag við ljóðið “Á kertinu við kveikjum” eftir Söru Gríms

Á kertinu við kveikjum

til að minna okkur á

að í gleði, söng og leikjum

við finnum sterkast þá

 

Að við erum ljósið

við erum kærleikur

við lærum saman

þessari jörðu á.

 

Yfirskrift efnis vetrarins 2022 -2023 er “Í öllum litum regnbogans”, sem gefið er út af Skálholtsútgáfunni og fá öll börn sem koma í sunnudagaskólann litla fjársjóðskistu að gjöf. Einu sinni í mánuði eru fjölskyldumessur en þá eigum við saman stund í kirkjunni, með hjálp barnakóra Kórskóla Langholtskirkju: Krúttakórsins, Graduale Liberi og Graduale Futuri. Í hverri sunnudagaskólasamveru og í fjölskyldumessum fá börnin nýja mynd sem þau setja í fjársjóðskistuna sína.

Sara Grímsdóttir, sér um sunnudagaskólann í vetur.