Samkomubannsdagatal Langholtskirkju 16. – 26. mars

Ljóst er að miklar raskanir eru á skóla,- frístunda, – og íþróttastarfi vegna samkomubannsins. Framundan er því mikil samvera foreldra og barna og viljum við í Langholtskirkju koma með tillögur að samverustundum fyrir fjölskylduna. Við ráðum ekki í hverju við lendum en við ráðum hvernig við tökumst á við hlutina. Rannsóknir sýna að sumir foreldra verja rétt um 5 mínútum á dag í innihaldsríkar stundir með börnum sínum. Vonandi eykur samkomubannsdagatal Langholtskirkju innihaldsríkar stundir fjölskyldunnar.

Hér er samantekt á tillögum að samverustundum fyrstu vikuna í samkomubanninu.

Dagur 1 í samkomubannsdagatalinu: Segðu barninu/börnunum þínum frá skírnardegi eða nafnaveisludegi þeirra. Ef þið eigið myndir frá deginum skoðið þær saman. Segðu barninu hvernig þér leið á þessum degi og fleira sem þú manst. Þið getið skoðað nöfn barnsins, hvað þýðir nafnið, afhverju völduð þið þetta nafn á barnið og hvernig er nafnið skrifað aftur á bak ?

Dagur 2 í samkomubannsdagatalinu: Hvernig væri að stunda ónæmisdekur í dag og fara í göngutúr en hreyfing hefur góð áhrif á ónæmiskerfið. Þið getið sest niður á bekk einhversstaðar á leiðinni og tekið nokkra djúpa andardrætti, eða farið í Bingó, hver er fyrstur til að sjá: hund, kött, og flugvél. E.S. taktu eftir marrinu í snjónum í hverju skrefi.

Dagur 3 í samkomubannsdagatalinu: Saga fyrir svefninn. Semjið sögu og segið börnunum fyrir svefninn. Leyfið barninu/börnunum að velja einn lit, eina tilfinningu, eitt dýr og eina borg og þið fléttið saman sögu úr orðunum sem valin voru.

Dagur í 4 samkomubannsdagatalinu: Lesið inn setningar á samromur.is og gefið raddsýni, https://www.samromur.is.Um verkefnið: Íslenska er einstakt tungumál sem hefur breyst minna en flest önnur mál undanfarin þúsund ár. Vegna örra tæknibreytinga er þó hætt við því að hún eigi undir högg að sækja en mörg okkar eiga nú þegar samskipti við tölvur og ýmis tæki á erlendu máli. Ef við kennum tölvum að tala og skilja íslensku aukum við líkurnar á því að tungumálið okkar lifi áfram og eflist í stað þess að láta undan síga. Þetta er á okkar valdi.

Samkomubannsdagatal á degi 5: Dansið saman Zumba við Think about things með Gagnamagninu: https://youtu.be/tIAZbctRkDo

Dagur 6 í samkomubannsdagatali Langholtskirkju: Búa til trölladeig og föndra það sem ykkur dettur í hug úr því !

Uppskrift:

300 gr fínt borðsalt
6 dl sjóðandi vatn
1 msk matarolía
300 gr hveiti
(Matarlitur ef þið viljið)

Gott er að vera í gúmmíhönskum, saltið sett í skál og vatninu hellt yfir (farið varlega þar sem það er mjög heitt) ásamt matarolíu og matarlit. Hrærið hveitinu smátt og smátt saman við þar til leirkúla hefur myndast. Hnoðið í höndunum þar til deigið er mjúkt og teygjanlegt. Bætið við hveiti eftir þörfum. Bökunartími fer eftir þykkt deigsins, þunnar fígúrur ca. 1,5 klst við 175 gráður. Þykkar fígúrur 2-3 klst við 175 gráður.

Dagur 7 í samkomubannsdagatalinu: Kveikja á á rólegri tónlist, leggjast niður og slaka vel á í nokkrar mínútur. Teldu upp á þrjá í hverri innöndun og teldu upp á sex í hverri fráöndun. Segið börnunum að ímynda sér að þau séu að blása upp stóra blöðru í maganum og fyllið þannig kviðinn af lofti á innöndun. Hugsið um stað þar sem ykkur líður vel á, hvernig er lyktin þar, hvaða hljóð heyir þú ? Ef börnin eiga erfitt með að liggja kyrr (eða fullorðna fólkið;)) getur verið gott að nudda þau létt á tánum og höfði og telja fyrir þau í innöndun og útöndun.

Dagur 8 í samkomubannsdagatalinu: Ræðið yfir kvöldmatnum hvað hverjum og einum fannst skemmtilegast og leiðinlegast í dag. Suma daga er ekkert leiðinlegt og suma daga er ekkert skemmtilegt. En yfirleitt finnum við eitthvað skemmtilegt við alla daga. Þetta sýnir okkur betur að dagarnir okkar eru fullir af mismunandi uppákomum og tilfinningum og þó að eitthvað eitt leiðinlegt gerist þá er dagurinn ekki “ónýtur”.

Dagur 9 í dagatalinu: Prufið jóga með krökkunum, í tenglinum hér má finna 12 þætti af krakkajóga, góða skemmtun.

https://www.ruv.is/sjonvarp/spila/krakkajoga/26318?term=Krakkajóga&rtype=tv&slot=1&fbclid=IwAR2pVsAXnRgIhtPhPRGkef-EfAde0P0deh_MvOm4y52i6dCH4Sw_OWZoD3Y

Dagur 10 og 11 í samkomubannsdagatali Langholtskirkju: Takið þátt í skemmtilegu framtaki sem felst í því að setja bangsa út í glugga og skellið ykkur svo í göngutúr í hverfinu og gáið hvað þið sjáið marga bangsa. E.S. Rebbi og Mýsla leynast í einhverjum glugga Langholtskirkju.