Samfélagslistasýning barna- og æskulýðsstarfs Langholtskirkju- og Laugarneskirkju

Nú skorum við á ykkur kæru vinir, sérstaklega krakkana, að taka þátt í að skapa saman listasýningu í safnaðarheimilum Langholtskirkju og Laugarneskirkju.

 

Það getur verið tilvalin fjölskylduafþreying í vetrarfríinu að kíkja saman í göngutúr og finna listrænan efnivið í hverfinu og nýta efnivið náttúrunnar til þess að skapa listaverk saman. Hægt er að nota það sem náttúran hefur upp á að bjóða á þessum árstíma og gefa sköpunargleðinni lausan tauminn. Mögulegt er að týna ber og laufblöð, greinar og annað sem vekur athygli ykkar í náttúrunni og hefjast svo handa við föndur þegar heim er komið. Hægt er að búa til mynd úr laufblöðum af fjölskyldunni sinni eða vinum sínum, nota ber í staðinn fyrir pensla og mála með berjunum, stimpla með laufblöðum á blað eða fallega steina sem þið finnið í náttúrunni. Það er hægt að búa til haust borða og lífga fallegar myndir úr fjársjóðinum sem finnst í gönguferðinni.

 

En hægt er að fara aðrar leiðir einnig.

Sum vilja kannski einfaldlega lita og teikna á blað, önnur vilja fara aðrar skapandi leiðir í listsköpun sinni.

Við tökum glöð á móti öllum þeim listaverkum sem okkur berast.

Nú er að virkja sköpunargleðina!

 

Þegar listaverkin eru tilbúin er í framhaldinu hægt að koma þeim til okkar, annað hvort í Langholtskirkju eða Laugarneskirkju.

Móttaka verður í Langholtskirkju á sunnudögum milli kl. 10-12

Móttaka verður í Laugarneskirkju á sunnudögum milli kl. 11-13 og á mánudögum kl.19:00-20:00.

Annars eftir samkomulagi.

 

Þegar samkomutakmarkanir verða verulega rýmkaðar verður listasýningin sett formlega upp, listaverkin verða til sýnis og okkur mun gefast tækifæri til að koma saman sem samfélag og njóta afraksturs þessa sameiginlega verkefnis. Opnun listasýningarinnar verður auglýst sérstaklega síðar.

 

Hægt er að hafa samband við sr. Aldísi Rut (aldisrut[hjá]langholtskirkja.is) og sr. Hjalti Jón (hjaltijon[hjá]laugarneskirkja.is) fyrir frekari upplýsingar.

 

Hér að neðan má sjá myndir af skemmtilegum listaverkum sem hægt er að búa til. Fyrir mestu er sem fyrr segir að leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. 

Góða skemmtun!