Orgeltónleikar Láru Bryndísar Eggertsdóttur tileinkaðir Jóni Stefánssyni

Sunnudaginn 17. apríl verður Lára Bryndís Eggertsdóttir með orgeltónleika í Langholtskirkju og hefjast þeir kl 17.

Dagskrá tónleikanna verður helguð minningu Jóns Stefánssonar og verða á efnisskránni nokkur af uppáhaldsorgelverkum hans, m.a. hinn undurfagri sálmforleikur J.S. Bach „Schmücke dich O liebe Seele“ ásamt fleiri verkum sem hann sjálfur lék á fyrstu tónleikum sínum á Noack-orgelið í Langholtskirkju árið 1999. Vivaldi skýtur einnig upp kollinum, sem og minna þekktir kollegar hans eins og hinn þýski Walther og hinn spænski Antonio Soler.

Lára Bryndís mun kynna tónlistina milli verka og lofað því hátíðlega að spila, eins og hún sjálf orðaði það: „ekki neitt sem er ljótt eða leiðinlegt.“

Lára Bryndís Eggertsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1979 og ólst upp í Kópavogi. Sex ára gömul hóf hún nám í píanóleik en fyrstu skrefin á orgelbrautinni tók hún 14 ára gömul þegar hún tók að sér að leika í guðsþjónustum í Langholtskirkju í forföllum Jóns Stefánssonar. Síðar sneri hún sér alfarið að tónlistinni og lauk 8. stigi á orgel ásamt kantorsprófi frá Tónskóla Þjóðkirkjunnar vorið 2001 og einleikaraprófi ári síðar, ásamt því að taka próf við Tónlistarháskólann í Piteå í Svíþjóð. Aðalkennarar hennar voru Hörður Áskelsson á Íslandi og prófessor Hans-Ola Ericsson í Svíþjóð. Lára hefur sérstaklega sterk tengsl við Langholstkirkju þar sem hún tók þátt í fjölbreyttu kórastarfi, og aðeins ári eftir að hún hóf formlegt orgelnám hélt hún fyrstu opinberu tónleika sína á nývígt orgel Langholtskirkju. Lára Bryndís hefur verið búsett í Danmörku síðan árið 2008 og lauk árið 2014 meistaragráðu í kirkjutónlist við Tónlistarháskólann í Árósum þar sem aðalkennarar hennar voru Ulrik Spang-Hanssen (orgel) og Lars Colding Wolf (semball). Hún starfar nú sem organisti við Sønderbro kirkju í Horsens og semballeikari hjá baroksveitinni BaroqueAros í Árósum. Lára hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir frábæran námsárangur og má þar nefna styrk úr Minningarsjóði Jean-Pierre Jacquillat árið 2002, önnur verðlaun í einleikarakeppni Prinsens Musikkorps í Danmörku árið 2013 og Tónlistarverðlaun Rótarý á Íslandi árið 2014.

Miðasala á tónleikana er við innganginn. Miðaverð er 2000 kr og 1500 fyrir félaga í Listafélaginu, eldri borgara en ókeypis er fyrir börn.