Nýtt Laugardalsprestakall

Nú í byrjun október  urðu breytingar á skipulagi kirkjustarfs í hverfunum við Laugardal en samkvæmt ákvörðun kirkjuþings varð til nýtt prestakall þriggja sókna í stað þeirra þriggja prestakalla sem áður höfðu hvert um sig innifalið eina sókn.    Nýtt Laugardalsprestakall innifelur sóknirnar þrjár við Laugardal : Ássókn, Langholtssókn og Laugarnessókn.

Sameiningunni er ætlað að auka samvinnu og samstarf sóknanna þriggja sem og og starfsfólks safnaðanna eftir því sem samkomulag verður um og er talið þjóna kirkjulegri þjónustu á svæðinu sem best.

Áfram munu þjóna fimm prestar og einn djákni í prestakallinu og verða starfsstöðvar þeirra þær sömu og áður.

Guðbjörg Jóhannesdóttir er sóknarprestur hins nýja prestakalls og hefur starfsstöð í Langholtskirkju sem og Aldís Rut Gísladóttir prestur.  Sigurður Jónsson prestur og Jóhanna María Eyjólfsdóttir djákni hafa starfsstöð í Áskirkju.  Davíð Þór Jónsson prestur og Hjalti Jón Sverrisson prestur hafa sem fyrr starfsstöð í Lauganeskirkju.

Von er að fólk velti því fyrir sér hver munur á prestakalli og sókn sé ?  Í stuttu máli má segja; að prestakall sé skipulagseining sem er vettvangur samvinnu um kirkjulega þjónustu vígðra starfsmanna sóknanna, í prestakalli er einn sóknarprestur og einn eða fleiri prestar, sem og einn eða fleiri djáknar.  Sókn er hins vegar  grunneining þjóðkirkjunnar og eru sóknirnar í landinu á þriðja hundrað.  Hverri sókn er stýrt í samvinnu sóknarprests og prests/eða presta og sóknarnefndar sem kosin er á aðalsafnaðarfundi sóknarinnar, en í sóknarnefnd sitja óvígðir safnaðarmeðlimir. Formaður Ássóknar er Kristján Guðmundsson, í Laugarnesi er það Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir sem er formaður og í Langholti Elmar Torfason.  Því er enn um þrjár sjálfstæðar sóknir að ræða í hinu nýja prestakalli, þar sem ólík menning og áherslur búa til fjölbreytileika og aukna vídd.

Eitt af meginmarkmiðum þessarrar breytingar, sem biskup Íslands kynnti í vísitasíu sinni í prófastsdæminu 2018, er að auka samvinnu prestanna á svæðinu.  Prestarnir í Laugardalsprestakalli munu því frá áramótum þjóna til skiptis við sunnudagshelgihaldið í kirkjunum, og leysa hvern annan af um helgar.  Þetta þýðir að hálfsmánaðarlega messar sami prestur tvisvar sama sunnudaginn.  Af því leiðir að breyta þarf messutímanum á a.m.k. einni af kirkjunum þremur.  Áskirkja ríður á vaðið og mun messutíminn þar frá og með næstu áramótum færast fram til kl. 9:30, og á sú breyting einnig við um sunnudagaskólann í Áskirkju.  Því mun sá prestur, sem messar í Áskirkju kl. 9:30, einnig messa ýmist í Langholtskirkju eða Laugarneskirkju sama dag kl. 11:00.

Raddir sóknarfólksins eru mikilvægar í þessu breytingarferli og hugmyndir vel þegnar.  Um leið og aðstæður leyfa munum við hringja til sameiginlegrar stofnmessu prestakallsins sem og kynningarfunds þar sem spáð yrði í framtíðina.

Það er von okkar allra, starfsfólks og sjálfboðaliða í hinu nýja prestakalli að sameiningin gefi tækifæri til frekara samstarfs og samvinnu.  Bent er á heimasíður sóknanna fyrir upplýsingar um starfsemi í hverri sókn fyrir sig.

www.askirkja.is

www.langholtskirkja.is

www.laugarneskirkja.is