Fréttir úr Langholtskirkju

Hér í Langholtskirkju sem og í öllu samfélaginu er margt með öðrum brag en vant er.  Þó er safnaðarstarfið komið af stað og gengur sinn vanagang, með þeim skorðum sem sóttvarnir setja okkur.

Börnin sem fermast áttu síðasta vor voru fermd nú um mánaðarmótin ágúst, september og þau síðustu um miðjan mánuðinn.  Næsti fermingarhópur hefur svo hafið sína samfylgd með okkur hér í kirkjunni með messusókn.  Fræðsla barnanna hefst svo í lok október og þá förum við einnig í helgarferð í Vatnaskóg.

Barnahópar og kórsöngvarar á öllum aldri fylla hér húsið með söng og gleði virka daga og eldri borgararnir eiga hér samveru í safnaðarheimilinu alla miðvikudaga.

Mjög mikið af því starfi sem hér fer fram hvílir ár herðum sjálfboðaliða, en í Langholtskirkju erum við verulega rík af sjálfboðaliðum.

Eldri borgara starfið er sem dæmi leitt af 10 kjarnakonum sem hver hefur sitt hlutverk í að fæða og aðstoða eldri borgarana sem hingað koma alla miðvikudaga.

Messuþjónar sjá svo um utanumhald og þjónustu við messurnar, en í vetur eru það 21 sem gefa tíma sinn í þessa þjónustu.

Kvenfélagið er vaskur hópur sjálfboðaliða en auk þess að hittast á kvenfélagsfundum standa þær fyrir mikilvægri fjáröflun fyrir söfnuð og önnur góð málefni.  Hinn árlegi markaður kvenfélgsins og kökusala er kærkomin tilbreyting og skemmtun.

Í sóknarnefndinni eru svo 14 manns sem öll gefa af tíma sínum til þess að kirkja og söfnuður megi blómstra.

Við vonum að á þessum þrengingartímum hlúir þú að heilsu þinni og ræktir með þér ró og þrautsegju.  Við viljum því benda á að í  Langholtskirkju er boðið uppá fjölbreytt helgihald :

Sunnudagar kl. 11 -12.  Við messum alla sunnudaga kl. 11.  Alla jafna eru hefðbundnar messur og sunnudagaskóli sem hefst í kirkjunni en heldur svo yfir í safnaðarheimilið.  Nokkur skipti yfir veturinn er svo fjölskyldumessa þar sem öll eru saman í kirkjunni allan tímann.  Vonandi getum við fljótlega aftur farið að bjóða uppá léttan hádegisverð að messu lokinni en núna sötrum við aðeins kaffilögg eða djús.  Guðbjörg og Aldís prestar Langholtskirkju leiða messurnar, Magnús organisti spilar og kórar kirkjunnar syngja sem og félagar úr Fílharmóníunni stöku sinnum.

Mánudagar kl. 17 -18 Djúpslökun er alla mánudaga Aldís Rut  prestur og yogakennari leiðir tímana og hefjast tímarnir á léttum teygjum og æfingum sem hæfa jafn byrjendum sem lengra komnum. Eftir æfingar leiðir Aldís þátttakendur inn í djúpa slökun. Dýnur eru á staðnum en við mælum með að fólk komi með sínar eigin dýnur ef það hefur tök á því, einnig teppi og kodda til að láta fara vel um sig.

Miðvikudagar kl. 12:10-12:40  Helgistund í kirkjunni.  Guðbjörg sóknarprestur leiðir þessar einföldu samverustundir þar sem bæn og söngur ásamt stuttri hugleiðingu gefur rými frá önnum smá stund.

 

Öll eru velkomin.