Það verður nóg um að vera í Langholtskirkju næstkomandi sunnudag 8. nóvember. Við hefjum daginn á því að minnast þess að 70 ár eru liðin frá stríðslokum með sérstakri stríðsáramessu kl. 11. Sr. Jóhanna Gísladóttir þjónar og Birna Kristín Ásbjörnsdóttir spilar undir. Söngfjelagið Góðir Grannar leiðir safnaðarsöng og syngur ameríska slagara sem vinsælir voru á fjórða og fimmta áratugnum. Messuþjónar og fermingarbörn aðstoða við helgihaldið.
Sunnudagaskólinn verður á sínum stað og Snævar Jón Andrjesson æskulýðsfulltrúi og Hafdís Davíðsdóttir guðfræðinemi taka á móti börnunum. Djús og piparkökur eftir stundina.
Eftir messu stendur Kvenfélag Langholtssóknar fyrir hinum árlega og sívinsæla basar í safnaðarheimili kirkjunnar. Af mörgu verður að taka líkt og endranær enda glæsilegir munir á boðstólum, nytjavörur, hlutavelta, eitthvað af jóladóti og ýmislegt fleira. Kaffi- og kökusala verður á staðnum ásamt veglegum kökubasar. Við hvetjum hverfisbúa alla ásamt gestum og gangandi að koma og gera góð kaup í aðdraganda jólanna. Allir velkomnir!