Saga safnaðar

Saga Langholtssafnaðar

frá stofnun safnaðarins 1952 til og með vígslu Langholtskirkju 1984. Byggt er á verki Gunnlaugs V. Snævarrs: Drögum að byggingarsögu Langholtskirkju.

Hinn 24. janúar 1952 gengu í gildi lög sem skiptu nokkrum söfnuðum í Reykjavík í smærri söfnuði. Einn þeirra nýju hlaut nafnið Langholtsprestakall. Var það klofið út úr Laugarnesprestakalli. Þegar þetta gerðist átti hinn nýi söfnuður enga kirkju eða aðra aðstöu til að sinna störfum sínum. Er þess m.a. getið í bókun hinnar nýju sóknarnefndar að ekki væru einu sinni til peningar til að greiða fyrir messuhald, s.s. húsaleigu eða greiðslu til organista eða söngfólks. Virðist sem ekkert hafi verið hugsað fyrir þeim þörfum er söfnuðunum var skipt. Reykjavíkurborg ætlaði að leggja fram nokkra fjárupphæð til kirkjubygginga en hitt virðist hafa gleymst að ætla nýju söfnuðunum nokkurt rekstrarfé fyrsta árið.

Fyrstu sóknarnefnd skipuðu eftirtaldir:

Helgi Þorláksson, skólastjóri,
Lilja Jónasdóttir, húsmóðir,
Magnús Jónsson, alþingismaður,
Sveinbjörn Finnson, hagfræðingur,
Helgi Elíasson, húsgagnabólstrari.

Á fyrsta fundi nefndarinnar, 24. september 1952, var Helgi Þorláksson kosinn formaður. Var hann formaður allt til 3.nóvember 1966. Ber mönnum saman um að þar hafið verið ákjósanlegur forystumaður á ferðinni, gáfaður og fylginn sér án þess þó að vera ,neinn ofstopi’. Áður hafði fyrsti safnaðarfundurinn farið fram þann 28. júlí sama ár en þar fór kosning í sóknarnefndina fram og telst sá dagur stofndagur safnaðarins. Á þeim fundi munu hafa verið um 60 manns.

Langholtssöfnuður naut velvildar Laugarnessafnaðar og fóru athafnir þar fram í fyrstu en sóknarnefnd og prestur lögðu mikla áherslu á að safnaðarstarf hæfist sem fyrst í prestakallinu. Var einkum rennt auga til Langholtsskóla sem þá var í byggingu svo og íþróttahússins á Hálogalandi. Var það þó varla hentugur staður þar sem hann hélt illa veðri og vindum. Í fundargerðum sóknarnefndar frá þessum tíma má glöggt sjá að stórt var hugsað og vekur það sérstaka athygli hve mjög var rætt um barnastarf og að eignast eigin kór sem fyrst. Virðist ljóst að frá því fyrsta hafi sóknarbörnum verið umhugað að verða öðrum óháð sem fyrst.

Er ekki örgrannt um að nokkurrar beiskju hafi gætt vegna þessara breytinga og þá ekki síst vegna þess hve þær voru gerðar af lítilli forsjálni og að lítt athuguðu máli. Telja verður undarlegt að nokkur hópur fólks skuli hafa látið bjóða sér þetta og kannski enn undarlegra að samvalinn hópur hins nýstofnaða safnaðar skuli strax hafa tekist á við vandann af festu, áhuga og framsýni. Ein af fyrstu spurningunum sem varpað var fram var:

,EIGUM VIÐ AÐ BYGGJA KIRKJU?”

Eins og fyrr segir fór messuhald og önnur starfsemi safnaðarins fram á ýmsum stöðum til að byrja með. Bókanir sóknarnefndar bera með sér að nefndarmenn hafi reynt fyrstu árin að leysa brýnasta vanda safnaðarins en þó skín alltaf í það inn á milli að menn langaði að reisa kirkju. Á almennum safnaðarfundi þann 22. febrúar 1953, sem haldinn var að lokinni messu í Laugarneskirkju, virðist gífurlegur hugur hafa verið í mönnum. Þess má geta að Framfarafélag Vogahverfis var stofnað 20. maí 1952 og samþykkti það á aðalfundi sínum eftirfarandi tillögu:

,Fundurinn telur sjálfsagt að Langholtshverfi verði nú þegar sjálfstætt prestakall og felur stjórn félagsins að fylgja því máli einarðlega eftir.’ Þarna munu kunnugir menn þekkja handbragð Friðfinns heitins Ólafssonar sem var potturinn og pannan í félaginu. Tillagan var send biskupi og kirkjumálaráðherra. Einnig mun hafa farið fram undirskriftasöfnun til stuðnings málefninu.

Margt athyglisvert er að finna í bókun safnaðarins, m.a. er sr. Árelíus Níelsson boðinn velkominn til stafa, en hann var kosinn prestur hins nýja safnaðar hinn 12. október 1952. Síðar á þessum fundi segir formaður sóknarnefndar, Helgi Þorláksson: ,Við verðum að koma upp kirkju og það sem allra fyrst.’

Af næstu bókunum má ráða að þetta hafi menn verið búnir að ræða sín í milli og segir í bókun sóknarnefndar að ,safnaðarnefndin hafi nú þegar skrifað bæjarráði um þetta mál’. Helgi ræddi þetta mál ítarlega og ræddi m.a. um að hafa kjallara undir kirkjunni og nauðsynlegt væri að koma honum upp sem fyrst. Vilhjálmur Bjarnason hafði verið kosinn formaður fjáröflunarnefndar og lýsti hann væntanlegum aðgerðum nefndarinnar. Menn voru mjög brennandi í andanum og tillögugóðir, t.d. lagði Friðfinnur Ólafsson til að stofnað yrði kvenfélag. Friðfinni varð að ósk sinni því 12. mars var félagið stofnað. Eftir miklar umræður var eftirfarandi tillaga samþykkt: ,Almennur safnaðarfundur í Langholtsprestakalli haldinn 22. febrúar 1953 samþykkir einróma að hefja sem fyrst byggingu safnaðarkirkju. Fundurinn felur fjáröflunarnefnd að hefja þegar almenna söfnun fjár og vinnuloforða og heitir á alla bæjarbúa og leggja málinu fyllsta lið.’

Tillagan var samþykkt af öllum þeim safnaðarmeðlimum sem á fundinum voru. Á þessum tíma voru sóknarbörnin um 6.000 talsins.

Á fundi sóknarnefndar þann 4. júní 1953 kom fram að fjárhagsráð krefðist þess að ávallt yrðu til peningar fyrir framkvæmdum. Jafnframt kom fram að líkur bentu til þess að söfnuðurinn fengi 140.000 krónur til kirkjubyggingarinnar. Þá ræddu menn um væntanlega lóð fyrir kirkju og leist mönnum best á Hálogalandshæðina þar sem nú eru háhýsin við Sólheima.

Á fundi þann 25. september kom fram að skipulagsstjóri taldi að menn mættu fara að undirbúa kirkjubygginguna þar sem staðfesting á fjárveitingu borgarinnar væri nú til staðar. Létu nefndarmenn þá skoðun sína í ljós að nauðsynlegt væri að hefja framkvæmdir í vor. Þá ræddu þeir einnig staðsetningu kirkjunnar og stærð en slógu öllum ákvörðunum á frest til næsta fundar. Á honum létu menn sér þó nægja að skoða myndir og hurfu frá þeirri hugmynd að efna til samkeppni um gerð væntanlegrar kirkju.

Næsti fundur nefndarinnar var haldinn þann 18. nóvember 1953. M.a. atriða á fundinum ræddu menn um væntanlega kirkjubyggingu og að halda þyrfti almennan safnaðarfund um málið. Var formanni falið að annast þau mál.

Þann 5. desember sama ár hittust nefndarmenn til að ræða grunnmynd af væntanlegri kirkju sem Vilhjálmur Bjarnason hafði teiknað. Voru menn nokkuð sammála um gerð hennar eða eins og segir í fundargerð ;;Voru menn yfirleitt á einu máli um að hafa grunnflöt kirkjunnar með þessu sniði, a.m.k. í höfuðatriðum. Voru menn einnig sammála um að hefja byggingu strax á næsta ári.

Almennur safnaðarfundur var haldinn strax daginn eftir en var fremur illa sóttur. Fundarmenn voru þó allir ákafir í að byggja kirkju og virtust sammála um að hún risi í tveimur áföngum. Hinn fyrri væri salur sem síðar yrði notaður sem safnaðarheimili. Á þessum fundi var einnig lagt til að auglýst yrði samkeppni um gerð kirkjunnar og bygginganefnd kosin. Formaður lýsti því yfir að ekki hefði verið tekin nein ákvörðun um samkeppni en taldi að byggingarnefndn yrði kosin í næsta mánuði. Jafnframt sagði Helgi Þorláksson, formaður sóknarnefndar, að staðurinn væri fenginn og væri hann norður af Hálogalandshæðinni, í landi Langholts sem var eitt þriggja stórbýla þarna auk Bústaða og Klepps.

  1. janúar 1954 hittust sóknarnefndarmenn aftur og ræddu þá útlitsteikningu sem Sigurður Guðmundsson, húsameistari hafði gert. Voru allir óánægðir með hana og ákváðu að leita til annarra manna. Á fundi 9. mars kom í ljós að óskað hafði verið eftir tillögum frá 10 aðilum og höfðu tveir þeirra, Sigurður Guðmundsson og Þórir Baldvinsson sent inn tillögur. Engar ákvarðanir voru teknar á þessum fundi.

Á almennum safnaðarfundi 28. mars er bókað að beðið sé eftir tillögum að uppdráttum og engar nákvæmari upplýsingar sé hægt að gefa.

  1. apríl var ákveðið á fundi sóknarnefndar að flýta sér hægt og tryggja að þetta yrði fögur og lífleg kirkja og væri þá betra að bíða í eitt ár fremur en byggja hús sem fólk yrði ekki ánægt með. Á þessum fundi var ákveðið að ræða við Gunnar Ólafsson um að hann tæki að sér teikningu kirkjunnar.

Þann 13. apríl lá frammi skissa frá húsameistara ríkisins en engin ákvörðun tekin.

Öll formleg fundahöld virðast hafa legið niðri um sumarið og er næsti fundur ekki haldinn fyrr en 19. október 1954 en þá liggur fyrir uppdráttur Gísla Halldórssonar. Ekki var tekin nein ákvörðun um hann.

Á fundi 30. nóvember hefur enn borist tillaga og nú frá Hafliða Jóhannssyni.

Á fundi 6. desember kemur í ljós að Helgi Þorláksson hefur rætt við Hörð Bjarnason, húsameistara ríkisins, og hafði hann tekið vel í að gera tillögu-uppdrátt af kirkjunni.

Þann 12. desember 1954 var haldinn aðalfundur safnaðarins. Greindi formaður frá því að erfiðlega hefði gengið að fá arkitekta til þess að gera útlitsteikningar af kirkjunni. Hefði nú þess verið farið á leit við húsameistara ríkisins að hann sinnti því máli svo fljótt sem auðið yrði. Þá hefði það ekki verið til þess að auka ganginn, að söfnuðinum hefði verið synjað um fjárfestingaleyfi.

Þegar hér er komið sögu virðist nokkuð ljóst að gengið yrði að samningum við Hörð Bjarnason um að hann teiknaði kirkjuna og voru fundir hjá honum af og til í febrúar, mars og apríl. Hörður hafði síðan umsjón með verkinu allt til loka er kirkjan var vígð 16. september 1984.

Þann 2. maí 1955 kemur fram að húsameistari sé að láta endurskoða teikningar af kirkjunni og hafi fengið þýskan mann til þeirra starfa. Jafnframt kemur fram að umsókn um fjárfestingaleyfi hefur verið endurnýjað.

Á fundi sóknarnefndarinnar, 2. ágúst 1955, var lesið upp bréf frá Innflutningsskrifstofunni, þar sem fram kemur að synjað er um leyfi fyrir byggingu kirkju og safnaðarheimilis að grunnfleti 250 fm.

Þrátt fyrir þessi neikvæðu viðbrögð héldu menn ótrauðir áfram og ræddu um teikningu Harðar og mögulegar breytingar á henni. Virðast menn hafa séð þann kost vænstan að snúa sér að Herði Bjarnasyni þó að aðrar tillögur hefðu komið fram. Bera fundargerðir með sér að þetta mál hafið verið í stöðugri vinnslu allt sumarið og fram að 17. desember þegar líkan af kirkjunni er lagt fram. Tóku nefndarmenn þessari tillögu vel og töldu hana það besta sem fram hefði komið.

Daginn eftir var aðalsafnaðarfundur haldinn og gerði formaður þá grein fyrir stöðu kirkjubyggingar. Kvað hann margar tillögur hafa borist en menn væru nú komnir niður á að tillaga Harðar Bjarnasonar væri sú besta. Hann greindi einnig frá því að skv. skipulagi væri kirkjunni nú ætlaður staður við Suðurlandsbraut en hann kvað safnaðarstjórn hafa snúist hart gegn þeirri tillögu. Einnig kom fram synjun fjárfestingaleyfisins og jafnframt að synjað hefði verið umsókn um styrk úr kirkjubyggingasjóði borgarinnar. Mætti því ætla að allur vindur væri úr mönnum en það var öðru nær. Hvatti formaður mjög til aðgerða, stofna þyrfti bræðrafélag og skipa bygginganefnd og gera allt sem hægt væri til þess að koma byggingunni af stað.

  1. mars 1956 kemur fram í bókum sóknarnefndar að enn hafi ekki fengist leyfi fyrir kirkjubyggingunni frá ríkisstjórninni en hins vegar sé húsameistari ríkisins byrjaður að teikna prestshús fyrir söfnuðinn. Þar um höfðu prestur og söfnuður tillögurétt. Þá er þess getið að þegar sr. Molander, starfsmaður Alkirkjuráðsins, hafi komið til landsins hafi hann bent á að mögulegt væri að fá vinnuflokk frá ráðinu til vinnu við kirkjubygginguna.
  1. mars 1956 var haldinn fundur þar sem fram kom að gjafir séu teknar að berast til kirkjubyggingarinnar. Þá er þess getið að kirkjan muni standa við Sólheima. Menn voru ekki á eitt sáttir um nafn kirkjunnar og komu fram tillögur um Hálogalandskirkju og Langholtskirkju. Engin ákvörðun var tekin um það efni og menn beðnir að velta nafngift fyrir sér um tíma. Enn var rætt um bygginganefnd en hún ekki skipuð.

Safnaðarfundur Langholtssafnaðar var haldinn 25. mars 1956. Þar gerðist það merkilegast að fundurinn samþykkti endanlega að byggt skyldi eftir teikningu Harðar Bjarnasonar, húsameistara. Var tillaga þess efnis flutt af sóknarnefnd og safnaðarfulltrúa. Ríkti svo mikill einhugur um málið að enginn tók til máls um tillöguna og var hún samþykkt. Á fundinum var endanlegri staðarákvörðun lýst og þá var komin hin endanlega niðurstaða í því máli. Formaður endaði ræðu sína á þessum fundi svo: ,,Við höfum stigið örlagaríkt spor með því að samþykkja kirkjubygginguna en hversu örlagaríkt veit ég ekki á þessu stigi málsins. Ég tel að fólkið skilji að hér eru ekki farnar troðnar brautir í þessu máli, heldur farnar nýjar leiðir með byggingu félagsheimilis áföstu við kirkjuna.´

Að lokinni messu 2. september 1956 var gengið í skrúðgöngu frá Hálogalandsbragganum að hinum útvalda stað við Sólheima og þar tók sr. Árelíus fyrstu skóflustunguna að safnaðarheimili og kirkju.

Ekki var skipulagningu svæðisins enn lokið og ekki höfðu fengist tilskilin leyfi og því var ekkert frekar gert á staðnum að sinni.

Á fundi sóknarnefndar 30. október þetta ár var Örnólfur Valdemarsson kosinn gjaldkeri safnaðarins og kirkjubyggingar-sjóðsins. Þá er jafnframt minnst á Vilhjálm Bjarnason formann byggingarnefndar en þess ekki getið hverjir voru með honum í nefndinni eða hvenær hún var stofnuð. Ljóst er þó að það hefur átt sér stað á tímabilinu 25. mars – 30. október en á því tímabili er enginn bókaður fundur sóknarnefndar.

  1. nóvember er ekkert nýtt að frétta af kirkjubyggingu annað en að óskað var eftir því að bygginganefndin hefði trésmið sér til aðstoðar og helst einnig múrarameistara. Nefndin hafði þá þegar ráðið Kristján Einarsson og var það látið nægja að sinni. Þá hafði enn ekki ræst úr með leyfin.

Ekki er bókaður neinn fundur sóknarnefndar frá 5. nóvember 1956 til 14. apríl 1957. Þá kemur fram í fundargerð að Kristjáni Einarssyni og Bergþóri Ólafssyni, byggingameisturum var falið að hefja framkvæmdir við húsgrunninn og skyldu þeir vinna í tímavinnu.

Ekki verður séð af gögnum hvenær á fyrrgreindu tímabili tilskilin leyfi fengust.

  1. mars 1957 var haldinn fyrsti fundur bygginganefndar að Lauskálum. Mættir voru: Vilhjálmur Bjarnason, formaður, Finnur kristjánsson, Jón Björnsson, Hafsteinn Guðmundsson, Báður Sveinson og Kristján Einarsson.

Vilhjálmur greindi frá að nú væri ekkert til fyrirstöðu um að taka hæðarpunkta hvenær sem væri. Þá var samþykkt að fela Almenna byggingarfélaginu að gera járnateikningar og leita til Gísla Halldórssonar, verkfræðings, um hitalögn í húsið. Þá var Kristjáni Einarssyni og Bergþóri Ólafssyni, byggingameisturum, falið að gera þennan hluta fokheldan.

Þann 30. mars 1957 hófust framkvæmdir. Í tilefni þess er haft eftir Vilhjálmi:,,Þetta er geysileg bygging fyrir 12-15 þúsund manna söfnuð, heil stofnun fyrir margar kynslóðir. Sannaðist þar sem fyrr að erfitt er að spá um framtíðina.

Á fundi bygginganefndar 16. júní 1957 var samþykkt að fela Finni B. Kristjánssyni að leggja raflögn í bygginguna eftir teikingum Aðalsteins Guðjohnsen, rafmagnsverkfræðings, en honum var falið að teikna fyrsta flokks raflögn í húsið.

  1. júní kom fyrrnefndur hópur frá Alkirkjuráðinu til landsins og tók safnaðarnefndin á móti þeim í húsakynnum Ungmennafélags Reykjavíkur við Holtaveg. Í hópnum voru 21 aðili frá 7 löndum að Íslandi meðtöldu. Þessi hópur vann síðan í heilan mánuð við grunninn undir stjórn byggingameistaranna og dr. Þóris kr. Þórðarsonar. Þar voru og þrír núverandi prestar, þeir sr. Hjalti Guðmundson, sr. Frank M. Halldórsson og sr. Kristján Búason.

Áfram var haldið með bygginguna um sumarið. Erfiðlega gekk þó að fá sement og vegna sumarleyfa var alltaf erfitt að fá tilskilin leyfi til framkvæmdanna, þá drógust greiðslur úr bæjarsjóði en allt þetta var víst öruggur fylgifiskur húsbyggjandans og því óþarft að geta þess sérstaklega. Síðari hluta sumarsins var aðallega rætt um fjáröflun til kirkjubyggingarinnar. Formlegir fundir lágu að mestu leyti niðri en eins og þegar líkt er ástatt eru óformlegar viðræður oftar gagnlegri en hitt. Mikill áhugi var í fólki, fjárgjafir bárust til kirkjunnar og safnaðarstarfsemi var ótrúlega öflug þrátt fyrir aðstöðuleysi. Leyfi hafði fengist til byggingar prestsetursins rétt við væntanlega kirkju og hillti þar undir lausn á húsnæðisvandamálum prestsins, séra Árelíusar.

  1. janúar 1958 var haldinn fundur sóknarnefndar. Þar er skýrt frá að boð hafi komið frá Alkirkjuráðinu um að senda annan flokk á sumri komanda en Vilhjálmur Bjarnason, formaður byggingarnefndar segir að vegna fjárskorts og óvissu um fjárfestingaleyfi sé ekki hægt að þiggja það boð á þeirri stundu. Hann bætti við ,, að vegna fjárskorts getum við ekki tekið ákvörðun um framtíðina.´´ Hann lagði til að sótt yrði um fjárfestingaleyfi fyrir einni og hálfri milljón. Undir lok fundarins ákváðu menn að ekki væri hægt að þiggja boð Alkirkjuráðsins að þessu sinni en menn legðu allt kapp á fjáröflun til byggingarinnar.

Fyrrihluti ársins 1958 virðist hafa verið mjög erfiður. 19. janúar greinir formaður byggingarnefndar frá því að safnaðarheimilið sé uppsteypt og nú sé nauðsynlegt að koma þaki á það hið fyrsta. Þá kom í ljós að ekkert fé var til og framkvæmdir höfðu orðið dýrari en menn reiknuðu með. Benti Kristján Einarsson m.a. á að vegna bratta þaksins sæktist vinna við það ákaflega seint. Á næstu fundum gekk allt út á að fá fjárfestingarleyfi frá Innflutningsskrifstofunni fyrir árið 1958 og finna ráð til fjársöfnunar. Virðist nokkuð þungur tónn í mönnum á þessum tíma, m.a. segir sr. Árelíus um fjársöfnun í söfnuðinum: ,,En vissulega varð hún ávallt nokkur vonbrigði þó alltaf kæmi eitthvert fé inn. Segja mátti að svo liti út sem fjöldinn, hin ýmsu sóknarbörn kæmust aldrei fyllilega í takt við framkvæmdagleði og fórnarstarf foringjanna. Það er ekki ósennilegt því trúlega hefur taktur þeirra verið nokkuð stífur og líklega frekar undansláttarlaus og almenningur átti erfitt með að stíga svo stífan dans til lengdar. Fundargerðir bera með sér að erfitt er fyrir fæti en áhuginn er óbilaður svo og kjarkurinn en nú blés meira á móti en við var ráðið að sinni.´´

Enginn bókaður fundur er hjá sóknarnefnd frá 18.apríl til 20. desember þetta ár. En þá var,,eins og allt vaknaði af svefni hins örþreytta erfiðismanns´´ segir sr. Árelíus. En morguninn var ekki bjartur. Ekki hafði verið hægt að taka á móti sjálfboðaliðum, kirkjudagurinn hafði fallið niður, fjárfestingaleyfum hafði verið synjað og þær aðfinnslur borist frá Innflutningsskrifstofunni að farið hefði verið fram úr áætlunum og síðast en ekki síst, allir sjóðir tómir. En þrátt fyrir þetta hafði verið unnið við kirkjuna, hún var að verða fokheld 20. desember 1958, en þá var haldinn sóknarnefndarfundur. Þá voru öll fjárfestingaleyfi að verða fullnýtt en eftir voru þó í sjóði um 4.000 kr. en framkvæmdir höfðu kostað 1.100.000 kr.

Þó var ein gleðifregn færð á fundinum. Nú var prestsetrið Sólheimum 17 tilbúið og hafði verið tekið í notkun 12. desember. Þá fékk söfnuðurinn símanúmer sitt 35750. Í júní 1959 var byrjað að pússa að innan og miðstöð lögð í samkomusalinn.

Nú leið langur tími eða allt til 9. september 1959 að næsti fundur sóknarnefndar er bókaður. Á þeim tíma þokaðist allt í rétta átt með bygginguna. Vilhjálmur skýrði frá því hvað hafði gerst frá því um áramótin en þá hafði verið unnið við glugga og þak og þar með hefði fjárfestingaleyfið verið fullnýtt. Eftir áramót hafði verið reynt að kaupa efni til miðstöðvarlagnarinnar og sótt hafði verið um fjárfestingarleyfi sem fékkst ekki fyrr en í maí.

Miklar umræður fóru fram um efni á þakið og hafði tilboða verið leitað hérlendis sem erlendis og hafði m.a. borist tilboð í þakklæðninguna frá London en það þótti nokkuð dýrt og því taldi Vilhjálmur heppilegra að bíða með lokaákvörðun um það.

Á þessum fundi, 9. september, var lögð fram gjöf hjónanna Bergþóru Þorbjörnsdóttur og Karls Runólfssonar, ný útgáfa Guðbrandsbiblíu og sýnist það vera fyrsti helgigripur sem söfnuðurinn eignast. Þá var enn sem fyrr rætt um fjáröflunarleiðir vegna byggingarinnar. En hvernig var hún svo þessi bygging?

Vilhjálmur Bjarnason lýsir henni svona:

,,Safnaðarheimilið er allstór bygging sem samanstendur af einum samkomusal, 220 fm. og öðrum minni fundarsal, u.þ.b. 90 fm, auk þess er rúmgott anddyri, stórt eldhús, tvær snyrtingar og fatageymsla. Flatarmál þessarar byggingar er nálægt 500 fm. Undir hluta af þessari byggingu er kjallari sem er rúmlega 100 fm að gólffleti. Þar er hita- og lofthreinsunarkerfi byggingarinnar auk annarra herbergja. Yfir anddyri, sem er hátt og rismikið, er 120 fm salur.

Eins og fyrr segir voru það byggingameistararnir Kristján Einarsson og Bergþór Ólafsson sem sáu um að gera þennan áfanga fokheldan. Frá embætti húsameistara ríkisins kom Sveinn Kjarval og gerði tillögur um innréttingar, ljós og liti. Pípulagningameistari voru Benedikt Geirsson og Páll Magnússon og Finnur B. Kristjánsson tók að sér allt ljósa og rafkerfi hússins. Sveinn var síðan meira og minna ráðgjafi byggingarnefndar í útlitsmálum.

Sunnudagurinn 15. nóvember hlýtur að teljast tímamótadagur í sögunni þegar Safnaðarheimilið var opnað til fundahalda þó enn væri moldargólf í húsinu. Þann dag var haldinn þar fundur með fulltrúum hinna ýmsu félaga innan safnaðarins og var hann jafnframt fyrsti formlegi fundurinn sem þar var haldinn. Þennan fund sátu:

Helgi Þorláksson, formaður sóknarnefndar
Vilhjálmur Bjarnason, formaður byggingarnefndar
Magnús Jónsson, alþingismaður
Örnólfur Valdemarsson, útgerðarmaður,
Hafsteinn Guðmundsson, járnsmiður,
Bárður Sveinsson, forstjóri,
Kjartan Gíslason, málari,
Bergþór Magnússon, bóndi,
Helgi Elíasson, húsgagnabólstrari,

  1. Árelíus Níelsson, sóknarprestur.

Þar flutti sr. Árelíus nokkur orð, sunginn var sálmurinn: ,,Í fornöld á jörðu var frækorni sáð”, lesið úr fyrra Korintubréfi 3, 10-14 og stundin endaði á sálminum:,,Þín miskunn, ó Guð er sem himinninn há´´ . Að þessu loknu var gengið til fundarstarfa sem snerust fyrst og fremst um fjáröflun.

Hinn 29. nóvember 1959 var messað í fyrsta skipti í Litla salnum. Þar var einnig skírt barn.

  1. desember sama ár, sunnudag, hélt sóknarnefndin fyrsta fund sinn í Safnaðarheimilinu. Þar sagði Vilhjálmur frá hitakerfinu, sem yrði fimmskipt, svo ekki þyrfti að hita alla hluta hússins upp þó einhver hluti þess væri notaður. Hann sagði að loftræstingin yrði nokkru dýrari en hún hefði þurft að vera vegna þess að það hefði gleymst að teikna hana inn á frumteiknnguna. Þá ræddu menn um að hafa litað gler í dyrastafninum en engin ákvörðun var tekin um það og sýndist mönnum það dýrt auk þess sem ýmsir annmarkar væru á því. Fundarmenn lýstu yfir því að nauðsynlegt væri að koma upp hreinlætistækjum, fyrr væri ekki hægt að boða til samkomu. Þá veltu menn því fyrir sér hvort hægt væri að hafa aftansöng á jólum í safnaðarheimilinu og lýstu menn sig fúsa til að gera allt sem þyrfti svo það væri hægt. Einnig ákvað sóknarnefndin að barnaspurningar skyldu fara fram í Safnaðarheimilinu eftir áramótin.

Laugardaginn 12. desember 1959 var heldur þungt hljóð í formanni sóknarnefndar og sagði hann ,,mörg dökk ský grúfa yfir á fjárhagshimni okkar en vonandi birtir brátt aftur´´ . Á fundinum kom fram að barnasamkoma yrði haldin í kirkjunni næstkomandi sunnudag og yrðu þá komnir lánsstólar úr Sundhöll Reykjavíkur í salinn. Ákvörðun var tekin um að messa á aðfangadagskvöld í Safnaðarheimilinu og sömuleiðis á annan dag jóla en á jóladag skyldi messað í Laugarneskirkju. Einnig var ákveðið að hafa aftansöng á gamlaárskvöld í Safnaðarheimilinu svo og messu á nýársdag.

Síðasti fundur ársins 1959 var haldinn 27. desember. M.a. voru þar lagðar fram teikningar að eldhússkipulagi og innréttingum í anddyrinu.

Aðalfundur safnaðarins var haldinn 27. febrúar 1960. Þar kemur fram að bygging Safnaðarheimilisins, sem sr. Árelíus lagði til að kallað yrði Kirkjuhvoll, hafði kostað um 2,6 milljónir. Vilhjálmur Bjarnason sagði að lögð yrði áhersla á að taka stóra salinn í gagnið sem fyrst og ganga frá eldhúsi þó endanlegur frágangur þess yrði látinn bíða að sinni.

5. mars þetta ár var haldinn sóknarnefndarfundur. Þar var lesið bréf frá Menntamálaráðuneytinu þar sem söfnuðinum var tilkynnt að Langholtskirkja væri einn þeirra staða sem til greina kæmi að fengi styrk úr Félagsheimilasjóði.

Erfitt var fyrir fæti sumarið 1960. Þó kom teikningin af stóra salnum og var hún tekin til skoðunar. Stólar höfðu verið keyptir úr Hafnarbíói og voru þeir skafnir upp og lakkaðir.

Á fundi sem haldinn var 14. nóvember er dálítið þungt hljóð í mönnum. Sr. Árelíus getur þess að ekki hafi verið sama hlýja einingin í samstarfinu og áður var. Skyldi engan undra þó þreyta eftir langvarandi erfiði og stundum vonbrigði tækju sinn toll og styttu skapið á stundum. Ekki er þó svo að skilja að allt hafi farið í rifrildi og vesen, heldur mátti fremur greina það á orðavali og svipbrigðum eins og sr. Árelíus segir. Bar helst á þessu þegar hann ræddi um kennslu sína sem hann vildi fá inni með í safnaðarheimilinu.

Fjórum dögum seinna var haldinn annar fundur og sá síðasti á þessu ári. Áfram var unnið eftir áætlun og eftir því sem peningar leyfðu.Unnið var við forsalinn, litli salurinn lagfærður og unnið í eldhúsinu. Kvenfélag Langholtskirkju hét því að gefa innréttingar í það.Tilboði Gísla Skúlasonar og Hlíðberg, í innréttingar að upphæð kr. 38.000.- var tekið. Jón Björnsson, málarameistari sá um málningarvinnu.

Næsti fundur var ekki haldinn fyrr en að vori þann 14. maí 1961.

Þá sagði Vilhjálmur frá því að ekki hefði verið hægt að vinna mikið vegna fjárskorts. Þó hefði verið gengið frá kjallara, hann pússaður og málaður, gengið frá snyrtingum og eldhússinnréttingum sem fyrr segir voru gefnar af kvenfélaginu

Þriðjudaginn 11. júlí 1961 var fundur í sóknarnefnd. Þar greindi formaður byggingarnefndar frá því að ákveðið væri að bjóða út næsta áfanga sem væri stóri salurinn. Lokið væri við útboðslýsingu á honum og væri hún í 11 liðum. Í tilboðinu var sú kvöð að verkinu lyki ekki síðar en 10. desember sama árs. Þá var talin knýjandi nauðsyn á því að ganga frá þakinu fyrir veturinn. Áætluðu menn að til þessara framkvæmda þyrfti 1 milljón króna.

Eins og fleiri sumur lágu fundir niðri að mestu leyti sumarið 1961. Flest var í biðstöðu en áfram mjakaðist þó.

Sóknarnefnd kom aftur saman eftir sumarleyfi þann 8. september. Þá greindi Vilhjálmur frá því að tvö tilboð hefðu borist í innréttingar í Stóra salinn og hefði tilboði Gissurar Sigurðssonar verið tekið og væru verklok hans miðuð við 15. september þetta ár. Þá skýrði Vilhjálmur einnig frá því að Nýja blikksmiðjan hefði gert tilboð í aluminiumklæðningu á þökin og hefði því verið tekið. Hann taldi að sá áfangi sem nú væri fyrir höndum myndi kosta um 760.000 krónur.

Á meðan þessar framkvæmdir stóðu yfir lá allt safnaðarstarf í húsinu niðri. Reynt var eftir föngum að fá húsnæði úti í bæ en það hentaði oft illa og þá ekki síður sá tími sem falur var. Vinnan hélt áfram, átakalaust og stefndi allt að því að aftansöngur jóla yrði sunginn á þessum vetri undir eigin þaki.

Á aðfangadag kom sóknarnefndin saman í Stóra salnum og leit yfir hann en hann var þá fullbúinn. Ljósið logaði bak við krossinn og gerði salinn enn hátíðlegri en ella.

Kvenfélagið hafði gefið messuklæði og bræðrafélagið hafði gefið hátalarakerfi í alla bygginguna. Þá var enn eftir að fullgera anddyrið en þar var gólfið m.a. ófullgert og kvað Vilhjálmur brýna nauðsyn að ganga í það verk sem fyrst. Þá afhenti formaður sóknarnefndar drög að reglum um Safnaðarheimilið.

Þær voru mikið vandaverk því þetta var fyrsta safnaðarheimili sem byggt hafði verið í sögu íslensku þjóðkirkjunnar. Á fundi síðar á jólum, 28. desember, var tilkynnt að Félagsheimilasjóður hefði loksins tilkynnt um úthlutun til safnaðarins, kr. 25.000. Þá voru enn ræddar reglur um umgengni í húsinu og voru menn í öllum aðalatriðum sammála en þó segir sr. Árelíus að skoðanamunur hafi verið áberandi, frjálslyndi og strangleiki toguðust á, einkum gagnvart reykingum og veitingum. Þá var rætt um hvort mætti eða ætti að vígja Stóra salinn. Presturinn taldi að vel mætti vígja salinn, hann væri það glæsilegur en hann kvaðst hræddur um að vígsla hans mundi draga úr áhuga fólksins á kirkjubyggingunni.

Síðasti fundur ársins 1961 var haldinn 31. desember. Þá var enn rætt um reglur safnaðarheimilisins, engin lokaákvörðun tekin en það þó ákveðið að engin önnur starfsemi mætti fara fram í Stóra salnum, að sinni, en sú sem mætti fara fram í kirkju.

Fyrsti fundur 1962 var 27. janúar. Á þeim fundi var gengið frá bráðabirgðaráðningu Hafsteins Guðmundssonar sem fyrsta húsvarðar Safnaðarheimilisins en áður hafði Bjarni Ívarsson aðstoðað og á sóknarnefndarfundi þann 27.2.1960 er rætt um Friðrik Gíslason sem kirkjuvörð en hans er ekki getið eftir það í fyrirliggjandi gögnum.

Laugardaginn 10. mars var haldinn fundur í sóknarnefnd. Þar kom fram vilji biskups, dr. Sigurbjarnar Einarssonar, til að vígja Stóra salinn til helgihalds og þá aðeins þann hluta sem á palli væri svo og altarisbúnað. Þá kom fram að leyft yrði að halda veislur, s.s. fermingar- og brúðkaupsveislur í húsakynnum safnaðarins. Á fundinum afhenti sr. Árelíus söfnuðinum píanó en meirihluti af því var gjöf frá Unglingastúkunni Hálogalandi og að minni hluta fjármagnað með hagnaði af Jólablaðinu Hálogalandi. 25. mars 1962 var Stóri salurinn, eða hluti hans vígður til helgihalds. Þetta þótti mikill viðburður og má geta þess að biskup óskaði eftir því að haldinn yrði blaðamannafundur í tengslum við vígsluna. Gengið var fylktu liði frá prestssetrinu í salinn og helgigripir bornir á altarið á pallinum. Sem fyrr segir gaf kvenfélag kirkjunnar, undir stjórn frú Ólafar Sigurðardóttur, messuklæði, hökul gerðan í Englandi og handunna stólu og danskt rykkilín. Ennfremur gaf kvenfélagið dregla á gólf og fyrir altari og mestan hluta altarissilfursins gaf félagið einnig. Það samanstóð af könnu, kaleik, öskju, oblátudisk og 200 bikurum. Hluta þessa silfurs gáfu Helga Guðmundsdóttir og Ólafur Magnússon og var gjöfin helguð foreldrum Helgu, þeim Sólveigu Guðmundsdóttur og Guðmundi Jóhannssyni í Öxney. Hinn hluti silfursins var gefinn af systkinum Kristínar N. Love framkvæmdastjórafrúar í Los Angeles þeim Dagnýju, Sigurði og sr. Árelíusi, börnum Níelsar Árnasonar í Flatey á Breiðafirði og erfingjum Kristínar hér á landi, Guðrúnu Jensdóttur og Kristni Sigurðssyni prentara. Tvær sjöálma ljósastikur voru gjöf frá Kristínu og Magneu Hannesdætrum, frænkum sr. Árelíusar, til minningar um fóstru þeirra Katrínu. Skírnarfonturinn var hannaður af Sveini Kjarval og smíðaður af hans mönnum. Þessa hluti auk Guðbrandsbiblíu sem fyrr er getið blessaði biskupinn í þessari vígslu.

Á safnaðarfundi hinn 3. júní kemur fram að framkvæmdum sé nú að mestu lokið, eftir sé að fullgera eldhúsið, setja þak á anddyrið og ganga frá loftræstingu. Þá vantaði enn borð og stóla í Litla salinn. Þetta hafði söfnuðurinn gert á 10 árum, barist frá því að eiga ekki neitt og upp í það að eiga fyrsta safnaðarheimili sem vitað er um á Íslandi og eiga messuaðstöðu fyrir 800-900 manns auk aðstöðu fyrir fundi og annað safnaðarstarf. Borð og stóla var síðan samþykkt að kaupa frá Járnsmiðju Kópavogs hinn 7. nóvember 1962.

Eftir vígsluna þótti mörgum sem mesti krafturinn væri úr mönnum enda eðlilegt eftir langt og erfitt starf. Sr. Árelíus telur sig hafa fundið forystumennina fjarlægjast ýmist vegna veikinda eða anna. Þá er ljóst að kvíði var í mönnum vegna væntanlegrar breytingar á prestakallaskipan í Reykjavík. Þetta allt virðist hafa haft þau áhrif að minna var um fundi og sá eldlegi kraftur sem einkenndi fundina framan af er nú nánast horfinn. Alltaf var þó haldið áfram eftir því sem efni og aðstæður leyfðu. Þannig var það nefnt á fundi 11. september 1963 að eftir væri að fullgera loftræstingakerfið, setja tvöfalt gler í austurglugga á gangi, þakrennur skorti, múrhúðun á útveggjum beið og enn átti aftir að ganga frá kvistum á þaki og lokafrágangi þess. Sr. Árelíus greindi frá því á fundinum að tveir ljósastjakar, gólfstjakar, hefðu borist að gjöf frá safnaðarmanni sem ekki vildi láta nafn síns getið.

Það sem eftir lifði ársins var fundað nokkuð en snerust þeir um breytingu á sem orðin var við að það Ásprestakall hafði verið stofnað með að höggva hluta af Langholts- og Laugarnessókn. Þá var einnig bætt við presti í Langholtssókn hinn 12. desember er sr. Sigurður Haukur Guðjónsson var kosinn prestur með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Mótframbjóðandi hans var sr. Magnús Runólfsson. Þess skal einnig getið að kórinn afhenti söfnuðinum pípuorgel, fremur lítið en vandað. Orgelið var ekki nýtt en þjónaði tilgangi sínum með prýði í u.þ.b. 20 ár. Þá ber að geta sjóðsstofnunar Laufskálahjónanna, Elínar Kristjánsdóttur og Vilhjálms Bjarnasonar, en þau stofnuðu klukknasjóð fyrir kirkjuna með 35.000 króna framlagi sem þá var stærsta gjöf sem einstaklingar höfðu gefið.

Fyrrnefnd breyting á prestaköllum hafði það í för með sér að sóknarbörnum í Langholtsprestakalli fækkaði úr 9.875 í 7.547 og gjaldendum hlutfallslega. Þetta þýddi að sjálfsögðu minni sóknargjöld og færri hendur til að koma upp kirkjunni. Á þessu ári var fjárhagur kirkjunnar alls ekki slæmur og má reikna með því að áfram hefði verið haldið af fullum krafti hefði þessi skerðing ekki komið til. Hér verða óhjákvæmilega nokkur þáttaskil í sögu safnaðarins, bæði með fækkun sóknarbarna og svo annars prests. Þessa virðist gæta strax á árinu 1964 en það ár voru fundahöld óvanalega mikil. Sr. Sigurður Haukur tók við starfi sína 1. janúar það ár og er ekki ólíklegt að hann hafi gefið þann straum sem á vantaði eftir þreytu og vonbrigði síðasta áratugar en jafnframt gleði og ótrúleg grettistök sem lyft hafði verið. Fyrstu mánuðirnir liðu við skipulagningu starfsins, setningu reglna fyrir heimilið og önnur þau mál er fylgja flokki í sóknarhug. Enn var eftir lokafrágangurinn, sem fyrr er á minnst, á Safnaðarheimilinu og rætt var um fjáröflun til þess verkefnis. Auk þess var nú nýtt hugtak orðið til, þ.e. rekstrarkostnaður. Var áætlun fróðustu manna á þann veg að rekstrarkostnaður fyrir árið 1964 yrði kringum 300.000 krónur. Átti þetta hugtak eftir að festast í sessi og mun lifa góðu lífi í dag.

Annar tímamótaatburður varð um þetta leyti, nánar tiltekið í mars, sem átti eftir að hafa veruleg áhrif á safnaðarstarf. Það var þegar Máni Sigurjónsson, organisti, sagði lausu starfi sínu. Helgi Þorláksson hljóp þá í skarðið um skeið, en hann var fyrsti organisti kirkjunnar. Dr. Páll Ísólfsson benti þá á ungan og efnilegan nemanda sinn norðan úr landi sem héti Jón Stefánsson. Var Jón þegar ráðinn til að spila við fermingar og messur út maí en ekki var honum treyst fyrir því að leika við altarisgöngur, þar var Kristinn Ingvarsson fenginn til aðstoðar. Það kom síðan í hlut prestanna að ræða við hinn unga organleikara og ráða hann til starfa. Hafði þá lengi verið gengið eftir Hauki Guðlaugssyni og Guðjóni Guðjónssyni að taka organistastarfið að sér. Haukur kom aldrei til starfa en Guðjón starfaði í u.þ.b. fimm mánuði.

Fátt stórra atburða átti sér stað á næstunni. Þess er getið á fundi 15. apríl að söfnuðinum hafi borist sálmabækur að gjöf frá Elliheimilinu Grund og jafnframt að nokkrar konur í kvenfélaginu hafi gefið ísskáp í eldhúsið. Á sama fundi var ákveðið að taka hitaveitu í húsið. Þá gat þáverandi gjaldkeri Garðar Þórhallsson þess að í sjóði væru nú 170.000 krónur en fyrir lægi að greiða á næstunni 30.000 kr. vegna loftræstingar. Má af þessu sjá hve fádæma vel tókst að koma þessari byggingu upp.

Á fundi 3. febrúar 1965 kemur fram að búið sé að ráða múrarameistara, Hans Blómsterberg, og muni hann hefja störf innan tíðar. Það brást reyndar og kom annar maður til starfa síðar. Þar kemur einnig fram að Cudo-gler, en eigandi fyrirtækisins, Vilhjálmur Bjarnason, hafði gefið glerið í kvistgluggana. Á þeim sama fundi kom fram að kórinn lagði til að organistavandamálið yrði leyst til frambúðar með því að ráða Jón eins lengi og hægt væri.

  1. maí 1965 er ákveðið á sóknarnefndarfundi að kaupa kirkjuklukkur frá þýsku fyrirtæki. Þetta voru alls 5 klukkur en ákveðið var að kaupa þær þrjár minnstu fyrst. Þá var einnig ákveðið að ráða Jón Stefánsson svo lengi sem hægt væri.
  1. október segir formaður byggingarnefndar, Vilhjálmur Bjarnason, að ef allar fjárveitingar til safnaðarins innheimtist sé hægt að greiða alla reikninga vegna byggingarinnar. Þann dag kemur einnig fram að Kristján Einarsson hafði lofað húsvörslu í tvo mánuði en Hafsteinn Guðmundsson, fyrsti húsvörður Safnaðarheimilisins, hafði þá látið af störfum. Sr. Sigurður Haukur benti á að húsið væri orðið svo stórt og starfsemi mikil að nauðsynlegt væri að hafa fagmann við eftirlit og viðhald. Greip Helgi Þorláksson það á lofti og lagði til að lagt yrði að Kristjáni að taka að sér húsvörsluna og studdu allir viðstaddir tillögu hans.
  1. október 1965 var greint frá því að kirkjuklukkurnar væru komnar en það vantaði fé til að koma þeim upp fyrir jól. Þá var einnig reifuð sú hugmynd að koma á fót hússtjórn fyrir heimilið þar sem starfsemi væri orðin þar svo mikil.

Þann 22. mars 1966 varð samkomulag með sóknarnefndinni og Kristjáni Einarssyni að hann tæki að sér húsvarðarstarfið.

  1. júní 1966 er tekið fyrir bréf frá Kvenfélagi Langholtssafnaðar, til sóknarnefndar þar sem félagið skorar á sóknarnefndina að hefja kirkjubygginguna sem fyrst og láta það ganga fyrir öðrum framkvæmdum. Samþykkti sóknarnefndin að ljúka þeim áfanga sem nú væri senn í höfn áður en lagt yrði í kirkjubygginguna. Það verk þyrfti að hugsa vel og benti Helgi Þorlákson á að vel þyrfti að hyggja að orgeli og kór eins og öllu öðru í hinni væntanlegu kirkju. Ræddu menn um að gefa út bækling og kynna safnaðarbörnum málið þegar það væri komið aðeins á rekspöl, búið að gera áætlun um upphaf verksins, framhald og hvenær byggingunni ætti að vera lokið.

Þarna var kirkjubyggingin aftur komin á dagskrá hjá sóknarnefndinni. Skiljanlega var hún ekki ginnkeypt fyrir því að leggja í kostnaðarsama framkvæmd alveg strax eða áður en fólk væri búið að jafna sig eftir fyrri átök. Eftir þetta má þó segja að hugurinn hafi staðið til frekari framkvæmda þó enn yrði beðið um sinn.

Á aðalfundi safnaðarins fyrir 1964 og 1965 kom fram að gjaldendur til safnaðarins væru nú 4.500 en hefður verið 5.296 árið 1963. Þá vék formaður, Helgi Þorláksson, að framtíðarverkefninu, byggingu kirkjunnar og sagði að vanda þyrfti til allra verka. Formaður byggingarnefndar greindi frá því að nú væri flestu lokið við gerð Safnaðarheimilins og kirkjuklukkurnar hefðu verið settar upp fyrir jólin 1965. Hann gerði og væntanlega kirkjubyggingu að umtalsefni. Hann taldi ekki viturlegt að byrja fyrr en söfnuðurinn hefði milljónir milli handa og gera þá kirkjuna fokhelda í einum áfanga, það væri svo dýrt að byggja á löngum tíma. Hann hvatti menn þó til að stefna að þessu marki sem allra fyrst. Þá kom einnig fram að á síðustu mánuðum hafði verið unnið við stafn anddyrisins. Tekið var tilboði frá Kaupfélagi Árnessýslu í uppsetningu og smíði hans. Var þetta mikill fegurðarauki því til þess tíma og allt frá 1960 er byggingin var gerð fokheld var stafninn klæddur pappaklæddum borðum.

  1. nóvember 1966 óskaði Helgi Þorláksson eftir því að verða leystur undan störfum sem formaður sóknarnefndar. Þótti mönnum að vonum skaði að missa Helga en því varð ekki breytt og á fundinum var þess óskað að Vilhjálmur Bjarnason tæki við og féllst hann á að gegna því starfi til næsta aðalfundar. Þá óskaði Bárður Sveinsson einnig eftir því að verða leystur frá störfum og komu Friðfinnur Ólafsson og Kjartan Gíslason í nefndina í stað hinna tveggja.

Næst er að geta fundar sem haldinn var 7. febrúar 1967. Þar er þess m.a. getið að fótsnyrtingarþjónusta kvenfélagsins hefði hafist um sl. áramót en fram að því hefði hún verið í umsjón Elliheimilisins Grundar. Þá er þess og getið að gjaldendur séu nú 4.344 og fjárhagsstaða alls ekki slæm.

  1. maí var sýnt líkan af allri kirkjubyggingunni og leist mönnum verkið harla gott nema turninn sem ekki hlaut náð fyrir augum sóknarnefndarinnar. Þá ræddu menn væntanleg byggingarmál lítillega. Eftir þennan fund má segja að byggingarmálin hafi verið rædd á hverjum fundi nefndarinnar.

Aðalfundur safnaðarins var haldinn 18. maí 1967. Þar kom fram í máli sr. Árelíusar að hér væri risið mikið mannvirki á auðri klöpp og skapaði það góða aðstöðu fyrir unga og aldna. Hann sagði að áfram yrði unnið á sömu braut og alltaf væri eitthvað að hlakka til og nú væri það kirkjubyggingin. Formaður sóknarnefndar og nú einnig byggingarnefndar, Vilhjálmur Bjarnason, greindi frá því að kirkjubyggingin væri undirbúin meðan safnað væri peningum. Þó væri ekki lengra komið en svo að útlínur kirkjunnar hefðu verið samþykktar samkvæmt líkaninu en allar vinnuteikningar og nánari útfærsla væri á frumstigi.

Á fundi 3. júní 1967 óskaði Vilhjálmur Bjarnason eftir því að verða leystur frá störfum sem formaður byggingarnefndar þar sem hann hefði nú tekið að sér formennsku sóknarnefndar. Óskaði hann eftir því að Kjartan Gíslason tæki við af sér í byggingarnefnd og var það samþykkt. Um sumarið var kjallarinn innréttaður, var sérstaklega getið dugnaðar sr. Sigurðar Hauks og Kristjáns Einarssonar við það verk.

Sumarið 1968 og 1969 var unnið að frágangi baðstofunnar. Birgir Barðdal, arkitekt, hafði gert frumteikningar að henni en Kristján Einarsson hafði yfirumsjón með því verki. Sveinn Kjarval hafði gert lokateikningar að henni eins og svo mörgu í Safnaðarheimilinu.

Á fundi 20. febrúar gerði Kjartan Gíslason, formaður byggingarnefndar, grein fyrir áætlun Almenna byggingarfélagsins um kostnað við það að steypa um kirkjuna samkvæmt þeirri skissu sem félagið hafði fengið. Hljóðaði sú áætlun um 5.900.000 krónum.

Var Kjartani falið að fá þetta nánar útlistað og hvern áfanga fyrir sig. Á aðalfundi safnaðarins, 5. júní, var heldur dauft í mönnum um byggingar-framkvæmdir þar sem dýrtíð væri mjög mikil, lítið í sjóði og ekki hefðu borist greiðslur frá Kirkjubyggingasjóði.

Vildu menn spara til næsta árs og afla fjár til framkvæmda. Kom þó sú spurning fram á fundinum hvort áætlað væri að taka fyrstu skóflustunguna næsta sumar. Var, eins og fyrr segir, ekki of gott hljóð í mönnum um að það tækist.

  1. október 1969 segir Vilhjálmur Bjarnason að nú séu framkvæmdir á baðstofunni á lokastigi og nú sé hægt að fara að snúa sér að sjálfu kirkjuskipinu. Enn sem fyrr þurfti hann ekki langan tíma til ákvarðana þó hann hefði jafnan vaðið fyrir neðan sig.

23. janúar 1970 var samþykkt eftirfarandi tillaga, á sóknarnefndarfundi, frá Friðfinni Ólafssyni:,,Sóknarnefndarfundur haldinn 30. janúar 1970 felur byggingarnefnd að undirbúa smíði grunns væntanlegrar kirkju nú í vor ef fjárhagur og tæknilegar ástæður leyfa.

Á almennum fundi í Langholtssöfnuði þann 1. febrúar 1970 var upplýst að teikningar að kirkjunni lægju nú frammi fullbúnar til útboðs. Voru menn enn á því að byrja ekki fyrr en séð væri að hægt yrði að gera kirkjuna fokhelda í einum áfanga. Voru skoðanir manna nokkuð skiptar um þetta atriði því sumir töldu öruggt að í lagi væri að byrja á grunninum og plötunni og sjá svo til með framhaldið.

Á aðalfundi safnaðarins 13. september 1970 lýsti Vilhjálmur Bjarnason yfir því að Safnaðarheimilið væri nú fullgert. Hann kvaðst hafa vonað að teikningar að nýju kirkjunni lægju frammi en það hefði ekki reynst hægt m.a. vegna þess að þeim hefði þurft að breyta. Ætlunin hefði verið sú að hafa kjallara undir kór kirkjunnar en vegna þess að mikið hefði þurft að sprengja hefði verið horfið frá því ráði og væri nú verið að breyta teikningum í samræmi við það.

Þegar hér er komið sögu verða þáttaskil. Safnaðarheimilið er fullgert og undirbúningur hafinn að kirkjubyggingunni sjálfri. Þess vegna er rétt að lýsa Safnaðarheimilinu í nokkrum orðum.

Það sem vekur athygli gests sem kemur að Safnaðarheimilinu er hin þríhyrnda form anddyrisins. Til beggja handa þess eru tveir salir. Til hægri, þegar inn er komið er Litli salurinn og lítill símaklefi og til vinstri Stóri salurinn sem notaður var fyrir guðsþjónustur og aðrar helgiathafnir í rúm 30 ár. Einnig er þar lítil geymsla í horninu við útvegginn. Þessum sölum er áður lýst að nokkru. Það sem er mörgum minnisstætt frá athöfnum í Stóra salnum er ljósið á bak við krossinn. Sá er þetta ritar telur vafasamt að nokkurn tímann hafi jafneinföld lausn og þarna var fundin, greypt sig eins fast í hug starfsfólks og safnaðar og þessi.

Inn af anddyrinu er gangur. Til vinstri við hann er eldhús allvel búið, flestir innanstokksmunir eru gefnir af Kvenfélagi Langholtssafnaðar. Til hægri við ganginn eru snyrtingar og gangar upp á baðstofu og niður í kjallara. Þar er nú einnig skrifstofa prestsins á stað sem var fatahengi fyrrum.

Á loftinu yfir anddyrinu er baðstofan, salur fyrir 80 – 100 manns. Árið 1977 var þar einnig komið fyrir eldhúsi. Um tíma meðan mestu framkvæmdir stóðu yfir í kirkjusölunum var altarið fært upp á efri pall baðstofunnar og fóru það fram nokkrar athafnir. Á loftinu eru einnig litlar snyrtingar.

Í kjallara eru 5 herbergi. Eitt þeirra er undir loftræstibúnað og annað er notað sem geymsla og fyrir hitagrindina. Eitt er notað undir fótsnyrtingu og tvö undir smærri fundi. Þó mun annað þeirra vera nýtt sem geymsla í dag eftir að salarkynni stækkuðu. Á kjallaranum er einnig sér inngangur.

  1. október 1970 varð sú breyting á í forystuliði safnaðarins að Ólafur Örn Árnason var kosinn formaður sóknarnefndar og Vilhjálmur Bjarnason tók aftur við sínu fyrra starfi í byggingarnefnd.
  1. nóvember 1970 var haldinn sameiginlegur fundur byggingarnefndar og sóknarnefndar. Þar voru lagðar fram teikningar að kirkjunni og einnig var þar mættur verkfræðingur frá Almenna byggingarfélaginu, Jón Guðmundsson. Hann lagði fram áætlun að fyrsta áfanga, grunni og plötu, sem hljóðaði upp á 1.470.000 ,r. Allar teikningar voru samþykktar einróma. Þá var Almenna byggingafélaginu falið að ganga endanlega frá útboðsgögnum.

Á sameiginlegum fundi sóknarnefndar og byggingarnefndar 6. desember 1970 lágu frammi tilboð frá sjö aðilum í 1. áfanga kirkjunnar.

Samþykkt var að taka því næstlægsta sem var frá Davíð Kr. Jenssyni. Hljóðaði það upp á 1.715.000. Almenna byggingarfélagið hafði hækkað áætlunina í kr. 1.500.000 áður en útboðið var gert. Fjármál voru líka rædd kvað gjaldkerinn þau vera á núlli eins og hann orðaði það. hann kvaðst hafa vissu fyrir 1 milljón króna framlagi frá kvenfélaginu í þennan áfanga og hann reiknaði með kr. 300.000 frá Bræðrafélagi Langholtskirkju.

  1. mars upplýsti Vilhjálmur Bjarnason að gengið hefði verið frá samningum við Davíð Kr. Jensson, verktaka. Hefði samningurinn verið undirritaður 29. desember 1970 og 10 seinna var gengið frá lokauppgjöri við hann, eða 29. október 1971.

Lok þessa áfanga voru þó talin 15. maí 1971.

Nú varð hlé á byggingaframkvæmdum fram í október 1973. Þó var unnið að undirbúningi og sóknarnefnd bókar fund 26. janúar um þetta mál. Á þeim fundi kemur fram að kór kirkjunnar hefur gefið fjölritara á móti söfnuði. Farið var fram á það að Biskupsstofa greiddi helminginn á móti kórnum en ekki fékkst niðurstaða um það mál. Í maímánuði þetta ár var Gunnari Baldvinssyni, hjá Almenna byggingarfélaginu, falið að undirbúa opið útboð á næsta áfanga. Enn sem fyrr var hléið vegna fjárskorts. Nú var ráðinn til verksins Kristinn Sigurjónsson, byggingameistari og hefur hann haft umsjón með kirkjubyggingunni síðan. Á því ári voru kirkjuveggir steyptir upp og forkirkjan mótuð. Árið 1974 var haldið áfram eftir því sem fé leyfði. Þá var steypt loft yfir forkirkjuna og settir burðarbitar undir þakið að hluta. Í lok ársins 1975 var allt komið í hnút vegna fjárskorts og þurfti að láta smiði hætta störfum.

Sjálfboðaliðar unnu svo við hreinsun á timbri og frágangi allt fram undir Vordaginn 1976. Þá messaði sr. Árelíus undir heiðum himni í kirkjunni og kórinn söng við undirleik Helga Þorlákssonar. Árið 1977 var hálfnað þegar hægt var að byrja aftur og þó unnið væri af kappi undir stjórn Kristins Sigurjónssonar, tókst ekki að koma kirkjunni undir þak. Þakið er allt gert úr strengjasteypu og járnbentum sperrum. Það er gert úr einingum sem helst verður að reisa samtímis. Við þetta var gífurleg undirbúningsvinna. Þakbitarnir, sex, voru steyptir í kirkjunni sumarið 1977 og plöturnar sem tengja þakið saman voru nær því tilbúnar. Stærð þaksins er um 40 metra langt og hæð þess 15 metrar yfir veggbrún að mæni.

Næsti markverði atburður gerist 3. október 1973 þegar sóknarnefndin samþykkir tillögu Jóns Stefánssonar um breytta starfsháttu kórsins.Var ástandið þá þannig að enginn tenór var skráður félagi í kórnum. Á þessum sama fundi skýrði Vilhjálmur Bjarnason frá því að mikið hefði verið unnið að undirbúningi kirkjubyggingarinnar. Búið væri að kaupa timbur og járn og síðast en ekki síst hefði Kristinn Sigurjónsson, byggingameistari í Álfheimum 5 verið ráðinn til þess að sjá um þennan áfanga. Fögnuðu menn ráðningu Kristins og samþykkt var eftirfarandi tillaga: ,,Fundur í sóknarnefnd Langholtssafnaðar samþykkir störf byggingarnefndar til undirbúnings kirkjubyggingu og felur nefndinni að halda áfram við bygginguna eftir því sem efni og aðstæður leyfa. Jafnframt þessu samþykkir nefndin ráðningu Kristins Sigurjónssonar byggingameistara til þess að standa fyrir verkinu.´´

Á aðalfundi safnaðarins 9. desember 1973 greindi Vilhjálmur Bjarnason frá framkvæmdum við kirkjubygginguna. Hann kvað vinnu hafna við 1. áfanga, sem í raun var 2. áfangi á eftir grunninum, en allt sé í óvissu um framhaldið. Það var þó ekki daprara hljóðið í Laufskálajarlinum en þetta að hann sagði orðrétt:,,Við skulum byggja kirkju.´´

  1. janúar 1974 var haldinn fundur í sóknarnefnd. Þar greindi Vilhjálmur frá því að mótauppslætti hefði lokið um síðustu jól og leitað hefði verið tilboða í steypu og hefði tilboði Steypustöðvarinnar h/f verið tekið.
  1. október 1974 kemur fram í bókum sóknarnefndar að verkið hafi tafist vegna manneklu. Þá var mikil þensla á markaðinum og uppmæling var ákaflega vinsæl, meira segja heyrðist talað um tvöfalda uppmælingu og freistaði það margra þannig að erfitt var að fá menn til vinnu á tímakaupa. Formaður byggingarnefndar segir á þessum sama fundi að nú sé hægt að hefjast handa á nýjan leik. Það dróst fram í október að hægt væri að byrja. Á þessum tíma var verðlag mjög óstöðugt og þaut upp, áætlanir stóðust illa og flest fór fram úr áætlun. Þess vegna var aukin fjáröflun til framkvæmdanna æ brýnni og sú vinna unnin af safnaðarfólki var örugglega í öfugu hlutfalli við umfjöllunina um þau mál hér. Það leið varla sá fundur að ekki væri rætt um fjáröflun og um það sem gert hafði verið. Störf byggingarnefndar urðu og mjög erfið af skiljanlegum ástæðum.

Á aðalfundi safnaðarins 30. nóvember 1975 kemur fram hjá formanni byggingarnefndar að lokið hefði verið við að steypa 2. áfanga kirkjubyggingarinnar í júlí sl. Þá hefði verið auglýst eftir sjálfboðaliðum við mótahreinsun og hefðu nokkrir komið en mikið væri óunnið ennþá. Hann sagði að kvenfélagið hefði afhent 1 milljón króna á árinu og væri það sú þriðja sem það hefði afhent. Taldi hann að um 17 milljónir væru komnar í bygginguna og mundi 3. áfangi líklega kosta 12-13 milljónir á gildandi verðlagi. Í þeim áfanga ætti að reisa sperrur og tengja þær saman.

Á fundi 8. apríl 1976 var Krisjáni Einarssyni falið að ganga frá eldhúsi í risinu að lokinni kostnaðaráætlun og hönnun.

  1. maí 1976 kveður Vilhjálmur upp úr með það að ekki verði ráðist í næsta áfanga kirkjubyggingarinnar í sumar en hvetur til sjálfboðaliðastarfs við hreinsun timburs.

Sóknarnefnd kom saman á sumardaginn fyrsta, 21. apríl 1977. Þar samþykkti hún eftirfarandi tillögu: ,,Sóknarnefndin felur byggingarnefnd að gera allt sem auðið er til að hefja smíði á þaki kirkjunnar nú þegar á þessu vori.´´

Fundur var haldinn í sóknarnefnd 12. júlí 1977 í Litla sal Safnaðarheimilisins. Þar kom fram að Kvenfélag Langholtssafnaðar hafði afhent formanni sóknarnefndar eina og hálfa milljón til kirkjubyggingarinnar. Á sama fundi var skýrt frá því að bræðrafélagið hefði afhent sömu upphæð til gjaldkera safnaðarins. Þá kom það fram að Vilhjálmur Bjarnason hafði gegnt starfi formanns byggingarnefndar í nær aldarfjórðung. Var fremur gott hljóð í honum og engar vomur á honum frekar en fyrri daginn. Á fundinum var eftirfarandi tillaga samþykkt: ,,Fundurinn samþykkir að fela byggingarnefnd allar framkvæmdir kirkjubyggingarinnar og hraða þeim sem mest má verða og fjárhagur frekast leyfir. Ennfremur veitir sóknarnefnd byggingarnefndinni heimild til þess að samþykkja víxla fyrir byggingarefni ef um lánsviðskipti er að ræða en jafnframt því er öll safnaðarstjórn ábyrg fyrir slíkum upphæðum.´´

Hér kynni einhverjum ókunnugum að blöskra en þetta sýnir traust það sem fólk hafði á byggingarnefndinni með Vilhjálm í fararbroddi. Hann skýrði frá því að Byggingariðjan h/f hefði nú þegar tekið að sér gerð þakplatna á kirkjuna og ættu þær að verða fullbúnar í október samkvæmt tilboðinu. Undirbúning að hinni tæknilegu hlið þakvinnunnar annaðist Gunnar Baldvinsson hjá Almennu verkfræðistofunni. Kristinn Sigurjónsson, byggingameistari sagði að framkvæmdir væru að fara af stað, mannskapur væri nú fyrir hendi og væri hann bjartsýnn á að framkvæmdir gengju vel.

Þann 27. september kom fram að búið var að steypa 4 af 6 sperrum í þakið. Hefði það tafið framkvæmdir að vinnupallar fuku í ofsaveðri í ágústmánuði en fyrir slíku tjóni var söfnuðurinn tryggður.

Þann 24. febrúar 1978 er ástandið þannig að áfram var unnið þó ekkert fé væri fyrir hendi. Ræddu menn þá um bráðabirgðalausnir. Á þessum fundi var samþykkt að velja Kristinn Sigurjónsson byggingameistara í byggingarnefndina.

Aðalfundur safnaðarins var haldinn 5. mars 1978. Þá sagði Vilhjálmur frá því að búið sé að steypa sperrur á þakið svo og þakplöturnar. Hann sagði einnig að eftir væri að steypa gaflsperrurnar og reisa hinar. Hann kvað vonir til að kirkjan yrði fokheld á sumri komanda. Vilhjálmur lagði mikla áherslu á að framkvæmdir héldu áfram, ,,byggingarframkvæmdir mega ekki undir neinum kringumstæðum stöðvast´´ eins og hann orðaði það þessu sinni. Á fundinum var einnig kynnt gjöf, ljósastjaki, frá Jóni Þórðarsyni og Jóhönnu Lúðvíksdóttur til minningar um Jón Jónsson, skipstjóra og seinni konu hans, Önnu Jónsdóttur frá Veturhúsum og einnig um Pálínu Þorsteinsdóttur frá Fögruhlíð við Djúpavog.

  1. maí 1978 sagði Kristinn Sigurjónsson frá því að steypuvinna hæfist eftir u.þ.b. viku og voru allir fundarmenn á því að reisa ætti þakið eins fljótt og auðið yrði.
  1. júní er búið að reisa sperrur og setja þakplötur á sinn stað. Það hafði verið gert 22. júní en eftir var að reisa austurgaflinn og loka þakinu.
  2. september komu menn saman og ræddu um staðsetningu og undirstöður væntanlegs orgels sem þeir töldu að gæti vegið um 14 tonn. Þá ræddu menn um gerð kórgafls kirkjunnar og var Vilhjálmi, Kristni og Birgi Breiðdal arkitekt kirkjunnar falið að gera tillögur um það mál. Það gerðu þeir fyrir næsta fund í samráði við Hörð Bjarnason og ákváðu að halda sig við upphaflegar teikningar og taka afstöðu til altaristöflugerðar síðar.

Á þessum mánuðum höfðu skuldir aukist nokkuð hratt og voru nú orðar 21 milljón. Því var boðað til fundar um það hvort ætti að halda áfram eða ekki. Sá fundur var haldinn 6. október 1978. Vilhjálmur taldi það algert neyðarbrauð að verða að hætta og taldi það beinlínis hættulegt byggingarinnar vegna sem og álits allra nefndarmanna. Ekki voru teknar neinar ákvarðanir á fundinum, a.m.k. ekki um það að hætta framkvæmdum að sinni. Þó munu framkvæmdirhafa legið niðri lengi vegna fjárleysis.

Á síðasta fundi ársins 1978, þann 5. nóvember, voru menn ákafir í að útbúa gíróseðla til að senda heim á heimilin með von um góðar undirtektir. Ekkert er þá bókað um stöðvun framkvæmda og á fyrsta fundi ársins 1979, 15. mars, kom í ljós að 2,8 milljónir höfðu komið inn á gíróseðlana og jafnframt að bræðrafélagið hefði afhent eina milljón króna.

  1. maí 1979 var ákveðið að verja öllu fé sem bærist frá Reykjavíkurborg til þess að ljúka við þakið og kvað Kristinn nauðsynlegt að byrja í júnímánuði og var það samþykkt.
  1. ágúst 1979 skýrði Vilhjálmur Bjarnason, formaður byggingarnefndar frá því að tafir hefðu orðið á framkvæmdum vegna anna hjá Hirti Magnússyni, yfirsmið en hann hann hefði lofað sér að hefja störf næstkomandi mánudag.

Á aðalfundi safnaðarins 16. desember 1979 lýsti sr. Árelíus Níelsson yfir því að hann óskaði að láta af störfum um næstu áramót. Hafði hann þá gegnt störfum sóknarprests í Langholtsprestakalli í 28 ár. Vilhjálmur lýsti erfiðri greiðslustöðu safnaðarins. Hann skuldaði 21 milljón um áramót en ætti eignir á móti að upphæð 109 milljónir. Hann kvað þrennt skipta hér mestu máli: óðaverðbólgu, skiptingu sóknarinnar á sínum tíma og svo fækkun sóknarbarna. Hann sagði bygginguna eiginlega standa í sömu sporum og 22. júní 1978 er sperrur voru reistar nema það að búið væri að smíða endasperruna. Enn hvatti Vilhjálmur menn til að standa fast saman um framkvæmdir. Á þessum aðalfundi var kosinn í sóknarnefnd Stefán Guðjohnsen sem mjög kemur við sögu byggingaframkvæmdanna það sem eftir er. Á þessum sama fundi afhenti sr. Árelíus eina milljón króna til byggingarinnar.

Á fyrsta fundi ársins 1980, 15. janúar, var Stefán Guðjohnsen kosinn gjaldkeri safnaðarins. Hann var einnig kosinn í byggingarnefndina. Vilhjálmur kvað byggingarnefndarmenn hafa verið sammála um að halda ekki áfram framkvæmdum í svartasta skammdeginu og reyndar hefði fremur lítið verið aðhafst um haustið vegna óhagstæðs tíðarfars. Vildi hann bíða þar til dag tæki að lengja og væri þá hægt að ljúka uppslætti, járnabindingu og steypu ásamt frágangi gaflsperru og í framhaldi að loka þakinu.

Þann 13. mars 1980 skýrði formaður byggingarnefndar frá því að kvenfélagið hefði afhent eina milljón króna til kirkjubyggingarinnar sl. mánudag og daginn eftir hefði bræðrafélag kirkjunnar afhent eina og hálfa milljón til sama málefnis. Höfðu kvenfélagskonur góð orð um að von væri á meira fé á næstunni án þess að upphæðin væri tilgreind. Vilhjálmur kvaðst ekki vita hvenær hægt væri að ráðast í næsta áfanga sem væri einangrun og klæðning á þakinu. Hann kvað allt hækka óðfluga og erfitt að henda reiður á öllu þessu. Fremur erfiðlega horfði um framhald kirkjubyggingarinnar á þessum tíma en þrátt fyrir það var byggingarnefnd falið, á fundi þann 22. maí, að leita til arkitekta og verkfræðinga um framhaldsframkvæmdir og kostnaðaráætlanir á næstu áföngum.

Þann 3. október 1980 kom sóknarnefnd saman til fundar. Hafði þá verið hlé á framkvæmdum frá því um mánaðamótin nóvember og desember á síðasta ári. Skýrði Vilhjálmur frá því að ekki hefði neitt verið unnið allt sumarið. Taldi hann það vera vegna þess að byggingameistarinn hefði misst alla menn úr höndum sér þar sem betur væri borgað í uppmælingu. En hann bætti því við að þennan sama morgun hefðu framkvæmdir hafist aftur við gaflsperruna. Á sama fundi var greint frá tveim kristalskertastjökum sem tveir Svíar hefðu gefið kirkjunni en þeir nutu fyrirgreiðslu nokkurra safnaðarmeðlima. Auk þess gáfu þessir Svíar 144.000 krónur til kirkjubyggingarinnar.

Á aðalfundi safnaðarins 2. nóvember 1980 greindi formaður sóknarnefndar frá ýmsum gjöfum sem borist hefðu til kirkjubyggingarinnar. Hann nefndi sem dæmi þriggja milljón króna gjöf frá kvenfélaginu og eina og hálfa milljón frá bræðrafélagi kirkjunnar.

Vilhjálmur Bjarnason, formaður byggingarnefndar, sýndi einu sinni stórhug sinn og gáfu þau hjón eina milljón króna til byggingarinnar. Vilhjálmur skýrði einnig frá stöðu byggingarinnar. Hann sagði að lokið yrði við gaflsperru um næstu helgi og mætti þá loka þakinu. Eftir það sagði hann að framkvæmdum yrði frestað til vorsins þegar birti og hlýnaði en þá yrði tekið til við einangrun og klæðningu.

24. nóvember 1980 greinir Stefán Guðjohnsen frá því að skuldastaða sé nú í lagi og leggur til að Almennu verkfræðistofunni verði falið að gera áætlun um næsta áfanga, nú séu þáttaskil. Þetta var byggingarnefnd falið að gera eftir að sóknarnefnd hafði lýst blessun sinni yfir þessari tillögu. Á þessum fundi gerði Henning FInnbogason það að tillögu sinni að skrifstofa yrði gerð fyrir prestinn þar sem fatahengið væri. Taldi hann þetta ástand vera til skammar. Tillögunni var vísað til byggingarnefndar en í hana hafði Henning einmitt verið kosinn í stað Friðfinns Ólafssonar sem hafði látist 7. júní sl. Fylgdi Henning tillögu sinni eftir síðar og bauðst m.a. til að verja viku af sumarleyfi sínu við að aðstoða við smíði skrifstofunnar. Fleiri fundi voru ekki bókaðir á þessu ári.

Fyrsti fundur ársins 1981 var haldinn 18. mars. Þá greindi Vilhjálmur frá því að mikil átök væru fram undan. Byggingarnefndin fundaði daginn áður með Birgi Breiðdal og Gunnari Baldvinssyni um gerð og efni þaksins. Varð niðurstaðan sú á fundi bygginarnefndarinnar að noað yrði stál á þakið í stað áls eins og hugsað hafði verið um. Töldu menn þenslu þess mun minni og því hæfa betur. Byggingarnefndin fól Birgi að gera tillögu um gerð þaks og glugga í stöfnum ásamt verðáætlun. Gunnari var falið að gera tillögur um einangrun. Gjaldkerinn gerði grein fyrir því að nú þegar væri búið að greiða fyrir helminginn af stálinu.

Á fundi sóknarnefndar þann 28. apríl 1981 greindi Vilhjálmur frá því að teikning hefði verið af þakinu svo og kostnaðaráætlun við verkið. Stefán gjaldkeri kvað skuldir nú vera um 90.000 (nýkrónur) og var enginn bilbugur á honum. Hann kvað von á fjárgjöfum frá kvenfélagi og bræðrafélagi svo og greiðslu frá Gjaldheimtunni. Taldi hann ekki vanta nema um 470.000 krónur til að ljúka áfanganum. Á fundinum var skýrt frá gjöf frá Gísla á Grund, kr. 5000, til minningar um Guðjón A. Sigurðsson, föður sr. Sigurðar Hauks.

Þann 12. maí kom sóknarnefndin saman. Stefán Guðjohnsen gerði grein fyrir stöðu mála varðandi þakið. Aðrar hugmyndir, en Birgis Breiðdal, höfðu komið fram hjá Garðastálsmönnum. Þóttu þær mun ódýrari og höfðu því verið samþykktar í byggingarnefndinni. Vilhjálmur lýsti þakstálinu og sagði það beinhvítt og yrði það tilbúið til afhendingar í júlímánuði n.k. en þá fullyrti Kristinn Sigurjónsson að annarri vinnu við þakið yrði lokið. Vilhjálmi var einnig falið að útvega teikningar af gluggakörmum svo hægt væri að bjóða verkið út. Stefán greindi þá frá því að kvenfélag kirkjunnar hefði afhent sér 25.000 krónur til kirkjubyggingarinnar þann 6. maí.

  1. október hélt sóknarnefnd fund. Þar er Henning þakkað fyrir forgöngu hans að skrifstofubyggingu fyrir sóknarprestinn.Við þá smíði unnu þeir Henning, Jóhann Sigurðsson og Kristján Einarsson án þess að þiggja nokkra greiðslu fyrir.

Vilhjálmur Bjarnason greindi frá því að vinnu við þakið hefði lokið í seinasta mánuði. Þakkaði hann Kristni byggingameistara, fyrir vel unnin störf. Þá greindi Vilhjálmur frá því að áhugi væri á því hjá Kór Langholtskirkju að halda jólatónleika í kirkjunni um jólin og hefði kórinn sýnt áhuga sinn á því að kirkjan yrði glerjuð fyrir þann tíma. Stefán Guðjohnsen greindi frá því að kórinn ætlaði að halda tónleika í Háskólabíói n.k. laugardag og rynni allur hagnaður til glerkaupa í kirkjuna. Hann kvað alla vinnureikninga hafa verið greidda, svo og allar skammtímaskuldir. Á þessum fundi fékk sr. Sigurður Haukur lykil að hinni nýju skrifstofu sóknarprests.

Á aðalfundi safnaðarins þann 15. nóvember 1981 lýsti Vilhjálmur gangi byggingarinnar. Voru þá komin tilboð í gluggakarma og gler. Hann ræddi um að tvær klukknanna vantaði enn, tvær þær stærstu, 1050 kg. og 1950 kg. Hann sagði að byggja þyrfti sterkari uppistöður undir þær og yrðu þær að vera mjög háar, hærri en kirkjan svo hljómurinn berist út yfir sundin blá eins og Vilhjálmur orðaði það í ræðu sinni.

Þann 13. desember 1981 greindi gjaldkeri safnaðarins, Stefán Guðjohnsen, frá því að kvenfélagið hefði nýlega afhent 40 þúsund krónur til kirkjubyggingarinnar og 50 þúsund til orgelsjóðs. Ekki voru fleiri fundir bókaðir þetta árið en fyrsti fundur ársins 1982 val haldinn 31. janúar. Á þeim fundi skýrði Vilhjálmur frá því að búið væri að glerja stafnglugga, aðra en þá þrístrendu. Hann lagði einnig til að Kristni Sigurjónssyni, byggingameistara, yrði falið að leita tilboða í hliðarglugga og samþykktu sóknarnefndarmenn tillögu hans.

Stefán Guðjohnsen hvatti menn til bjartsýni og rekari framkvæmda. Hann taldi fjármögnunarmöguleika góða og vildi bæta við tillögu Vilhjálms að ljúka við glugga og láta hanna það sem eftir væri, s.s. hita, kór, altari, lýsingu og málun á hvelfingu. Tillaga Stefáns var samþykkt. Hann greindi einnig frá gjöfum til kirkjunnar, t.d. gjöf frá kvenfélaginu á síðasta ári, kr. 65.000, stórgjöf frá Vilhjálmi Bjarnasyni og frú, Garðari Þórhallssyni, til minningar um konu sína. Þá greindi hann frá minningargjöf um Ólaf Kristján Ólafsson, viðskiptafræðinema, en foreldrar hans, Sigríður Guðmundsdóttir og Ólafur Helgason, forstjóri og tengdaforeldrar hans, Solveig Thorarensen og Sturla Eiríksson framkvæmdastjóri, gáfu 20.000 krónur í sjóð til kaupa á steindu gleri í kirkjuna. Var þetta stofnframlag. Stefán greindi frá því að einn kórfélaga sem er byggingatæknifræðingur, hefði boðið fram aðstoð sína endurgjaldslaust. Á þessum fundi kom einnig fram að Kristín Gunnlaugsdóttir og sr. Sigurður Haukur hefðu gefið messuklæði til minningar um foreldra sr. Sigurðar, Þórunni Guðmundsdóttur og Guðjón A. Sigurðsson.

Á fundi 9. febrúar var samþykkt að setja reyklitað gler í hliðarglugga kirkjunnar og Vilhjálmi falið að staðfesta pöntun og koma málinu áleiðis. Sr. Sigurður lagði og til á þessum fundi að enginn gluggi yrði hafður í austurstafni og jafnframt að altari yrði færanlegt svo stækka mætti kórinn ef það reyndist nauðsynlegt. Þá greindi Ólafur E. Ólafsson frá því að hann hefði kannað lánamöguleika hjá Byggðasjóði og hefði sú athugun orðið neikvæð.

  1. mars 1982 lagði Ólafur E. Ólafsson fram 80.000 krónur frá bræðrafélaginu til kirkjubyggingarinnar og jafnframt var gerð grein fyrir 15.000 króna framlagi kvenfélagsins. Vilhjálmur sagði frá því að byggingameistarinn hefði pantað gler og gluggakarma eins og rætt var um á seinasta fundi. Á þessum fundum komu orgelkaup hvað eftir annað upp á borðið og voru menn sammála að vanda yrði til þeirra og gera ráð fyrir orgelinu við hönnun kirkjunnar. Vegna kostnaðar var þessu máli eðlilega ýtt á undan en áhugi var mikill fyrir málinu og stundum virðist að lítið hafi þurft til að orgel yrði pantað.
  1. mars lagði byggingarnefndin fram verkáætlun fyrir árið 1982. Hún verður birt hér í heild:
  2. Frágangur glugga, stafna og gaflsperra.
  3. Skipulag í kirkju og arkitektateikning af því skipulagi.
  4. Hönnun hitakerfis og bráðabirgðalýsingar.
  5. Málning loftsins.
  6. Framkvæmdir við hitakerfi og gólflögn.
  7. Öflun tilboða í steinlagningu á gólf kirkjunnar.
  8. Efnisval vegna hljómburðar.
  9. Öflun tilboða í kirkjustóla.
  10. Hönnun magnarakerfis.
  11. Öflun tilboða í orgelsmíði.

Þarna er orgelið enn til athugunar og sérstaka athygli vekur að gjaldkera er falið að athuga með bankalán að upphæð kr. 1 milljón og skuli hún fyrst og fremst nýtt í liði 1-5 og lið 10. Hér eru menn orðnir stórhuga og eygja greinilega hið langþráða mark að vígja kirkjuna. Þessi fundur markar einnig nokkur tímamót að því leyti að ákveðið er að stofna til meiri skulda en áður en þrátt fyrir það var enginn bilbugur í mönnum. Sóknarnefndarmenn lýstu sig fúsa að ganga í sjálfskuldarábyrgð fyrir þessu láni og segir það meira en mörg orð um bjartsýni og framkvæmdalöngun sóknarnefndarmanna.

Á fundi 11. maí 1982 minntist formaður sóknarnefndar, Ólafur Örn Árnason, Jóhanns Ásmundssonar, sem látist hafði 9. sama mánaðar. Jóhann var fyrsti hringjari kirkjunnar og var útför hans gerð á vegum safnaðarins. Þá kom fram á þeim fundi að mjög erfið staða var komin upp hjá bönkunum og torveldaði það lántökur. Stefán Guðjohnsen gat þess að Steinþór Haarde á verkfræðistofunni Vægi hefði tekist á hendur hönnun hitakerfis í kirkjuna. Hann greindi einnig frá því að nú stæði fyrir dyrum að ljúka glerjun hliðarglugga og þar með yrði kirkjan fokheld.

Heldur stirðlega gekk næstu mánuði. Byggðist það fyrst og fremst á fjárskorti sem fyrr greinir. Fjáröflunarnefnd hafði komið með nokkrar ábendingar, m.a. að leita til S.S. með þá bón að þeir gæfu útidyrahurð með búnaði til þess að minnast 75 ára afmælis félagsins. Var stjórn S.S. ritað bréf um það erindi 6. júní.

Áfram var haldið. 26. júní er ítrekað á fundi sóknarnefndar fortakslaust umboð gjaldkera til að taka 1 milljón króna að láni svo hefja mætti frekari framkvæmdir. Vilhjálmur kvað fundahöld byggingarnefndar hafa verið nokkur. Sagði hann ákveðið að ráðast í múrhúðun á forkirkjunni upp og rennum fyrir ljósalagnir. Einnig kvað hann ákveðið að holufylla að utan, höggva víra og járn og undirbúa fyrir málningu eða annan sambærilegan frágang. Hann greindi frá því að undirbúningur hitakerfisins væri í fullum gangi, hugað hefði verið að lit á kirkjuna og herbergjaskipan í forkirkju. Greindi hann frá ýmsu öðru sem fjallað hafði verið um með húsameistara og öðrum arkitektum.

  1. september 1982 kom sóknarnefnd saman. Helsta áhyggjumálið var erfið greiðslustaða. Skuldir höfðu hlaðist upp við ýmsa aðila, byggingameistara og ýmsa viðskiptaaðila. Höfðu menn af þessu miklar áhyggjur, ekki síst hvað snerti vinnuálag á gjaldkeranum. Hafði reynst mjög erfitt að fá fyrirgreiðslu í bönkum og taldi Stefán að nú vantaði um hálfa milljón svo endar næðu saman. Vilhjálmur greindi frá því að um nokkrar umframframkvæmdir hefði verið að ræða, sérstaklega vegna endanlegs frágangs á stöfnum og vesturhlið kirkjunnar. Sagði Vilhjálmur hina erfiðu greiðslustöðu einkum stafa af þeim framkvæmdum. Væru mikil vanskil við iðnaðarmennina sem ekki mætti verða lengi. Hann sagði að nú væri búið að ganga frá kirkunni að utanverðu nema norðurhliðinni neðan þaks. Slíkt verk mætti vinnast af búkkum og væri ekki stórmál. Á þessum fundi var einnig greint frá því að Ásgeir Pétursson, bæjarfógeti, hefði sýnt því áhuga að gengið yrði frá lóð kirkjunnar sem fyrst án þess að það þyrfti að skerða sjóði kirkjunnar. Vildi Ásgeir beita sér fyrir þessu og fögnuðu menn eðlilega svo góðu boði. Skemmst er þó frá því að segja að ekkert varð úr framkvæmdum.
  1. október 1982 greindi Stefán Guðjohnsen frá fjárgjöfum bræðrafélagsins og kvenfélagsins en þau höfðu gefið 12 og 20 þúsund krónur fyrir nokkru til kirkjubyggingarinnar.

Síðasti fundur sóknarnefndarinnar á árinu 1982 var haldinn 9. nóvember. Á þeim fundi var kynnt ósk Kórs Langholtskirkju að koma hita og lýsingu í kirkjuna fyrir jól svo kórinn gæti haldið tónleika sína þar um jólin. Lýsti kórinn sig reiðubúinn til aðstoðar svo þetta mætti verða. Voru sóknarnefndarmenn fúsir að aðstoða við þetta og tilnefndu Henning Finnbogason, Jóhann Sigurðsson, Stefán Guðjohnsen og Kristján Einarsson til samstarfsins. Gekk þetta verk vel, lokið var við glerjun stafnanna á 4 dögum undir stjórn Kristins byggingameistara og voru tónleikarnir haldnir 18. desember og þóttu takast hið besta. Lauk svo framkvæmdum þetta árið og hófust þær aftur að vori við að gera kirkjuna fokhelda.

Fyrsti fundur ársins 1983 var haldinn 24. febrúar. Þá greindi Stefán frá því að Kirkjubyggingasjóður hefði lagt 75.000 krónur til byggingarinnar á árinu. Hann kvað Kirkjugarða Reykjavíkur hafa veitt 150 þúsundum til Langholtskirkju og Stofnsjóður Grundar hefði gefið 10 þúsund krónur til sama verkefnis. Á þeim fundi sagði hann einnig frá því að Kór Langholtskirkju hefði afhent sér 170 þúsund krónur sem afrakstur Hitatónleikanna sem svo voru kallaðir og hafi hann þá notað tækifærið og gert upp við kórinn skuld fyrir árin 1981 og 1982. Jafnframt lokið uppgjöri við alla iðnaðarmenn aðra en Kristinn byggingameistara. Hann kvað framkvæmdir við hitalögn hafna og ræddu menn nokkuð það verkefni ásamt orgelkaupum og aðstöðu og tækjum til hljóðupptöku í kirkjunni.

  1. maí var haldinn sóknarnefndarfundur. Þá skýrði Stefán Guðjohnsen frá því að samkvæmt ósk dómprófasts hefðu öll reikningsskil sóknarnefnda í prófastdæminu verið samræmd. Þau væru nú tölvufærð og því auðveldara að skoða einstaka liði ef þurfa þætti og reikningarnir væru mun aðgengilegri.

Lagði hann því næst fram reikninga safnaðarins fyrir 1981 og 1982 og þökkuðu sóknarnefndarmenn honum þá alúð og fyrirhöfn sem hann hefði lagt á sig til að koma reikningunum í tölvuform eins og óskað hafði verið eftir. Á þessum fundi kom einnig til umræðu fyrrnefnt boð Ásgeirs Péturssonar. Lagði Vilhjálmur Bjarnason fram tillögu, ásamt greinargerð, þess efnis að skipuð yrði 4-6 manna nefnd undir forystu Ásgeirs og yrði henni ætlað það verk að skipuleggja lóðina.

Benti Vilhjálmur á að frágangi væri nær lokið að utan og væri því nauðsynlegt að flytja skúraræksnin af lóðinni sem þar stæðu öllum til armæðu. Þá þyrfti að lagfæra bílastæði og koma upp trjágróðri og öðrum gróðri til fegrunar umhverfisins. Ekki er greint frá örlögum þessarar tillögu sem Vilhjálmur flutti á þessum fundi. Þá lagði Stefán fram áætlun um fjárþörf og kostnað svo takast mætti að vígja kirkjuna. Er hún birt hér í heild.

  1. Hönnun hitakerfis kr. 85.000
  2. Frágangur hitakerfis kr. 800.000
  3. Frágangur gólfs kr. 1.500.000
  4. Málning innanhúss kr. 300.000
  5. Lokahönnun rafkerfis kr. 80.000
  6. Innrétting í kirkju og skreytingar kr. 500.000
  7. Sæti í kirkju kr. 700.000
  8. Frágangur á skrifstofu og herbergja kr. 400.000
  9. Lokafrágangur lýsingar kr. 200.000
  10. Skreytingar í kirkju kr. 400.000
  11. Hátalarakerfi o.fl. kr. 300.000
  12. Útihurð kr. 200.000
  13. Innréttingar í kór kr. 200.000

Alls kr. 5.715.000

Að vísu segja svo áætlanir afskaplega takmarkaða sögu þegar frá líður en þó gefa þær einhverjar hugmyndir séu þær miðaðar við annan kostnað. Þá má sjá af þeim stöðu byggingarframkvæmdanna, hvað var eftir á hverjum tíma, um hvað var hugsað og hverju sleppt. Þær sýna líka verðbólguna á þessum tíma því sams konar áætlun gerð ári fyrr losaði aðeins 3 milljónir. Því má nærri geta hve störf byggingarnefndarmanna og gjaldkera hafa verið yfirþyrmandi erfið á þessum tíma.

Sífelldar launa- og verðbreytingar í þjóðfélaginu gerðu starfið erfitt og ekki síður starf fjáröflunarnefnda sem alltaf voru að. Sjá má dæmi þess að gíróseðill sem sendur var út í maí að upphæð kr. 300 var hugsanlega greiddur í september og voru krónurnar þá mun verðminni en þegar af stað var farið. Á þessum fundi greinir sóknarpresturinn frá því að vegna síendurtekinna innbrota í kirkjuna hafi verið gerður samningur við Securitas um gæslu hússins. Sá samningur sé til reynslu en á þessum fundi var samþykkt að framlengja samninginn til 1. júlí. Skemmst er frá því að segja að samningur við Securitas er enn í gildi þegar þetta er skrifað í maí 1988.

Á aðalfundi safnaðarins, 29. maí 1983 var sérstaklega getið starfs Sigríðar Jóhannsdóttur í þágu aldraðra. Henni var þökkuð fórnfýsi og alúð við þetta starf. Töldu menn að hún þyrfti hjálp við þetta mjög svo vaxandi starf en hvergi er þess getið að sú hjálp hafi verið veitt. Formaður sóknarnefndar greindi einnig frá því að málverk af fyrstu presthjónunum, frú Ingibjörgu Þórðardóttur og sr. Árelíus Níelsson, hefði verið afhjúpað á kirkjudeginum 28. nóvember sl. Var málverkunum fundinn staður í Litla sal. Á fundinum var gott hljóð í gjaldkera, hann kvað hvert sóknarbarn skulda 185 krónur sem ekki þætti mikið. Hann taldi að nú eins og sakir stæðu gæti kostað 2.500 krónur á hvert sóknarbarn að ljúka byggingunni og voru þá orgelkaup meðtalin. Vilhjálmur Bjarnason rakti ganginn við bygginguna. Hann kvað eftir að ganga frá hitalögn, þaki yfir kórhýsið og hurðum með umbúnaði. Hann minntist þess að Kór Langholtskirkju hefði haldið maraþontónleika í 24 stundir til fjársöfnunar vegna hitakerfisins. Alls hefðu safnast 240 þúsund krónur.

Á fundi sóknarnefndar þann 27. júní 1983 kynnti Stefán möguleika á að taka skuldabréfalán að upphæð kr. 6 milljónir til 10 ára með 8% ársvöxtum. Var tillaga samþykkt og honum falið að annast lántökuna. Safnaðarheimilið var metið á 12,2 milljónir, brunabótamat, og yrðu bréfin seld með veði í því. Síðan yrðu þau framseld Kór Langholtskirkju sem síðan sæi um sölu þeirra en afhenti sóknarnefnd andvirði þeirra.

  1. nóvember 1983 hélt sóknarnefnd í Safnaðarheimilinu. Þar kom fram að Þórlaug Bjarnadóttir frá Eyrarbakka, systir Eyjólfs Bjarnasonar, hafði ánafnað kirkjunni 50 þúsund krónur að sér látinni. Fyrr hafði hún og maður hennar, Ingvar Magnússon, gefið kirkjunni 100 þúsund krónur.

Þá var greint frá breytingu á númeraskrá húsa á kirkjulóðinni þannig að kirkjan verður nr. 13 og Safnaðarheimilið nr. 15. Ennfremur kom fram að fallið hafði verið frá því að byggja annað prestsetur á kirkjulóðinni og ennfremur að fyrrsett lóðarmörk verði látin standa, þau sem greint er frá á mæliblaði Reykjavíkurborgar nr. 1.433.0. Vilhjálmur greindi frá því að þak kórhýsis væri nú fullgert og teikningar hitakerfis og loftræstingar væru á lokastigi. Þá hefði mikil vinna farið fram við endanlega hönnun kórs og væri nú endanlega frá henni gengið með aðstoð Steinþórs Sigurðssonar listhönnuðar. Einnig væri gengið frá sætaskipun í kirkju og á kirkjulofti og hefði Steinþór gert af þessu líkan sem allir viðstaddir tjáðu sig samþykka. Hann kvað teikningar af næstu nauðsynlegu framkvæmdum verða komnar í sínar hendur næsta dag.

  1. nóvember 1983 skýrði Ólafur Örn Árnason frá því að Sláturfélag Suðurlands hefði ákveðið að gefa 75 þúsund krónur til útihurðakaupa í kirkjuna í tilefni afmælis síns á árinu. Á þessum fundi gerði Stefán Guðjohnsen það að tillögu sinni að Sigríður Jóhannsdóttir yrði ráðin safnaðarsystir. Hefði hún í raun gegnt því alllengi en án nokkurs endurgjalds. Sigríður kvað þetta koma mjög flatt upp á sig og bað um umhugsunarfrest sem henni var veittur en tillaga Stefáns samþykkt að öðru leyti ef samþykkt Sigríðar fengist.

Á fundi 29. nóvember gat formaður þess að Jón H. Bergs, forstjóri S.S., hefði afhent 110 þúsund til hurðarkaupanna. Hefði Jón heyrt að kostnaður við þau kaup yrðu 110 þúsund og hækkaði hann þá áður tilkynnta gjöf S.S. Telst gefandinn kjörbúð S.S. í Glæsibæ. Ingimar Einarsson kvaðst hafa gengið á fund Björgólfs Guðmundssonar, forstjóra Hafskipa, og hefði hann fallist á að gefa eftir flutningsgjald á steinflísum á kirkjugólfið.

Á fundi 8. desember 1983 var byggingarnefnd falið að kanna hvort ekki væri hagkvæmt að kaupa borð og stóla í Safnaðarheimilið um leið og stólar yrðu keyptir í kirkjuna. Jafnframt var getið 115 þúsund króna gjafar kvenfélagsins sem afhentar hefðu verið á kirkjudeginum 27. nóvember síðast liðinn. Ekki voru haldnir fleiri fundir þetta ár en upp var að renna vígsluár kirkjunnar, árið 1984.

Fyrsti fundur var haldinn 31. janúar. Þá kom fram að Sigríður Jóhannsdóttir tæki við störfum safnaðarsystur frá og með morgundeginum að telja og til þriggja mánaða til að byrja með. Þá kom fram að stjórn Gjaldheimtunnar hefði fallist á það eftir ósk Davíðs Oddssonar, borgarstjóra, með fulltingi Alberts Guðmundssonar, fjármálaráðherra, að innheimtuþóknun Gjaldheimtunnar yrði1% í stað 6% sem verið hafði. Byggingarframkvæmdir stóðu þá þannig að múrhúðun og einangrun var langt komin og unnið var af krafti við miðstöðvarlögn. Smíði útihurðar var hafið og loftræstistokkar höfðu verið boðnir út. Þá var einnig búið að panta steinflísar á gólfið. Fjármálin voru í þolanlegu lagi, viðskiptareikningar voru í lagi en nokkrar skuldir höfðu myndast í bönkum. Skiptu nefndarmenn á sig að ræða við bankana og kippa þessum málum í lag.

Á fundi 28. febrúar voru menn bjartsýnr og ákváðu vígsludag kirkjunnar 16. september næstkomandi.

  1. maí kom fram að kirkjunni hafði verið úthlutað 400 þúsundum úr kirkjubyggingasjóði. Einnig að efnaverksmiðjan Sjöfn á Akureyri hefði gefið málningu á kirkjuna að innan. Stefán Guðjohnsen ræddi um þann möguleika að selja lóðirnar meðfram Langholtsveginum og mætti fá fyrir þær 3-5 milljónir en Stefán taldi að 2 milljónir kynni að vanta upp á að ljúka mætti framkvæmdum fyrir vígslu. Þá var vígsludagur ítrekaður og ritara falið að tilkynna Biskupi Íslands og dómprófasti það bréflega.

15. maí kom sóknarnefndin saman. Þar var tilkynnt að byggingarnefnd hefði ákveðið að kaupa 650 stóla af TM húsgögnum. Þar af ættu 100 að fara í Safnaðarheimilið. Þá var einnig stefnt að kaupum á 25 borðum í Safnaðarheimilið. Þá hafði forstjóri TM lýsti sig reiðubúinn að gera fast tilboð í smíði altaris, skírnarfonts og prédikunarstóls sem og trékross í hvelfingu. Höfðu þeir sr. Sigurður Haukur og sr. Pjetur Maack ákveðið að gefa prédikunarstólinn í kirkjuna. Byggingarnefnd var að ganga frá samningum um lagningu steinflísa á gólf og einnig að lokaáætlun um kirkjusmíðina.

Þann 5. júní kom Ásgeir Pétursson á fund sóknarnefndar. Hann skýrði frá því sem gerst hafði í viðræðum borgarinnar og eigenda húsræksna norðan kirkjunnar en mikill áhugi var á að fá þau af vettvangi. Taldi Ásgeir að samningar væru á næstu grösum. Þá sagði Ásgeir að rætt hefði verið við Davíð Oddsson, borgarstjóra, um aðstoð borgarinnar við gerð bílastæða og malbikun. Kvað hann þeirri málaleitan hafa verið vel tekið. Einnig kvaðst Ásgeir, ásamt Vilhjálmi Bjarnasyni, hafa rætt við Hafliða Jónsson, garðyrkjustjóra, um skipulag og uppgræðslu lóðarinnar. Hafliði lýsti sig reiðubúinn að skipuleggja lóðina kirkjunni að kostnaðarlausu. Á þessum fundi var margt fleira rætt, t.d. hugmynd Stefáns Guðjohnsen um að sjónvarpa frá vígslunni. Rætt var um framtíðarhlutverk baðstofunnar og hvort ekki mætti þar vera altari og kross úr kirkjusalnum.

Á fundi 20. ágúst mætti Ásgeir Pétursson aftur og nú með tillögu Hafliða Jónssonar að skipulagi á lóðinni samkvæmt væntanlegu lóðarbréfi sem enn hafði ekki fengist vegna erfiðleika í samningum við eigendur húskofanna norðan kirkjunnar. Vitað var að borgarstjóri lagði allt kapp á að þeir yrðu fjárlægðir fyrir vígsludag. Stefán gjaldkeri lýsti yfir því að greiðslustaða væri orðin afar erfið og vanskil við verktaka ískyggileg. Lýsti hann þeirri skoðun sinni að a.m.k. 2 milljónir þyrfti til að leysa vandann. Hann gat þess að ekki væri hægt að leysa út hljómburðarbúnað og ýmiss konar rafbúnað og lægi það á hafnarbakkanum.

Næsti fundur var haldinn 3. september. Hafði þá tekist að selja nokkur skuldabréf og einnig hafði Vilhjálmur Bjarnason lánað 50 þúsund krónur til að greiða verktaka til að tryggja áframhald vinnu hans. Ingimar Einarsson greindi frá því að honum hefði tekist með aðstoð ýmissa manna, s.s. nafnanna Jónasar Rafnar og Jónasar Haralz að útvega erlent lán gegnum Búnaðarbankann að upphæð 1,5 milljón króna til eins árs. Þá sagði Ingimar frá því að tekist hafi að fá lán í Landsbankanum að upphæð 500 þúsund til fimm ára. Taldi Ingimar að kirkjan hefði notið óvenju mikillar velvildar er hann hafi reifað þessi mál við bankamenn. Töldu menn að skuldir gætu numið um 15 milljónum við verklok. Gunnlaugur Snævarr mætti á þennan fund en hafði verið fenginn til aðstoðar við undirbúning vígslunnar. Lýsti hann vígsluathöfninni ásamt sr. Sigurðu Hauki, einkum þeim þætti er snerti sóknarnefndarmenn og inngöngu í kirkju með helgigripi. Þar sem Gunnlaugur átti að samhæfa verk ýmissa aðila fram að vígslu óskaði hann eftir því að einhver einn úr sóknarnefndinni væri sér til fulltingis, annað væri alltof þungt í vöfum og kaus sóknarnefndin Henning Finnbogason til þess starfs.

Vígslan krafðist mikil undirbúnings og voru m.a. tvær æfingar á henni áður en að vígsludegi kom. Jón Stefánsson greindi frá tónlistarflutningi á vígsluhátíðinni og kvað hann fullskipaðan kórinn syngja með kammersveit og einsöngvurunum Ólöfu Kolbrúnu Harðardóttur, Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Garðari Cortes og Halldóri Vilhelmssyni.

Fundur var næst haldinn 11. september. Ingimar Einarsson stýrði fundi í fjarveru formanns, Ólafs Arnar Árnasonar, sem var í sumarleyfi. Greindi Ingimar frá því að nefndarmenn óskuðu þess að Vilhjálmur Bjarnason yrði staðgengill formanns og ávarpaði gesti við vígsluathöfnina. Féllst Vilhjálmur á þetta fyrir eindregnar fortölur sóknarprestsins. Rætt var vítt og breitt um vígsluathöfnina og annað er henni tengdist. Höfðu nefndarmenn, iðnaðarmenn og óbreyttir lagt á sig gífurlega vinnu síðustu daga. Sáust greinileg þreytumerki á sumum og á vettvangi mátti ekki mismæla sig ef forðast átti móðganir eða önnur vandræði en allt þetta stafaði af geysilegu vinnuálagi. Þetta gekk þó allt blessunarlega vel þó upp kæmu vandræði leystust þó fljótt og örugglega. Allt stefndi þó að sama marki. Vígslan og vígsludagurinn skyldi verða glæsilegur atburður og eftirminnilegur.

Vígslan

Vígslan fór fram eins og áætlað hafði verið. Sóknarnefnd gekk til kirkju með helgimuni með biskup í fararbroddi ásamt sr. Jóni Helga Þórarinssyni, sem þá var í kórnum, sr. Pjetri Maack, sr. Árelíusi Níelssyni, sr. Sigurði Hauki, Ólafi Skúlasyni, dómprófasti og biskupi Íslands, hr. Pétri Sigurgeirssyni. Hannes Hafstein, sem lengi hafði verið safnaðarfulltrúi eða frá því Magnús Jónsson lét af því starfi 1966, gekk í fararbroddi heimamanna með kross, Ingimar Einarsson bar biblíu, Stefán Guðjohnsen bar kaleikinn, Garðar Þórhallsson bar patínuna, helgisiðabókin var í höndum Hennings Finnbogasonar, Þórný Þórarinsdóttir bar sálmabók og Jóhann Sigurðsson og Sigríður Jóhannsdóttir báru kertastjaka. Formaður Kórs Langholtskirkju, Gunnlaugur Snævarr, stóð við altarið og las úr helgisiðabók.  Forseti Íslands, frú Vigdís Finnbogadóttir var gestur safnaðarins á þessum degi, ásamt borgarstjóra, Davíð Oddssyni og frú og Jóni Helgasyni, dóms- og kirkjumálaráðhera. Þá var einnig boðið u.þ.b. 300 öðrum gestum. Vígslunni var sjónvarpað beint og þótti takast vel þó tæknilegir erfiðleikar hefðu gert vart við sig. Stafnglugginn í austri reyndist myndavélunum erfiður og lausu míkrófónarnir rugluðust lítillega hjá umsjónarmönnum. Engin leið er að láta dauða bókstafi lýsa því lífi er var á vettvangi síðustu dagana fyrir vígsluna. Þreyta, gleði, tilhlökkun og stolt blönduðust í hjörtum fólksins og mynduðu afar eftirminnilega stemmningu sem þeim gleymist aldrei er þarna var. Björninn var unninn. Orðin ,VIÐ VERÐUM AÐ KOMA UPP KIRKJU OG ÞAÐ SEM ALLRA FYRST´ sem Helgi Þorláksson mælti í Laugarneskirkju á sóknarnefndarfundi Langholtssafnaðar 22. febrúar 1953 voru nú meira en orðin tóm. Vilhjálmur Bjarnason sagði einnig 9. desember 1973:,VIÐ SKULUM REISA KIRKJU.´ Fullbúið safnaðarheimili og glæsileg kirkja var risin, erfiðleikar og strit, von og trú hafði borið ávöxt.

( Birt með góðfúslegu leyfi Gunnlaugs V. Snævarr, sem tók saman úr fundargerðarbókum sóknarnefndar Langholtskirkju )