Predikun Bjarkar Vilhelmsdóttur 1. maí 2016 í Langholtskirkju

 

Til hamingju með daginn, alþjóðlegan baráttudag launafólks.

Yfirskrift hins veraldlega verkalýðsdags er Samtaða gegn spillingu – vel við hæfi. Í Biblíunni er talað um að spilling saurgi og beri með sér ómælda hörmung. (Míka 2.10) Kirkjan mætti því vera rödd með launafólki í landinu í dag sem og aðra daga.

Á þessum baráttudegi langar mig til að gera misskiptingu auðs, spillingu og stöðu kirkjunnar að umtalsefni.

Það er íhugunarefni af hverju kirkjan er í vanda á sama tíma og svo margt er að gerast í samfélaginu sem ætti að varða kirkjuna og gera hana sterka. Þá er ég að tala um siðferðislega bresti, spillingu meðal þeirra sem hafa völdin í stjórnmálum og eða í gegnum óhóflega fjármuni og síðan og ekki síst misskiptingu á auðnum. Kannski er tími kirkjunnar að koma?

Á 1. mái er rétt að tala um þá gríðarlegu og auknu misskiptingu sem á sér stað um allan heim. Þróunin síðastliðinn áratug hefur verið óhugnarlega hröð þar sem auður heimsins færist á færri og færri hendur. Nú á ríkasta prósentið það er um 70 milljónir manna meira en hin 99 prósentin samanlagt. Við hin erum hluti af 7.4 milljörðum jarðarbúa. Hér á landi er þetta sem betur fer ekki jafn slæmt, en ríkasta prósentið á samt 23% skráðra eigna. Já í dag er rétt að tala um skráðar eða opinberar eigur því við vitum ekki hvað er falið í ríkjum sem fela fé fyrir þá sem lifa eftir öðrum lögmálum en restin.

Já það er einum of auðvelt að tala um misskiptingu í dag. En sem betur fer er fólk að átta sig á því óréttlæti sem líðst þegar ranglega er gefið innan hvers lands og enn frekar milli landa. Í auknum mæli er farið að tala um arðrán, þá stéttaskiptingu sem ríkir í samfélaginu og aukin róttækni heyrist bæði vestanhafs og austan.

Þegar svona óréttlát misskipting ríkir getur tvennt komið til.

  • Við getum sameinast um ákveðin grundvallarmarkmið sem allir taki þátt í að standa undir. Það verði bara bannað að segja sig úr lögum við samfélagið – öll dýrin vinir.
  • Verði ekki slík þjóðarsátt er hætta á siðferðishruni í samfélagi okkar. Því ætti venjulegt launafólk, láglaunafólk, millitekjufólk, fólk með hærri tekjur og lífeyrisþegar að standa skil á sínu, þegar þeir sem hafa það best þurfa að greiða mun minna hlutfall launa sinna í skatta. Eða greiða bara ekki neitt og ávaxta fé sitt í skattaskjólum.

Þá kem ég að kirkjunni sem hefur veikst mikið á undanförnum áratugum. Sjálf vildi ég hafa öfluga kirkju sem tekur afstöðu með fólkinu, er skjól og sterkur boðberi þess sem Jesú kristur kenndi.

Aðrar stofnanir samfélagsins þurfa einnig að vera sterkar eins og stjórnmálaflokkar því án þeirra getur ekki þrifist það lýðræði sem við viljum hafa. Önnur lífskoðunarfélög, bæði innan annarra trúarbragða og fólks sem er trúlaust þurfa líka að vera öflug. Verkalýðshreyfingin, Öryrkjabandlagið, félög eldri borgara, allt eru þetta grunnstoðir sem í raun halda samfélaginu frá því siðferðishruni sem hægt er að ímynda sér og jafnvel sjá fyrir nú á dögum.

Við sjáum oft þessi ýmsu félög sem andstæða póla – en raunin er að flest félög vilja hlúa að þeim samfélagssáttmála sem er ríkjandi hverju sinni og hjálpa okkur að lifa innan hans. Líka mismunandi trúfélög. Við trúum jú á sama Guð þó svo menning og mismunandi spámenn tali til fólks.

Græðgi er ekki Guði þóknanleg. Þess vegna setti hann okkur 9. boðorðið: – Þú skalt ekki girnast hús náunga þíns. Auk þess er græðgi ein af höfuðsyndunum sjö. Samt sem áður hafa nokkrir gert græðgi að keppikefli hér á landi. Sumir í auðsöfnun og aðrir græða á fólki með því að nýta það sem vinnuafl án þess að greiða því samningsbundin laun né bjóða upp á mannúðlegar aðstæður á vinnustað eða á dvalarstöðum.

Í þessu ástandi vantar fólki leiðsögn til að bregðast við og vettvang til að breyta reiði í aðstoð til þeirra sem verða fyrir barðinu á græðgi samborgara sinna. Eða ekki nægjanlegri gjafmildi ef við tökum jákvæða pólinn á þetta.

Kirkjan gæti verið vettvangur og tekið að sér þetta leiðsagnarhlutverk. Ástæðan? Jú vegna þess að það sem er að gerast er gjörsamlega á öndverðum meiði við kærleiksboðskap Jesú. Já Guð gerði ekki son sinn að höfðingja, heldur lét hann fæðast og lifa með alþýðunni. Út á það gengur kristindómurinn eins og ég hef skilið hann – að við séum öll jöfn. Og ef það hallar á einhvern, þá er það hlutverk okkar sem getum að þjóna þeim. Það var Jesú, en hvorki Shakespeare né Laxness sem sagði: “Allt sem þér gerðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gert mér. “

Hugtakið að þjóna kom hér upp. Verkalýðshreyfingin með samstöðu og baráttu alþýðunnar hefur þjónað okkur – barist fyrir öllum réttindum okkar hvort sem það er til lágmarkslauna, lágmarkshvíldar, aðbúnaðar á vinnustað, veikindaréttar eða atvinnuleysisbóta þegar atvinnuna þrýtur. Hugum aftur að fólkinu sem vinnur og fær greitt langt undir lágmarkslaunum og býr við algerlega óboðlegar vinnuaðstæður og húsnæði. Á ekki kirkjan að taka afstöðu með þessu fólki og vera vettvangur til að styðja það? Jú. Í dag er það bara sent úr landi ef atvinnurekandinn hefur vanrækt atvinnu- og dvalarleyfið eins og oft er sérstaklega hjá þeim atvinnurekendum sem vanvirða sitt starfsfólk. Jesú talar beint inn í þessar aðstæður og kirkjan ætti svo sannarlega að standa vaktina með verkalýðshreyfingunni til að styðja þræla nútímans. Jesú sagði að hann hefði ekki verið sendur til fólksins til að láta það þjóna sér, heldur til að þjóna og gefa líf sitt til lausnargjalds fyrir alla. Hann minnti líka á að sá sem er mikill eða fremstur verður jafnvel þjónn eða þræll þeirra sem ráða í dag og öfugt. Já það er engin auðljós eða hefðbundin stéttaskipting í ríki drottins. Því á kirkjan að standa alla leið með fólkinu sem þrælar hjá þeim sem nú vilja láta kenna á valdi sínu. Hver veit nema þessir þrælar muni fremstir verða? (Mattías 20.25)

Ég er að tala um hlutverk kirkjunnar í samfélagi þar sem arðrán, misskipting, spilling og jafnvel þrælahald ræður ríkjum. Já af hverju er hún í vanda? Talar hún ekki nógu skýrt? Ég veit að hlustunarskilyrðin eru slæm þar sem einstaklingshyggja hefur ráðið í áratugi. En ég hef tekið eftir virkri og eftirtektarverði framkomu nágranna okkar í Laugarneskirkju sem hafa staðið með flóttafólki – flóttafólki sem fékk þar skjól þó svo það tilheyrði öðrum trúarbrögðum. Þetta er til fyrirmyndar því þar er tekin afstaða svo fólk geti fundið skjól sem það treystir. Jesú var þannig skjól því að hann tók öllum opnum örmum og sagði okkur með Gullnu reglunni að gera slíkt hið sama.

Það er ekki auðvelt að taka sér stöðu gegn ríkjandi menningu. En margt bendir til breyttra viðhorfa. Allur almenningur er með sinn eigin fjölmiðil og lætur óspart skoðanir sínar í ljósi. Flestir eru sammála um aukinn jöfuð, minni spillingu, að fordæma þrælahald og setja aukið fé í heilbrigðisþjónustu. Kirkjan á að vera með.

Þó Ísland sé eyja þá getum við ekki verið eyland þegar kemur að heiminum. Við verðum að lifa í samfélagi við aðrar þjóðar og hlýta þeim leikreglum sem þjóðir heim setja sér. Guð gerði ekki boðorðalista fyrir þjóðir en við getum borið sáttmála Sameinuðu þjóðanna saman við boðorð Guðs.

Mig langar örstutt að fara út í heim, því þegar Guðbjörg sóknarprestur bað mig um að predika 1. maí í lok janúar sl. þá sagði ég strax já. Vissi ekki að ég yrði á kafi í próflestri og var nýkomin frá Palestínu fæðingarlandi Jesú þar sem hann lifði og lét líf sitt. Mig langaði að tala um misskiptinguna þar og hvernig ranglát skipting vatns og lands leiðir til ófriðar. Við vitum að það eru himin og haf á milli þess við við höfum og þær þjóðir heims sem eru fátækar. Hvað þá þjóðir sem lifa ófrjálsar undir hernámi. Ég hef verið með fyrirlestra um 4 mánaða dvöl mína í landinu helga og get boðið upp á slíkt því ekki hef ég tíma hér og predikunin varð að öðru en upphaflega stóð til. Það er jú 1. maí og sl. mánuð hefur allt snúist um misskiptingu og spillingu. En við erum frjáls þjóð, rík þjóð, aflögufær og umföðmuð af fegurð náttúrunnar. Því ætti hér einungis að þrífast jákvæðni, fegurð og samstaða í samskiptum milli manna.

Við þurfum að styrkja hið jákvæða í lífi okkar til að koma í veg fyrir siðferðislegt hrun. Þar kem ég enn og aftur að kirkjunni sem þarf ekki að gera annað en að miðla boðskap Jesú á mannamáli og þá eykur það réttlæti, sanngirni og frið. Sjálf trúi ég ekki á manninn, að hann sé æðstur. Ég er þakklát fyrir að eiga trú á Guð sem er mér æðri – við mannfólkið erum svo óskaplega breysk. Ég get þakkað ömmu Stefaníu fyrir að kynna mig fyrir Guði sem barn.

Yfirskrift 1. maí göngunnar sem leggur af stað frá Hlemmi kl. 13.30 er Samstaða gegn spillingu. Kirkjan sem hefur staðið gegn misskiptingu og með þeim sem minna bera úr býtum ætti að taka sér þar stöðu og hefur til þess aðstæður með Kirkjuhúsið á miðri gönguleið. Hvernig væri að nýta það til að dreifa boðskap Jesú krists – hengja á það borða t.d. með áletrunni “Jesú líður ekki þrælahald”. Áður en við leggjum af stað út í daginn og gönguna vil ég minna okkur á nokkur sæluboð Jesú krists. Sæluboðin beinast bæði að okkur sem einstaklingum og líka þeim stofnunum sem við mannfólkið höfum sett á laggirnar.

Sæl eru þau, sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu. Því að þau munu södd verða. Sæl eru miskunsöm. Því að þeim mun miskunnað verða. Sæl eru hjartahrein. Því að þau munu Guð sjá. Sæl eru þau sem frið flytja því að þau munu Guðs börn kölluð verða. Sæl eru þau sem ofsótt eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki. (Matt 5:3-10)