Áratugalöng hefð er fyrir Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju. Í ár verða tónleikarnir þrennir, dagana 18.-20. desember, en þar munu Kór Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju syngja undir stjórn Árna Harðarsonar, sem stekkur í skarðið fyrir Jón Stefánsson vegna veikinda.
Einsöngvarar í ár eru Benedikt Kristjánsson, Andri Björn Róbertsson og Ólöf Kolbrún Harðardóttir. Einsöngvari á táknmáli er Kolbrún Völkudóttir. Einnig koma fram einsöngvarar úr báðum kórunum.
Þetta verða þrítugustu og áttundu Jólasöngvarnir við kertaljós og að vanda er boðið upp á rjúkandi jólasúkkulaði og piparkökur í hléi. Mikill jólaandi ríkir á tónleikunum og geta fjölmargir gesta vart hugsað sér upphaf jólahátíðarinnar án þess að mæta á Jólasöngva.
Miðasala fer fram á vefsíðunni www.tix.is og hefst fimmtudaginn 26. nóvember.