Miðasala á Jólasöngva Kórs Langholtskirkju er hafin

Það gleður okkur að tilkynna að miðasala á Jólasöngva Kórs Langholtskirkju er hafin á www.tix.is.

Áratugalöng hefð er fyrir Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju. Í ár verða þrennir stórtónleikar, dagana 16. – 18. desember. Þar munu Kór Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju syngja en stjórnandi tónleikanna er Árni Heiðar Karlsson, nýráðinn organisti og kórstjóri við Langholtskirkju.

Einsöngvarar í ár eru Gissur Páll Gissurarson, Eivör Pálsdóttir, Kristín Sveinsdóttir og Andri Björn Róbertsson. Einnig koma fram einsöngvarar úr báðum kórunum.

Þetta verða þrítugustu og níundu Jólasöngvarnir við kertaljós og að vanda er boðið upp á rjúkandi jólasúkkulaði og piparkökur í hléi. Mikill jólaandi ríkir á tónleikunum og geta fjölmargir gesta vart hugsað sér upphaf jólahátíðarinnar án þess að mæta á Jólasöngva.

11224695_1233801756637034_332563202828010933_o