Á næsta sunnudag verður mikið um dýrðir hér í kirkjunni. Lítil stúlka verður borin til skírnar og hún Hildur Jóhannsdóttir verður fermd.
Fermingarbörn 2014 og foreldrar þeirra eru sérstaklega boðin velkomin.
Í messunni syngja nokkrir kórar sem munu taka þátt í að gera fjórðu bókina um tónlistarmúsina Maxímús Músíkús. Þetta eru Barna og Unglingakór Selfosskirkju, Kór Öldutúnsskóla, Stúlknakór Reykjavíkur, Barnakór Kársnesskóla, Kórskóli Langholtskirkju, Graduale Futuri, Gradualekór Langholtskirkju og Drengjakór Reykjavíkur.
Raunar verða kórarnir með æfingahelgi í Langholtskirkju um næstu helgi. Á mánudaginn hefjast svo upptökur á tónlistinni fyrir hljóðdiskinn sem fylgir bókinni um ævintýri Maxímús, sem að þessu sinni mun “Kætast í kór”. Upptökur munu standa yfir alla næstu viku með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Bókin kemur svo út í apríl á næsta ári og þá verða tónleikar í Hörpu þar sem allir geta séð og heyrt þetta nýjasta ævintýri Maxímús.
Messuþjónar og kirkjuvörður aðstoða við messuna og heitt verður á könnunni í safnaðarheimilinu að messu lokinni.
Verið öll hjartanlega velkomin.