Messa fyrir tvöfaldan kór eftir Frank Martin

Þann 9. Febrúar flytur Kór Langholtskirkju Messu fyrir tvöfaldan kór eftir tónskáldið Frank Martin.
Messan, sem samin var árið 1922 en frumflutt 1963, er persónuleg tónsmíð þar sem tónskáldið ætlaði hana upphaflega eingöngu sjálfum sér og Guði. Í henni kallast á hefðbundnir tónar helgisiða og nútímaleg áferð þar sem raddirnar spinnast saman í tilfinningaríkum laglínum.
Á tónleikunum verður flutt nýtt verk eftir Eygló Höskuldsdóttir Viborg og auk þess hljóma verk eftir Jón Nordal, Þorkel Sigurbjörnsson, Rúnu Esradóttur, Mendelssohn og Huga Guðmundsson.

Stjórnandi er Magnús Ragnarsson.

Í anda Frank Martin, sem tók ekki við þóknun fyrir trúarleg verk sín, verður aðgangur ókeypis.