Kvenfélag Langholtssóknar kynnir starfsemi sína mánudagskvöldið 5. október kl. 20 í safnaðarsal Langholtskirkju. Þar mun Sigrún Þóra Sveinsdóttir sálfræðingur meðal annars halda erindi um jákvæða sálfræði í daglegu lífi. Félagskonur sem og allar konur eru boðnar hjartanlega velkomnar til að koma og kynna sér vetrarstarfið.
Markmið Kvenfélagsins er m.a. að efla samstöðu kvenna í hverfinu, koma í veg fyrir félagslega einangrun og styðja við bakið á fjölskyldum í sókninni á félagslegum grunni. Félagsfundir eru fyrsta mánudag í mánuði yfir vetrarmánuðina. Þar er boðið upp á fyrirlestra og skemmtun af ýmsu tagi. Félagið stendur einnig fyrir fjölbreyttu hópastarfi, basar, laufabrauði og vorhátíð o.fl.
Við hvetjum konur á öllum aldri til þess að vera með og hjálpa okkur að móta sterkt afl í hverfinu þar sem við getum komið sjónarmiðum okkar á framfæri og skapað betra samfélag. Allar nánari upplýsingar um dagskrá og starfsemi kvenfélagsins er að finna í Facebookhópi félagsins: Konur í Langholti.