Kór Langholtskirkju flytur Náttsöngva Rakhmanínovs

Laugardaginn 1. febrúar, kl. 16.00, flytur Kór Langholtskirkju Náttsöngva eftir Sergej Rakhmanínov undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar í Langholtskirkju.

Náttsöngvarnir, sem ganga einnig undir nafninu Vespers, teljast eitt glæsilegasta tónverk rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar og voru þeir í miklu uppáhaldi hjá tónskáldinu sjálfu, sem bað um að einn þátturinn (Lofsöngur Símeons) yrði fluttur við jarðarför sína.

Verkið er samið fyrir fjögurra til ellefu radda kór án undirleiks og skiptist í fimmtán kafla. Þeir eru sungnir á kirkjuslavnesku og byggja á völdum biblíutextum (t.a.m. Davíðssálmum og Lofsöngvum Maríu og Símeons), sem voru liður í aftan- og náttsöng rússnesku rétttrúnaðarkirkjunnar, en verkið dregur nafn sitt af þeim tíðasöng.

Tónlistin er einstaklega hljómfögur en gerir um leið miklar kröfur til kórsins, ekki síst bassaraddanna, enda er oft vitnað til orða rússneska kórstjórans Danilíns sem spurði tónskáldið undrandi hvar hann ætlaði að finna svo djúpa bassa, þeir væru jafnvandfundnir og aspas á jólum!

Verkið tekur um það bil klukkutíma í flutningi og er ókeypis inn á tónleikana.