Sunnudaginn 11.desember klukkan 20:30 mun dömukórinn Graduale Nobili halda sína árlegu jólatónleika í Langholtskirkju.
Kórin flytur verkið Ceremony of Carols eftir Benjamin Britten við hörpuleik Elísabetar Waage. Einsöngvarar eru úr röðum kórfélaga. Einnig verða flutt sígild íslensk og erlend jólalög ásamt nokkrum verkum sem tónskald hafa samið og útsett fyrir kórinn í gegnum tíðina, þar á meðal eftir Hreiðar Inga Þorsteinsson og Hildigunni Rúnarsdóttur.
Almennt miðaverð er 2000 kr. Meðlimir Listafélags Langholtskirkju, eldri borgarar og námsmenn fá miðann á 1500 kr. Að tónleikum loknum bjóða kórdömur upp á heimabakaðar jólasmákökur og jólaöl í safnaðarheimili kirkjunnar.
_ _ _ _ _ _ _ _ _ _ _
Graduale Nobili var stofnaður árið 2000 af Jóni Stefánssyni. Kórinn er skipaður stúlkum á aldrinum 18-24 ára sem allar hafa stundað eða lokið tónlistarnámi. Kórinn á að baki sér farsælan feril. Hann hefur meðal annars gefið út 4 diska og komið fram víða um heim, hvort sem á eigin tónleikum eða með öðrum flytjendum, til dæmis með Björk í Biophilia tónleikaferðinni. Auk þess hefur hann unnið til verðlauna í alþjóðlegum kórakeppnum og frumflutt fjölda verka eftir íslensk sem erlend tónskáld. Árni Heiðar Karlsson tók við stjórn kórsins í mars 2016.