Biskupar landsins, Kristján Valur Ingólfsson, Agnes Sigurðardóttir og Solveig Lára Guðmundsdóttir hafa sent frá sér eftirfarandi hvatningu til íslenskra safnaða:
Biskupar Þjóðkirkjunnar hvetja allt kirkjufólk til að bregðast fljótt og af hlýju við þeim mikla vanda er við blasir varðandi flótta fólks frá heimalandi sínu. Hin kristna köllun gagnvart náunga okkar birtist í orðum Jesú þar sem hann segir:
“Því að hungraður var ég og þið gáfuð mér að eta, þyrstur var ég og þið gáfuð mér að drekka, gestur var ég og þið hýstuð mig, nakinn og þið klædduð mig, sjúkur var ég og þið vitjuðuð mín, í fangelsi var ég og þið komuð til mín.
Allt sem þið gerið einum minna minnstu bræðra og systra það gerið þið mér.” (Matt. 25. 35-36, 40b)
Móðir Teresa hafði þessi orð í huga þegar hún gekk um á milli hinna fátæku í Kalkútta. Hún sá ásjónu Jesú í andlitum hinna stéttlausu sem lágu í göturæsinu.
Sem aldrei fyrr beinast þessi orð beinlínis að okkur. Tugþúsundir eru á flótta og í leit að nýjum heimkynnum. Það er þakkar – og gleðiefni að meiri hluti þjóðarinnar vill bregðast vel við og taka vel á móti þeim sem hingað leita.
Okkur ber að taka með kærleika á móti flóttafólki í neyð þeirra, hver svo sem staða þeirra er, aldur kyn eða trú. Þau eru að kristnum skilningi okkar eigin systkin; öll elskuð af Guði sem skapaði þau eins og hann skapaði okkur.
Því viljum við hvetja söfnuði landsins til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að koma flóttafólki til hjálpar eftir þeim mætti sem þeir ráða við, hver á sínum stað. Söfnuðir eru hvattir til að vinna með sveitastjórnum sínum, og hjálparsamtökum sem skipuleggja móttöku flóttafólksins, en einnig að taka frumkvæði í að styðja einstaklinga, börn og aldraða sem orðið hafa fyrir ólýsanlegum hremmingum,.
Sýnum kærleikann í verki og verum öll með í þessari stóru köllun samtímans.
Agnes M. Sigurðardóttir biskup Íslands
Kristján Valur Ingólfsson vígslubiskup í Skálholti
Solveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup á Hólum