Predikun sr. Guðbjargar Jóhannesdóttur sunnudaginn 7. ágúst 2016

 

GLEÐIGANGAN 

Predikun Guðbjargar Jóhannesdóttur sóknarprests flutt í Langholtskirkju sunnudaginn 7. ágúst 2016

Náð og friður sé með okkur öllum !

Árið 1891 var ungur piltur í Lærða skólanum sem ritaði dagbók um hugðarefni sín og svo auðvitað ástir unglingsins líkt og mörg önnur ungmenni hafa gert, en þessi piltur hét Ólafur Davíðsson sem síðar varð þjóðsagnasafnari. Í Fréttatímanum nú um helgina er ljómandi grein eftir Þorvald Kristinsson um þetta efni sem ég hvet ykkur til að lesa. Í greininni eru rifjuð upp dagbókarskrif þessa unga pilts sem er ein af ótal huldum sögum samkynhneigðra. Huldum því t.d. þegar dagbækur Ólafs voru gefnar út var allt sem viðkom samkynhneigð máð út sem þó má sannarlega finna í uppruna handriti sem varðveitt er á Þjóðskjalasafni.

Svo sem þessar setningar sem lýsa elsku ungra pilta sem báðir voru prestssynir; Ólafur skrifar: ,, Skelfing þykir mér vænt um Geir hann er líka alla laglegasti piltur og virðist vel viti borin. Hann er unnusta mín, ég kyssi hann og læt dátt að honum hreint eins og að hann væri ungmey”.

Myndar falleg hugrenningatengsl við Ljóða ljóðin : ,,Unnusti minn er minn og ég er hans….“.

Það að lesa ástarfbréf annarra, jafnvel þó að um löngu látið fólk sé að ræða gerir mig dálítið feimna, það er nærri því eins og að liggja á gægjum og ég þakka fyrir að vera búin að brenna mín bréf og skrif, á útigrillinu þegar að ég flutti síðast. En sem betur fer voru þessi skrif varðveitt því þessi gamla dagbók birtir mikilvæga sögu ungra manna sem elska í leynum. Það er dýrmætt fyrir okkur núna ekki síst í því ljósi að Geir Sæmundsson sem Ólafur elskar varð síðar prestur og vígslubiskup.

Saga Ólafs og Geirs og alls hins fólksins í sögunum huldu er áleitin ekki síst í ljósi guðspjalls dagsins.

Þar líkt og oft áður segja fá orð guðspjallanna langa sögu sem hefur skírskotun óháð tíma og rúmi. Fyrsta setning guðspjallsins er : ,,Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra……“

Nákvæmlega !

Hann sagði dæmisöguna þeim sem treystu því sjálf að þau væru réttlát en fyrirlitu hin.

Gleðigangan var gengin í gær og er undur að sjá hversu gangan stendur undir nafni. Verið er að fagna fjölbreytileikanum og ástinni í öllum sínum ólíku birtingarmyndum. Gleðigangan ber nefnilega ekki aðeins með sér birtu heldur ekki síður þann dökka undirtón að jafnvel þó við getum gengið undir regnbogafána þá er fortíð og jafnvel nútíð enn lituð misrétti sem byggir á að einhver manneskja eða hópur sé betri, réttlátari en annar.

Þetta er viðfangs efni og vandi okkar allra, á ábyrgð einstaklinga, félaga og stofnanna, samfélagsins í heild. Það gæti verið auðvelt fyrir Þjóðkirkjuna sem ein örfárra ráðandi kirkna í heiminum mismunar ekki pörum vegna kynhneigðar, að gleyma öldunum öllum þar sem hún skipulega í orði og verki mismunaði samkynhneigðu fólki. Yfir því þarf að iðrast og biðjast fyrirgefningar.

Þar sem að ég sat við skrifborðið mitt í gærmorgun og var að setja saman þessi orð renndi ég aðeins yfir netið og las þar pistil Loga Bergmanns Eiðssonar þar sem að hann vekur athygli á sorglegri notkun ónefnds guðfræðings og guðsmanns á Guði og Biblíunni til að berja á samkynhneigðu fólki og varð með því sjálfum sér til skammar. Ég hrökk í varnargírinn og sendi Loga línu á fésbókinni þar sem að ég fann að því að á pistlinum má skilja að þar tali Þjóðkirkjuprestur eða starfandi guðfræðingur og sem var alls ekki raunin. Spjall okkar Loga var á broskalla nótunum og tók hann ábendingunni vel.

Hins vegar sat ég eftir með hálfgerða skömm yfir því að hrökkva í vörn og segja með sjálfri mér : Mikið er ég nú glöð yfir því að vera ekki eins og katólski guðfræðingurinn sem misbeitti Biblíunni.

Enn betra var svo að síðdegis þar sem við hjónin vorum að rölta niður í bæ gekk beint í flasið á Loga og hans fjölskyldu. Ekki var því annað í boði en að kynna sig og takast þétt í hendur. Þetta er Ísland það þýðir ekkert að ætla sér að sneiða hjá samskiptum eða halda að gagnrýni sé andlitslaus eða snerti ekki.

Um daginn var ég stödd í fyrsta sinn í Berlín þeirri undursamlegu borg. Heimsótti minnismerki og söfn af miklum móð og naut hverrar mínútu. Í borginni er iðrunin áþreifanleg vegna atburða seinni heimstyrjaldarinnar. Eitt af fallegu minnismerkjum borgarinnar er áleitið listaverk, stór, grár og einfaldur steinkubbur sem ekki lætur mikið yfir sér, minnismerki um samkynhneigða sem myrtir voru á stríðsárunum. Þegar gengið er nær steinkubbnum þá kemur í ljós nokkuð sem fjær er hulið. Lítill gluggi er á steininum og fyrir innan má sjá kvikmynd sem sýnir unga menn í ástríðufullum kossi. Myndin er svarthvít en einhvern veginn tímalaus þó. Elska og ástríða óháð tíma og rúmi.

Gleðigangan var gengin í Berlín á meðan að ég var í borginni og gengum við hjónin eina 10 kílómetra með göngunni alla leið á enda að Brandenborgarhliðinu. Gangan var með nokkuð öðru sniði en barna og fjölskyldugangan sem gengin var í gær, þessi var alveg fullorðins en alveg ótrúlega skemmtileg og skrautleg djamm ganga fullorðinna.   Þar var BDSM fólkið greinilega hjartanlega velkomið auk allra hinna ólíku hópanna. Gangan er risavaxin líkt og hún er orðin hér miðað við mannfjölda og hrópað er stolt og frelsi af hverjum vagni þar eins og hér. En um leið er líka sami dökki undirtónn ofbeldis og mismununar í nútíð og fortíð.

,,Hann sagði dæmisöguna þeim sem treystu því sjálfir að þeir væru réttlátir en fyrirlitu aðra”.

Það er gott fyrir okkur í Þjóðkirkjunni að þetta sé guðspjall þessarar gleðihelgar. Því um leið og við gleðjumst yfir fjölbreytileikanum og dettum í að gleðjast yfir því að vera ekki eins og hin þá er okkur vísað beint til okkar sjálfra og alls þess sem við vorum og erum.

Postulinn síðan svo gjarnan í textanum sínum beina okkur á beinu brautina með því að segja, öll hafa syndgað og skortir Guðs dýrð. Hann segir raunar : Allir hafa syndgað…. Því auðvitað er talað til karlanna að þess tíma sið.

,,Öll skortir Guðs náð” segir postulinn, og þið heyrið hversu fimlega ég sneiði aftur framhjá því að textinn talar upprunalega bara til karlanna það er ekki alveg nógu notalegt heldur að tala um alla þá kúgun og ofbeldi sem kirkjan hefur sýnt konum.

En í hverju ætti iðrunin að felast ?

Iðrunin ætti ekki að felast í að berja sig með göddum og velta sér uppúr ösku í hærusekk og ekki heldur að fasta. Heldur hlýtur hún að vera fólgin í að búa til betra samfélag af ábyrgð og kærleika. Samfélag sem umfaðmar öll með kærleika og elsku.

,, Skelfing þykir mér vænt um Geir, hann er líka alla laglegasti piltur og virðist vel viti borin. Hann er unnusta mín, ég kyssi hann og læt dátt að honum hreint eins og að hann væri ungmey”.

Guð gefi okkur vit og hugrekki alla daga.

Amen.

 

Takið postullegri blessun :

Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti huga og líkama okkar að eilífu!

Textar :

Pistill: Róm 3.21-26

En nú hefur Guð opinberað réttlæti sitt sem lögmálið og spámennirnir vitna um og byggist ekki á lögmáli. Það er: Réttlæti trúarinnar sem Guð gefur öllum þeim sem trúa á Jesú Krist. Hér er enginn greinarmunur: Allir hafa syndgað og skortir Guðs dýrð og Guð réttlætir þá, án þess nokkur verðskuldi það, af náð með endurlausn sinni í Kristi Jesú.

 

Guðspjall: Lúk 18.9-14

Jesús sagði líka dæmisögu þessa við nokkra þá er treystu því að sjálfir væru þeir réttlátir en fyrirlitu aðra: „Tveir menn fóru upp í helgidóminn að biðjast fyrir. Annar var farísei, hinn tollheimtumaður.

Faríseinn sté fram og baðst þannig fyrir: Guð, ég þakka þér að ég er ekki eins og aðrir menn, ræningjar, ranglátir, hórkarlar eða þá eins og þessi tollheimtumaður. Ég fasta tvisvar í viku og geld tíund af öllu sem ég eignast.

En tollheimtumaðurinn stóð langt frá og vildi ekki einu sinni hefja augu sín til himins heldur barði sér á brjóst og sagði: Guð, vertu mér syndugum líknsamur! Ég segi yður: Tollheimtumaðurinn fór heim til sín sáttur við Guð, hinn ekki, því að hver sem upp hefur sjálfan sig mun auðmýktur verða en sá sem lítillækkar sjálfan sig mun upp hafinn verða.“