Sameiginleg barna- og fjölskylduguðsþjónusta Laugardalsprestakalls verður kl. 11 á Páskadag í veitingaskála Fjölskyldu- og húsdýragarðsins í Laugardal. Um guðsþjónustuna sjá sr. Sigurður Már Hannesson, Jóhanna María Eyjólfsdóttir djákni, Þorsteinn Jónsson sem spilar á gítar, auk sr. Sigurðar Jónssonar og sr. Davíðs Þórs Jónssonar.
Komið verður saman við selalaugina þar sem selirnir fá páskasíldina sína. Þaðan verður haldið til samverustundarinnar sem verður í veitingaskálanum, þar sem ýmislegt fróðlegt og skemmtilegt verður á boðstólum.
Undir lok stundarinnar mæta svo fjörugar kanínur í skálann, sem krökkunum gefst færi á að klappa.
Ókeypis er í garðinn fyrir gesti guðsþjónustunnar.
Við hvetjum fjölskyldur til að mæta og eiga með okkur notalega samveru.
Allir hjartanlega velkomnir!