Fertugustu Jólasöngvarnir 15-17 desember

 

Í ár verða fertugustu Jólasöngvar Kórs Langholtskirkju haldnir við kertaljós, dagana 15. til 17. desember. Kór Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju koma fram ásamt einvala liði tónlistarmanna undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar, nýráðins organista Langholtskirkju og Þorvaldar Arnar Davíðssonar, nýráðins stjórnanda Gradualekórsins. Einsöngvarar í ár eru þau Þóra Einarsdóttir og Kristinn Sigmundsson.

Kórinn býður gestum upp á rjúkandi heitt jólasúkkulaði og piparkökur í hléi. Mikill jólaandi ríkir á tónleikunum og geta fjölmargir gestir vart hugsað sér upphaf jólahátíðarinnar án þess að mæta á Jólasöngva.

Jólasöngvar verða haldnir:
15. desember klukkan 22:00.
16. desember klukkan 21:00.
17. desember klukkan 17:00.

Félagar Listafélags Langholtskirkju, eldri borgarar, öryrkjar og námsmenn fá 30% afslátt af hverjum miða. Hafið samband við miðasölu Tix varðandi afslátt í síma 551 3800, opið er alla virka daga frá 9-16.

Fyrstu jólasöngvarnir voru haldnir í Landakotskirkju 1978 en fyrstu tónleikarnir í Langholtskirkju voru haldnir í kirkjuskipinu 1980 áður en gler var komið í kirkjuna, í tíu stiga frosti og ganga í minningunni undir heitinu „vettlingatónleikarnir“. Þá skapaðist sú hefð að gefa tónleikagestum jólasúkkulaði og piparkökur í hléi til að ylja sér.