Á fyrstu tónleikum starfsársins 2022‒2023 fær Kór Langholtskirkju til sín góða gesti frá Björgvin í Noregi, tónlistarhópinn Collegium Musicum, kór og hljómsveit, sem skipar sér í fremstu röð tónlistarhópa þar í borg, og er sérstakt ánægjuefni að fá hann hingað til landsins.
Á efnisskrá eru tvö glæsileg verk eftir Händel, Zadok the Priest og Dixit Dominus, sem kórarnir flytja í sameiningu, ásamt nýrri íslenskri messu eftir Magnús Ragnarsson.
Fyrra verkið eftir Händel, Zadok the Priest, er meðal þekktustu verka tónskáldsins og eitt hið þekktasta í sígildri tónlist. Það var samið fyrir krýningu Georgs II Englandskonungs árið 1727 og hefur verið flutt við krýningu breskra konunga og drottninga allar götur síðan.
Síðara verkið, Dixit Dominus, sem kórarnir flytja í sameiningu, samdi Händel aðeins 22 ára að aldri, og lagði þar út af 110. Davíðssálmi, sem hefst á orðunum: „Svo segir Drottinn“. Verkið er einstakur vitnisburður um tónsmíðatækni Händels í upphafi ferils hans og einkennist af þróttmikilli og fjörlegri tónlist, þrunginni spennu, þar sem Händel nýtir sér dramatískt myndmál sálmsins til hins ýtrasta. Þá gerir tónverkið afar miklar kröfur til kórsins, sem er skipt í fimm raddir þar sem sópranröddin er tvískipt.
Messa í fimm þáttum (2021) eftir Magnús Ragnarsson er fyrir kór án undirleiks. Messan byggir á hinum hefðbundna, latneska messutexta og skiptist í fimm þætti hennar: miskunnarbæn (kyrie), dýrðarsöng (gloria), trúarjátningin (credo), heilagur (sanctus) og Guðs lamb (agnus dei). Hér er um nútímaverk að ræða sem sækir innblástur víðs vegar að, en hvílir um leið á traustum stoðum gregorssöngs og hinna gömlu kirkjutóntegunda. Kór Langholtskirkju frumflutti messuna haustið 2021 og hún verður gefin út á streymisveitum um það leyti sem tónleikarnir eiga sér stað.
Á tónleikunum kemur fram hljómsveit skipuð hljóðfæraleikurum Collegium Musicum og konsertmeistara hennar, Dag Anders Eriksen, ásamt íslenskum liðstyrk. Magnús Ragnarsson stjórnar.
Tónlistarhópurinn Collegium Musicum, kór og hljómsveit, kemur reglulega fram á eigin vegum undir stjórn aðalstjórnandans Håkon Matti Skrede eða gestastjórnanda á borð við Nicolas Kraemer og flytur allt frá sígildum verkum til samtímatónlistar. Á undanförnum árum hefur kórinn einnig unnið mikið með Fílharmóníusveit Björgvinjar og aðalstjórnanda hennar, Edward Gardner. Það gjöfula samstarf hefur meðal annars getið af sér nokkrar verðlaunaupptökur, til dæmis á Peter Grimes (2021) og var hún valin besta plata ársins af hinu virta tónlistartímariti Gramophone.
Miðasala fer einungis fram við inngang. Almennt miðaverð er 2.900 krónur.
Miðinn fyrir nemendur, öryrkja, eldri borgara og félaga í Listafélagi Langholtskirkju kostar 1.900 krónur.
Miðinn fyrir nemendur, öryrkja, eldri borgara og félaga í Listafélagi Langholtskirkju kostar 1.900 krónur.