Föstudaginn 1. mars næstkomandi mun Kór Langholtskirkju bjóða sóknarbörnum kirkjunnar og fleirum í sálmasöng og bjórdrykkju, en þann dag verða einmitt þrjátíu ár liðin frá því að bjórinn var leyfður á Íslandi.
Bjór- og sálmakvöld hafa verið haldin í kirkjum bæði hérlendis og erlendis og vakið mikla lukku. Magnús Ragnarsson kórstjóri stýrir söng vel valdra sálma og hægt verður að kaupa sér einn kaldan í kirkjunni á sanngjörnu verði, en ágóðinn rennur í sjóð kórsins sem tekur þátt í kórakeppni í Tours í Frakklandi í sumar.
Tekið skal fram að maður þarf ekki að vera söngvari í heimsklassa til að taka undir í sálmunum og það er ekki gerð krafa um að hver og einn fái sér í tána.
Söngur hefst í safnaðarheimilinu klukkan 20.00.