Langholtskirkja býður börnum í 1. og. 2. bekk í Vogaskóla að taka þátt í vönduðu barnastarfi sem hefst 4. febrúar n.k. og stendur vikulega til páska. Starfsfólk kirkjunnar sækir börnin í skólann á fimmtudögum kl. 13.30 og fylgir þeim eftir samveruna til baka í frístundarheimilið Glaðheima um kl. 15. Ath. að starfið er gjaldfrjálst með öllu !
Mikilvægt er að skrá öll börn sem ætla að taka þátt á veffangið johanna@wpvefhysing.is. Fram þarf að koma nafn barns, bekkur, símanúmer foreldra, veffang foreldra, hvort barnið eigi að snúa til baka í frístund eða ganga sjálft heim og upplýsingar um ofnæmi/sérþarfir ef eitthvað er. Þau börn sem eru ekki skráð er ekki hægt að sækja í skólann. Öllum skráðum börnum er þó frjálst að mæta á eigin vegum ef það er með vitund foreldra.
Markmið starfsins er að gefa börnum hverfisins tækifæri á að kynnast kirkjunni sinni og starfsfólki hennar ásamt því að öðlast grunnþekkingu í kristinni trú. Allar nánari upplýsingar um starfið, starfsfólkið í barnastarfinu og tímasetningar er að finna hér á heimasíðu kirkjunnar.