Barnastarf fyrir 1. og 2. bekk í Langholtsskóla hefst 5. nóvember !

 

Langholtskirkja býður börnum í 1. og. 2. bekk í Langholtskóla að taka þátt í vönduðu barnastarfi sem hefst 5. nóvember n.k. og stendur vikulega til jóla. Starfsfólk kirkjunnar sækir börnin í skólann á fimmtudögum kl. 13.30 og fylgir þeim eftir samveruna til baka í frístundarheimilið Glaðheima um kl. 15. Ath. að starfið er gjaldfrjálst með öllu !

Mikilvægt er að skrá öll börn sem ætla að taka þátt á veffangið johanna@wpvefhysing.is. Fram þarf að koma nafn barns, bekkur, símanúmer foreldra, veffang foreldra, hvort barnið eigi að snúa til baka í frístund eða ganga sjálft heim og upplýsingar um ofnæmi/sérþarfir ef eitthvað er. Þau börn sem eru ekki skráð er ekki hægt að sækja í skólann. Öllum skráðum börnum er þó frjálst að mæta á eigin vegum ef það er með vitund foreldra.

Markmið starfsins er að gefa börnum hverfisins tækifæri á að kynnast kirkjunni sinni og starfsfólki hennar ásamt því að öðlast grunnþekkingu í kristinni trú. Í vetur verður unnið með tilraunaverkefni í kristinni núvitund sem Yrja Kristinsdóttir, leiðbeinandi í barnastarfi Langholtskirkju, er að þróa áfram í tengslum við námið sitt.

Verkefnið byggist á æfingum sem eflir vitund barna á eigin hugsunum, öndun, skynjun og líkama og gefur þeim betri stjórn á tilfinningum sínum og hugsunum. Markmið verkefnisins er að kenna börnum núvitund sem nýtist þeim almennt í daglegu lífi í ýmsum aðstæðum. Ætlunin er að styðja faglega við núvitundarnám barna til að þau geti nýtt sér þær æfingar sem þau læra á námskeiðinu og ávinning þeirra í aðstæðum í daglegu lífi. Hver stund verður um 30 mínútur og verða gerðar ýmsar æfingar líkt og líkamskönnun, öndunaræfingar, skynjunaræfingar og sjónrænar æfingar. Æfingarnar í hverjum tíma eru hafðar heldur stuttar þar sem börn eiga oft erfitt með að halda athygli eins lengi og fullorðnir. Eftir því sem börnin verða reyndari í að gera æfingar námskeiðsins því meiri reynslu öðlast þau með því að átta sig á eigin skynjun og vera meðvituð um hana. Æfingarnar byggja því á reynslu barnanna, að æfa skynjun þeirra og athygli ásamt því að þjálfa stjórn á tilfinningum og hugsunum. Eftir hvern tíma fá börnin með heim blað til foreldra með æfingunum svo að hægt sé að gera þær saman heima. Heimaæfingar ýta undir þátttöku foreldra og gerir þeim kleift að skilja betur tilgang núvitundar.

Leiðbeinendur í barnastarfinu eru: 

Jóhanna Gísladóttir er prestur í Langholtskirkju og með mag.theol gráðu í guðfræði. Hún hefur starfað í barna- og æskulýðsstarfi Þjóðkirkjunnar í tæpan áratug en starfaði áður hjá leikskólum Reykjavíkur. Jóhanna hefur unnið að gerð fræðsluefnis fyrir barna- og fermingarstarf Þjóðkirkjunnar á vegum Biskupsstofu og stýrir vefsíðunum fermingarfræðsla.is, ferming.is og barnatru.is. Umsjón barnastarfs Langholtskirku er í höndum Jóhönnu og hægt er að fá nánari upplýsingar með því að senda henni póst á johanna@wpvefhysing.is.

Yrja Kristinsdóttir er með BA í félagsráðgjöf og stundar MA nám í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á lífsleikni, sjálfsmyndir og farsæld. Auk þess lýkur hún næsta vor viðbótardiplóma í djáknafræðum Hún er með diplóma í núvitund frá Mindfulness Akademiet í Danmörku og diplóma í núvitund fyrir börn og unglinga frá Mindful Schools. Einnig stundar hún ACC markþjálfanám. Kennsluefnið sem notað verður með yngri hópum kirkjunnar í vetur er hennar smíð og hluti af tilraunaverkefni sem Yrja er að þróa áfram. 

Einnig munu Snævar Jón Andrjesson æskulýðsfulltrúi og Hafdís Davíðsdóttir leiðbeinandi taka þátt í starfinu en þau eru bæði guðfræðinemar og með margra ára reynslu af barna- og æskulýðsstarfi.

Allt starfsfólk barnastarfs Langholtskirkju hefur gengist undir skimun starfsmanna Þjóðkirkjunnar í tengslum við siðareglur kirkjunnar.

IMG_2828