Áratugalöng hefð er fyrir Jólasöngvum Kórs Langholtskirkju og í ár verða tvennir stórtónleikar haldnir dagana 18. og 19. desember. Þar munu Kór Langholtskirkju og Gradualekór Langholtskirkju syngja undir stjórn Magnúsar Ragnarssonar og Lilju Daggar Gunnarsdóttur. Einsöngvarar í ár eru þau Hallveig Rúnarsdóttir og Eggert Reginn Kjartansson.
Þetta verða fertugustu og þriðju Jólasöngvar kórsins. Mikill jólaandi ríkir á tónleikunum og geta fjölmargir gestir vart hugsað sér að halda inn í hátíðirnar án þess að mæta á Jólasöngvana. Fyrstu Jólasöngvarnir voru haldnir í Landakotskirkju 1978 en fyrstu tónleikarnir í Langholtskirkju voru haldnir í kirkjuskipinu 1980 áður en gler var komið í kirkjuna, í tíu stiga frosti og ganga í minningunni undir heitinu „vettlingatónleikarnir“.
Hljómsveitina skipa: Melkorka Ólafsdóttir, flauta, Richard Korn, kontrabassi og Frank Aarnink, slagverk.