Skráning í barnakóra Langholtskirkju fyrir veturinn ’17-’18 er hafin

Skráning í barnakóra Langholtskirkju er hafin á heimasíðu Langholtskirkju undir “starfið -> kórar “. Síðustu ár hafa færri komist að en vilja í Krúttakórinn en hámarksfjöldi í hverjum hóp er 25 börn. Því er mikilvægt að skrá áhugasöm börn sem allra fyrst.

Krúttakór Langholtskirkju er ætlaður söngfuglum á aldrinum fjögurra til sjö ára. Æfingar fara fram einu sinni í viku og endar hver önn á tónleikum. Kórinn syngur einu sinni á önn í fjölskyldumessum í kirkjunni og mun einnig syngja á jólatónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Hörpunni í desember 2016. Kórinn tekur til starfa fyrstu vikuna í september og æfir alla miðvikudaga til vors.

Kórskólinn er ætlaður börnum í 2. – 4. bekk og hentar jafnt byrjendum sem og börnum sem áður hafa sungið í Krúttakórnum. Æfingar fara fram tvisvar í viku, þriðjudaga og fimmtudaga kl. 17 – 18.20. Kórstjóri veturinn 2017 – 2018 er Sunna Karen Einarsdóttir og raddþjálfari Harpa Harðardóttir.

Graduale Futuri er eldri barnakór kirkjunnar og er framhald af Kórskólanum en tekur þó einnig við byrjendum í söngnámi. Hann er hugsaður fyrir aldurshópinn tíu til fjórtán ára. Kórinn æfir á þriðjudögum og fimmtudögum frá kl. 17:00 – 19:00. Kórinn tekur þátt í ýmsum spennandi verkefnum yfir veturinn ásamt því að syngja á tónleikum í lok annar og syngja í messu einu sinni á önn. Stjórnandi er Rósa Jóhannesdóttir og raddþjálfari Harpa Harðardóttir.