Rittúlkuð messa og sunnudagaskóli 15. nóvember kl. 11

 

Allir eru velkomnir í messu til okkar í Langholtskirkju sunnudaginn 15. nóvember kl. 11. Sr. Jón Dalbú Hróbjartsson þjónar og sr. Jóhanna Gísladóttir predikar. Organisti er Jón Stefánsson. Messuþjónar og fermingarbörn aðstoða við messuhald. Messan í heild sinni verður rittúlkuð í samvinnu við félagið Heyrnarhjálp, en það merkir að hvert einasta orð sem mælt er í messunni er textað jafnóðum á tjaldi til stuðnings þeim sem eru við skerta heyrn.

Stúlknakórinn hæfileikaríki Graduale Futuri, undir stjórn Rósu Jóhannesdóttur, leiðir okkur í gegnum safnaðarsöng og tekur lagið fyrir okkur ef við erum heppin. Emma Eyþórsdóttir, verðandi fermingarbarn, mun einnig syngja í messunni. Sunnudagaskólinn verður auðvitað á sínum stað og Snævar og Hafdís munu taka á móti börnunum með brosi á vör.

Eftir stundina mun kórinn og aðstandendur þeirra selja heimabakaðar veitingar með kaffinu í safnaðarheimilinu en stúlkurnar eru að safna fyrir næsta kórferðalagi. Við hlökkum til að sjá sem flesta!