Kór Langholtskirkju

Kór Langholtskirkju

Kórinn æfir í Langholtskirkju á miðvikudögum kl. 19-22. Í vetur mun kórinn flytja Kórkonsertinn eftir Schnittke, Requiem eftir Fauré, Jólasöngva og taka þátt í Grand prix kórakeppni í Tour í Frakklandi mánaðarmótin maí/júní. Auk þess syngja nokkrir kórfélagar við aðrar athafnir svo sem útfarir.

Kirkjukór Langholtskirkju var stofnaður árið 1953 og hefur starfað með núverandi hætti frá 1973. Kórinn hefur flutt öll stóru verkin eftir Bach og sviðssetning kórsins á Jóhannesarpassíunni eftir Bach árið 1995 vakti mikla athygli. Yfir áramótin 1999-2000 flutti kórinn Jólaóratoríuna Bachs í sex messum frá jóladegi til þrettánda eins og Bach gerði sjálfur.
Auk þess hefur kórinn flutt fjölda annara stórverka m.a. „Petite Messe solenelle“ eftir Rossini, „Ein Deutsches Requiem“ eftir Brahms, „Messías“ eftir Händel, „Messe solenelle“ eftir Beethoven, „Sköpunina“ og messur eftir Haydn, „Requiem“ og messur eftir Mozart og „Brúðkaupið“ eftir Stravinski. Kórinn flytur reglulega ný íslensk verk og hefur fengið tónskáld til að semja fyrir sig. Hann hefur farið í fjöldamargar tónleikaferðir m.a. til Norðurlandanna, Mið- og Suður- Evrópu, Ísraels þar sem hann flutti Messías eftir Händel, Kanada og Bandaríkjanna og Englands þar sem hann flutti m.a. messu í h-moll eftir Bach í Barbican tónleikahöllinni með ensku kammersveitinni.
Kórinn hefur gefið út fjölda af hljómplötum og geisladiskum m.a. „Land míns föður“, „An Anthology of Icelandic Choir Music“, „Jóhannesarpassían“ eftir Bach, „Barn er oss fætt“ og „Ísland er lýðveldi“.
Árið 2003 frumflutti kórinn Guðbrandsmessu sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir kórinn í tilefni 50 ára afmælis hans.

Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson. Æfingar verða á miðvikudögum frá kl. 19.00 – 22.00.

Hér að neðan má sjá umfjöllun um tónleika kórsins frá í apríl 2018 þegar hann flutti Messías eftir Handel.