Hugsun vikunnar !

Hugsun vikunnar !

17. september 2017 sr. Jóhanna Gisladóttir.

 

Náð og friður sé með okkur öllum.

Ef þú fengir það verkefni að fara út á Sólheimabókasafn hér í næstu götu og velja þér 66 bækur til þess að taka með á eyðueyju hvaða bækur myndirðu velja? Jafnvel þau sem alla jafna lesa ekki mikið myndu flest eiga auðvelt með að velja bækur sem þauhefðu áhuga á að fletta í gegnum þegar þau væru komin með nóg af sól og sandi.

En valið verður erfiðara ef verkefnislýsingin breytist  – hvað ef þú ættir að finna til 66 bækur sem táknrænar eru fyrir líf manneskjunnar, eðli hennar og tilfinningar? Frásagnir sem lýsa best samtíma okkar annars vegar, en einnig fortíð og framtíðarsýn?

Það var í raun verkefnið sem beið fræðingana sem settu saman rit biblíunnar í eina bók; að segja sögu þjóðar á hreinskilinn hátt annars vegar og hins vegar ævisögu Krist byggða á takmörkuðum heimilidum. Og með þúsundir frásagna fyrir framan sig, munnlegar og ritaðar, þurftu þeir að velja vel.

_____________

Ein af þekktustu fornsögum Biblíunnar er um Abraham sem fær boð frá Guði þess efnis að honum beri að fórna syni sínum, nokkurs konar próf til sýna hollustu. Abraham virðist við það að standast raunina, en á ögurstundu skerst Guð í leikinn, dregur skipun sína til baka og drengurinn lifir.

 Að ætla að hoppa inn söguna um Abraham ættföður Ísraels í þessum kafla án þess að þekkja það sem áður hafði farið fram er svolítið eins og ætla loksins að lesa Dalalíf Guðrúnar frá Lundi en hefjast handa á öðru bindinu.

Þannig að til að stikla á stóru úr fyrri hluta sögunnar þá segir hún frá pari sem þráði ekkert heitar en afkomanda. Þau voru hins vegar orðin öldruð og búin að sætta sig við hlutskipti sitt, en engin örlög á þessum tíma þótt verri en geta ekki eignast börn. Skömmin lá ætíð hjá konunum og húsmóðirin Sara, ofurmeðvituð um smán sína býður Abraham að fyrra bragði að sænga hjá ungri þrælastúlku sem bjó á heimilinu og gera hana ólétta. Já Biblían gefur oft sápuóperunum ekkert eftir!

Nú til að gera langa sögu stutta verður unga stúlkan auðvitað ólétt, eignast son sem húsmóðirin Sara getur svo ekki fengið af sér að þykja vænt um og þegar gamla konan verður sjálf ólétt fyrir kraftaverk og fæðir soninn Ísak hrekur hún þrælastúlkuna og son hennar af heimilinu án þess að Abraham geri neitt til að koma í veg fyrir það. 

Ein af mögulegum ástæðum þess að það yfir höfuð kom til greina í framhaldi sögunnar að fórna yngri syninum er sú að það hefur verið hart í ári og öll úrræði til fæðuöflunar þaulreynd. Fólk þessa tíma túlkaði slíka kreppu ætíð sem svo að Guð væri þeim reiður. Og svona eins og önugt barn sem þarf að sefa með nýju leikfangi lögðu þau gjarnan gjafir á altarið til að gleðja hann, korn, afurðir, kjöt o.s.frv.

En hvað gerðist svo ef fórnin virkar ekki? Fólki þótti þá ljóst að fórna þyrfti einhverju mikilvægara – einhverju sem væri þeim ómissandi.

_________

 Spurningin sem við veltum kannski fyrir okkur hér í dag þegar við heyrum söguna um Ambraham og Ísak er hvort það hafi raunverulega verið Guð sem skipaði honum að fórna syni sínum eða var það hræðslan í hjarta hans við þurrk og hungursneið, hræðslan við refsingu Guðs vegna þess hvernig var farið með elsta son hans og móður hans, hræðslan við afleiðingar af slæmum ákvörðunum sem fær hann í mikilli örvæntingu til að vera tilbúinn að sleppa takinu af því sem hann elskar mest.

Því eru mörg sem halda því fram að frásögnin um þá feðga sé í raun saga um hvernig hræðsla og örvænting getur afvegaleitt okkur – fær okkur til að gera og segja hluti sem við myndum alla jafna ekki gera. Kasta frá okkur því sem skiptir okkur mestu máli til að halda í meðal annars heiður og virðingu,  halda í eitthvað sem í lok dags skiptir ekki öllu máli.

Síðar þegar Kristur sjálfur kom til sögunnar og byrjaði að kenna fólkinu lagði hann áherslu á að elska Guðs er ótakmörkuð og fórnir ekki sú leið sem við tjáum væntumþykju okkar á almættinu. Sem var róttækur boðskapur á þeim tíma er hann var uppi.

Svo ef við hugsum nú aftur til þeirra frásagna og þeirra bóka sem við höldum mest uppá og sem dvelja lengst í huga okkar eftir lesturinn, eru það ekki stundum frásagnir sem ganga fram að okkur, frásagnir sem við eigum erfitt með að kyngja sem eru okkur minnisstæðastar og skilja mest eftir sig. Frásagnir fullar af tilfinningum sem við tengjum við, í þessu tilfelli – örvæntingu og eftirsjá – þar sem við höldum niðrí okkur andanum alveg þar til í lokin.

 Sem er ástæða þess að við þurfum sífellt að vera að tækla erfiða texta Biblíunnar. Við þurfum jú sífellt að vera að takast á við hraðahindranir og óvæntar breytingar í okkar eigin lífum. Alltaf mætir okkur ný hindrun handan við hornið, spyrjið bara Bjarna Ben :)

Lífð sjálft er eins fallegt og það getur stundum verið ljótt og rit sem á að endurspegla lífið og mennskunsa gerir það að sjálfsögðu líka.

_________ 

Ég vil trúa því að Abraham hefði hlíft syni sínum á ögurstundu jafnvel þótt Guð sjálfur hefði ekki skorist í leikinn. En lífsreynsla okkar kennir okkur því miður að ekki allar sögur enda vel þótt sagan í dag í geri það.

Ef eitthvað þá er þessi saga í minum huga enn einn vitnisburðurinn um ást Guðs á okkur manneskjunum, að sama hvað vitleysu við tökum upp á, þá er Guð eins og þolinmóð amma sem gefast aldrei upp á að reyna að vísa okkur í rétta átt.

 Guð kærleikans færi okkur visku til að þekkja Guðs vilja og kjarkinn til að fylgja veg réttsýni og kærleika. Amen.


Textar : Sköpunarsaga 1. Mósebókar kafli 21.1-3, 22:1-14 og Jóhannesarguðspjall 1.29.