Sungið fyrir sætum 18.mars

Sungið fyrir sætum 18.mars

Sungið fyrir sætum

Fjáröflunartónleikar 18. mars kl. 17 og 20.

Syngjandi kirkja í Vogahverfi, er nafn með réttu á Langholtskirkju.

Allt frá upphafi hefur tónlist og kórastarf verið miðpunktur safnaðarstarfsins, veturinn 2017-2019 eru félagar í kórum kirkjunnar 222 talsins.

Kór Langholtskirkju er einn metnaðarfyllsti kirkjukór landsins og hefur frá stofnun árið 1953 getið sér gott orð. Þekktustu kórverk kirkjutónlistarsögunnar og ný og eldri íslensk verk hafa verið meðal þeirra ótal verkefna sem kórinn hefur tekist á við, auk þess sem mörg tónskáld hafa samið verk sérstaklega fyrir kórinn. Jón Stefánsson er flestum kunnur fyrir það einstaka frumkvöðla starf sem hann vann á sviði tónlistar á Íslandi og naut Langholtskirkja starfskrafta hans í rúm 50 ár, en Jón lést árið 2016. Kór Langholtskirkju er nú skipaður 32 úrvalssöngvurum sem allir eru söngmenntaðir, listrænn stjórnandi tónlistarstarfsins í Langholtskirkju er Magnús Ragnarsson organisti.

Metnaðarfullt tónlistarstarf fyrir börn og unglinga hefur ekki síður sett svip sinn á starf Langholtskirkju. Kórskóli Langholtskirkju var stofnaður haustið 1991 með það að markmiði að veita börnum og unglingum staðgóða tónlistarmenntun, markvissa þjálfun raddar og heyrnar með þátttöku í kórstarfi. Nú skiptist Kórskóli Langholtskirkju í þrjá kóra : Krúttakórinn 4-7 ára, Graduale Liberi 7-10 ára og Graduale Futuri 10-14 ára. Að auki eru starfræktir kórarnir : Gradualekór Langholtskirkju sem er unglingakór fyrir aldurshópinn 14-18 og Graduale Nobili sem er sjálfstætt starfandi kór fyrir 18 ára og eldri. Miklar kröfur eru gerðar til kórfélaga en margar stúlknanna eru langt komnar í tónlistarnámi. Verkefnaval kóranna spanna verk frá barokktónlist til erfiðra nútímaverka.

Húsakosti og hljóðfærum safnaðarins hafa óteljandi manneskjur utan sem innan safnaðar komið upp með gjafmildi sinni á tíma og peninga. Án þeirra allra hefði fátt eitt orðið. Hljómburður kirkjunnar er einstakur og á kirkjan eitt fegusta hljóðfæri íslenskrar kirkju, Noack orgel.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að Kór Langholtskirkju söng vettlingaklæddur í fokheldri kirkju til fjáröflunar, en um leið er verkefnið að halda slíku tónlistarhúsi við sístætt.

Nú leitum við til velunnara tónlistarstarfsins í Langholtskirkju svo mögulegt sé að klæða að nýju stóla kirkjunnar, sem sannarlega hafa skilað sínu enda hafa örugglega hátt í milljón manns tyllt sér og notið fagurra tóna þá áratugi sem liðnir eru.

Söngurinn þagni aldrei í Langholti !