Saga tónlistarlífs í Langholtskirkju

Fyrsti organisti Langholtssafnaðar var Helgi Þorláksson en hann var ráðinn stuttu eftir að söfnuðurinn var stofnaður árið 1952. Gegndi hann þeirri þjónustu í áratug. Það var mikið gæfuspor fyrir söfnuðinn og tónninn gefinn fyrir það sem koma skyldi. Helgi varð einnig nánasti samstarfsmaður séra Árelíusar sem fyrsti sóknarnefndarformaðurinn. Ótal verkefni biðu hins ört vaxandi söfnuðar. Það stærsta var að byggja samkomustað þar sem hægt var að koma saman til bænar og lofgjörðar, uppfræðslu og samfélags. Helgi stofnaði Kirkjukór Langholtssafnaðar 23. mars 1953 og hélt kórinn reglulega tónleika, sem ekki var algengt að kirkjukórar gerðu á þessum árum. Kórfélagar voru á bilinu fimmtán til átján, eins og algengt var í kirkjukórum á þeim tíma. 

 

En árið 1964 urðu þáttaskil þegar Helgi veiktist og Jón Stefánsson tók við kórnum og organistastarfinu, þá aðeins sautján ára að aldri. Óhætt er að segja að þar hafi úthaldsgóður og dugandi piltur verið ráðinn til starfa. Jón var þá í kantorsnámi við Tónskóla Þjóðkirkjunnar og við nám í Tónlistarskólanum í Reykjavík. Kennarinn hans var dr. Róbert Abraham Ottóson og það var hann sem sendi Jón í Langholtskirkju til afleysinga. Skömmu síðar var Jón sóttur út á tún í Mývatnssveit og spurður hvort hann vildi fastráða sig við söfnuðinn. 

Þegar fram í sótti gerði Jón breytingar á starfsháttum kórsins. Ástæðan var sú að kórfólkið fékk borgað fyrir að syngja í messu og var upphæðin greidd einu sinni á ári, í einu lagi og síðan skiptu kórfélagar henni á milli sín. Þetta kom í veg fyrir að fleiri bættust í hópinn. Kórinn fór hins vegar að glíma við stöðugt stærri verkefni, fá aukafólk til liðs við sig og það stefndi í það að starfræktir væru tveir kórar, konsertkór og kirkjukór. Árið 1973 urðu því þær breytingar að kórmeðlimir afsöluðu sér greiðslum og peningarnir voru notaðir til þess að efla tónlistarstarf kirkjunnar. Þetta gerði kórnum kleift að fást við stærri verkefni, kaupa nótur og standa straum af öðrum kostnaði sem til fellur og er mikill. Seinna var þessi háttur tekinn upp hjá fleiri kórum.

Nú var ekkert því til fyrirstöðu að hleypa fleira fólki inn í kórinn enda streymdi að ungt fólk sem þyrsti í að flytja stærri kórverk. En það komu líka til fleiri breytingar. Í samráði við presta kirkjunnar, Sigurð Hauk Guðjónsson og Árelíus Níelsson, var tekinn upp einraddaðaður safnaðarsöngur. Það þýddi að kórinn þurfti ekki lengur allur að mæta í allar messur, heldur var honum skipt upp í marga forsöngvarahópa. Þar með var binding kórmeðlima mun minni en hún hafði áður verið. Þetta var mjög svo í takt við það sem var að gerast innan kirkjunnar. Það var komin mikil hreyfing innan hennar um að efla þátttöku safnaðarins og Langholtssöfnuður varð fyrstur til þess að stíga þetta skref til fulls. Þegar þarna var komið við sögu, hafði Jón kynnst messuhaldi í Þýskalandi þar sem söfnuðurinn söng með jafnvel bara einum forsöngvara.

Kórmeðlimir voru orðnir um fimmtíu enda fór boltinn að rúlla eftir 1973 og kórinn flutti stærri og stærri verk. Fyrsta risaverkið, „Stóra messan“ eftir Mozart, var flutt 1979 og árið 1981 var óratórían Messías flutt í fyrsta sinn en það er það verk sem kórinn flutti oftast. Svo kom röðin að Bach. Jólaóratorían var flutt fyrst 1982 og lengi vel var hún flutt annað hvert ár. Það má segja að áratugurinn frá 1980 til 1990 hafi einkennst af því að þá voru öll stóru verkin eftir Bach flutt, Jólaóratorían, passíur og H-moll-messan. Sviðssetning kórsins á Jóhannesarpassíunni eftir Bach árið 1995 vakti mikla athygli. Yfir áramótin 1999-2000 flutti kórinn Jólaóratoríuna eftir Bach í sex messum frá jóladegi til þrettánda eins og Bach gerði sjálfur. Auk þess flutti kórinn fjölda annara stórverka m.a. „Petite Messe solenelle“ eftir Rossini, „Ein Deutches Requiem“ eftir Brahms, „Messe solenelle“ eftir Beethoven, „Sköpunina“ og messur eftir Haydn, „Requiem“ og messur eftir Mozart. Kórinn flutti reglulega ný íslensk verk og fékk mörg tónskáld til að semja fyrir sig. Hann fór í fjöldamargar tónleikaferðir m.a. til Norðurlandanna, mið- og suður- Evrópu, Ísrael, Kanada, Bandaríkjanna og Englands þar sem hann flutti m.a. Messu í h-moll eftir Bach í Barbican tónleikahöllinni með Ensku kammersveitinni.

Kórinn gaf út fjölda af hljómplötum og geisladiskum m.a. „Land míns föður“, „An Anthology of Icelandic Choir Music“ (BIS í Svíþjóð), „Jóhannesarpassían“ eftir Bach, „Barn er oss fætt“ og „Ísland er lýðveldi“. Sumarið 2000 fór kórinn í tónleikaferð til Kaupmannahafnar og Bergen, í desember til Finnlands og Svíþjóðar og í mars 2001 tók hann þátt í frumflutningi á nýju stóru verki í Færeyjum ásamt Havnarkórnum og Sinfóníuhljómsveit Færeyja og hafði þá náð að heimsækja öll Norðurlöndin yfir aldamótin og á kristnitökuafmæli. Vorið 2002 söng kórinn „Brúðkaupið“ eftir Stravinski á Listahátíð og var það í fyrsta skipti að verkið var flutt hérlendis. Árið 2003 frumflutti kórinn Guðbrandsmessu sem Hildigunnur Rúnarsdóttir samdi fyrir kórinn í tilefni 50 ára afmælis hans. Verkið er samið fyrir kór, einsöngvara og fullskipaða hljómsveit og vakti mikla hrifningu. Vorið 2008 var gerð skipulagsbreyting á Kór Langholtskirkju og eru nú í honum 32 úrvalssöngvarar sem allir eru söngmenntaðir.

Kammerkór Langholtskirkju var myndaður úr Kór Langholtskirkju árið 1994 og var upphaflega einn af forsöngvarakórunum. Allir kórmeðlimir voru söngmenntaðir og höfðu mjög langa kórreynslu. Kammerkórinn tók að sér sérstök verkefni þar sem þurfti lítinn kór, mest við kirkjulegar athafnir, svo sem brúðkaup og jarðarfarir. Í janúar 1995 söng kórinn ásamt kammersveit, í viðamikilli sýningu í Þjóðleikhúsinu, í samvinnu við Þjóðdansafélagið, verkið „Íslenskir söngdansar“ eftir Jón Ásgeirsson. Sumarið 1995 var kórinn sérstakur gestur á fyrsta baltísk/skandinavíska kóramótinu í Riga í Lettlandi þar sem hann kynnti íslenska kórtónlist. Sömuleiðis tók hann þátt í Norræna kirkjutónlistarmótinu í Gautaborg 1996. Sumarið 2002 tók kórinn þátt í alþjóðlegri kórakeppni í Randers í Danmörku og sigraði í flokki kammerkóra. Ári síðar tók hann þátt í kórakeppni í Tampere í Finnlandi og hreppti ein gullverðlaun. Árið 2002 gaf kórinn út geisladiskinn „Kammerkór Langholtskirkju“ og vorið 2004 gaf Skálholtsútgáfan út geisladiskinn „Sálmar í sorg og von“ með söng kórsins. Árið 2008 gaf kórinn út diskinn Tíminn og vatnið með verkum eftir Jón Ásgeirsson.

Kórskóli Langholtskirkju var stofnaður haustið 1991. Markmið skólans er að veita börnum og unglingum staðgóða tónlistarmenntun með markvissri þjálfun raddar og heyrnar sem miðast að þátttöku í kórstarfi. Kennslugreinar eru tónfræði, tónheyrn, nótnalestur, raddþjálfun og samsöngur. Upp úr kórskólanum varð svo fljótlega til Gradualekór Langholtskirkju, barna- og unglingakór sem varð til þegar fólk óx upp úr skólanum. Kórfélagar eru á aldrinum 14-18 ára og mjög miklar kröfur eru gerðar til þeirra sem fá innöngu í kórinn og margir kórfélagar eru langt komnir í tónlistarnámi. Verkefnaval kórsins spannar verk frá barokktónlist til erfiðustu nútímaverka. Hann hefur vakið sérstaka athygli fyrir hve auðveldlega og með mikilli gleði erfið nútímaverk eru flut.

Kórinn hefur gefið út geislaplöturnar Ég bið að heilsa (1994), Jólaplötuna Á jólunum er gleði og gaman (1996), Gradualekór Langholtskirkju (1997) og Með sumar í hjörtunum ungu (2009). Hann söng einnig með Sinfóníuhljómsveit Íslands á geislaplötu sem Chandos fyrirtækið gaf út með verkum eftir Jón Leifs. Kórinn hefur margsinnis komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands og sungið m.a. á Evróputónleikum útvarpsstöðva. Hann hefur farið í tónleikaferðir til Danmerkur, Færeyja, Portúgal, Kanada, Skotlands, Finnlands og Spánar og ferðast víða innanlands. Hann náði næstbesta árangri barnakóra í kórkeppninni í Tampere og silfurverðlaun í flokki afburða (superior) æskukóra og gullverðlaun í flokki kirkjutónlistar í kórakeppninni í Olomouc í Tékklandi.

Aldurstakmark í kórskólann var átta ára en mikill áhugi var á að fá að byrja fyrr og því var Krúttakórinn stofnaður árið 1996. Í honum eru börn á aldrinum fjögurra til sjö ára og má segja að Krúttakórinn sé forskóli. Í dag geta börnin byrjað sjö ára í Kórskólanum.

Árið 1999 fór Gradualekórinn í vel heppnaða ferð til Kanada en um haustið hætti allstór hópur í kórnum sökum aldurs. Mikil eftirsjá var af þessum frábæru söngvurum og úr varð að nýr kór var stofnaður árið 2000 og fékk nafnið Graduale nobili. Kórinn var skipaður 24 ungum stúlkum, völdum úr hópi þeirra sem sungið hafa með Gradualekór Langholtskirkju. Allir kórfélagar höfðu stundað eða lokið tónlistarnámi. Kórinn vakti gífurlega athygli strax og voru umsagnir gagnrýnenda eftir fyrstu sjálfstæðu tónleikana svo lofsamlegar að fátítt má telja. Hann hreppti annað sæti í Evrópsku æskukórakeppninni í Kalundborg í Danmörku árið 2001.

Nobili gaf út geisladisk árið 2001 sem tilnefndur var til Íslensku tónlistarverðlaunanna og menningarverðlauna DV og fékk mjög lofsamlega dóma. Árið 2008 gaf kórinn út geisladiskinn In Paradisum en á honum eru eingöngu íslensk verk, sum þeirra samin fyrir kórinn. Hann tók þátt í alþjóðlegu kórkeppninni í Tempere í Finnlandi 2003 og hreppti þar tvenn gullverðlaun eða annað sæti. Hann var fulltrúi Íslands á norræna kirkjutónlistamótinu í Danmörku árið 2004. Kórinn söng á tónleikum Ríkisútvarpsins fyrir Evrópusamband útvarpsstöðva í desember 2007 og aftur í desember 2014. Sumarið 2009 tók hann þátt í alþjóðlegu kórakeppninni í Llanghollen í Wales og hreppti silfurverðlaun í flokki kammerkóra og bronsverðlaun í flokki kvennakóra. Ári síðar tók hann aftur þátt í sömu keppni og hreppti þá silfurverðlaun í flokki Barberhop/Close Harmony og bronsverðlaun í flokki kammerkóra.

Haustið 2010 vann kórinn að upptökum á verki Bjarkar Guðmundsdóttur Biophilia sem fóru fram í desember 2010 og janúar 2011. Sumarið 2011 söng kórinn með henni á Listahátíðinni í Manchester og fór síðan með henni um víða veröld á tónleikaferðum hennar til haustins 2013. Haustið 2011 kom út geisladiskurinn Ceremony of Carols/Dancing Day og kom hann jafnframt út á erlendum markaði. Breska tímaritið BBC Music Magazine valdi diskinn einn af níu áhugaverðustu jóladiskum útgefnum árið 2012 og hið ameríska tímarit Fanfare Magizine segir: „Graduale Nobili is simply a wonderful choir, and hearing this recording for the first time was a delightful experience.“

Árið 2001 var Graduale futuri stofnaður en hann er millistig á milli Kórskólans og Gradualekórsins og má segja að hann sé undirbúningur fyrir Gradualekórinn. Ástæðan fyrir stofnun þessa kórs var sú, að þarna voru krakkar sem höfðu farið í gegnum Krúttakórinn og Kórskólann og höfðu of mikla getu til þess að syngja með Kórskólanum en voru of ung fyrir þau verkefni og ferðalög sem Gradualekórinn var að takast á við. Kórinn hefur haldið marga tónleika, bæði í Langholtskirkju og annars staðar innanlands. Hann hefur nokkrum sinnum farið í kórferðir til útlanda og árið 2010 kom út diskurinn Ljóss barn.

Árið 1999 varð langþráður draumur að veruleika þegar nýtt orgel var vígt frá Noack orgelverksmiðjunum í Bandaríkjunum. Orgelið er 34 radda í barokkstíl, það er mjög stílhreint og hentar hljómburði kirkjunnar einstaklega vel. Árið 2007 var svo stofnað listafélag til að halda utan um listastarfsemina í kirkjunni.

Árið 2016 lést Jón Stefánsson. Þrír nemendur úr Tónskóla Þjóðkirkjunnar gengu tímabundið í hans störf, þau Sólveig Anna Aradóttir, Steinar Logi Helgason og Þorvaldur Örn Davíðsson. Árni Heiðar Karlsson tók við stjórn Graduale nobili og var síðar ráðinn organisti kirkjunnar. Árið 2017 var Magnús Ragnarsson ráðinn organisti við kirkjuna og tók við stjórn Kórs Langholtskirkju. Björg Þórsdóttir og Móeiður Kristjánsdótti stjórna Krúttakórnum og Graduale liberi (sem hét áður Kór Kórskólans). Dagný Arnalds stjórnar Graduale Futuri, Lilja Dögg Gunnarsdóttir stjórnar Gradualekór Langholtskirkju og Sunna Karen Einarsdóttir stjórnar Graduale Nobili.

Árið 2016 kom út bókin Stjórnandi Jón Stefánsson. Gunnlaugur V. Snævarr tók saman og útgefandi er Syngjandi Langholt, hópur fyrrverandi formanna Kórs Langholtskirkju. Sagt er frá æsku og uppruna Jóns í Mývatnssveit og fjölbreyttu tónlistarstarfi hans. Skemmtilegar sögur samstarsfólks og fjölmargar myndir prýða bókina. Bókin er til sölu í Kirkjuhúsinu, Bóksölu stúdenta, Eymundsson og víðar.