Fundur fyrir fermingarbörn næsta vetrar, foreldra þeirra og forráðafólk

 

Kynningarfundur fyrir verðandi fermingarbörn fædd árið 2004 og foreldra/forráðafólk verður haldinn í Langholtskirkju sunnudaginn 28. maí kl. 12, eða strax að messu lokinni. Á þessum stutta fundi gefst unglingunum og fjölskyldum þeirra tækifæri til að sjá framan í prestinn, rætt verður hvernig fermingarfræðslunni er háttað yfir veturinn, námsefnið kynnt og spjallað um ferðina í Vatnaskóg sem farin verður helgina 18. – 20. ágúst n.k.

Fermingarfræðsla Langholtskirkju stendur öllum til boða hvort sem unglingurinn hefur hug á að fermast um vorið eða ekki. Markmið fræðslunnar er að efla almenna þekkingu á kristinni trú og gefur unglingnum tækifæri á að kynnast betur kirkjunni sinni, starfsfólki hennar og þjónustunni sem kirkjan býður upp á. Unnið er markvisst með hugtök eins og jafnrétti, þróunarhjálp, umhverfisvernd, lífsleikni og samskipti og stuðst er við aðferðafræði speglaðra kennsluhátta í allri fræðslunni.

Skráning í fræðsluna er nú þegar hafin á heimasíðu kirkjunnar undir “fermingarfræðsla”. Mikilvægt er að skrá þau sem ætla að taka þátt í fræðslunni sem fyrst. Öllum frekari fyrirspurnum er svarað í gegnum netfangið johanna@wpvefhysing.is.