Bjór og sálmar föstudaginn 27. september

Föstudaginn 27. september endurtekur Kór Langholtskirkju leikinn og býður til kvöldstundar með sálmasöng og bjór í safnaðarheimili kirkjunnar kl. 20:00.

Bjór- og sálmakvöld hafa verið haldin í kirkjum bæði hérlendis og erlendis og vakið mikla lukku. Kórinn stóð fyrir sams konar viðburði 1. mars í ár, þar sem sönggleðin var við völd. Líkt og þá verða það kórstjórarnir Magnús Ragnarsson og Þorvaldur Örn Davíðsson sem leika undir og stýra fjöldasöng, jafnt rödduðum sem órödduðum. Á meðan verður hægt að kaupa sér veigar og snarl á sanngjörnu verði. Bjór og sálmar er liður í fjáröflun kórsins, sem stefnir á að fara í keppnisferð til Póllands í júní 2020.

Tekið skal fram að hér fá allar raddir að heyrast og allir eru hvattir til að taka undir í sálmunum. Þá er vitaskuld ekki gerð krafa um að hver og einn fái sér í tána, enda verður söngurinn í fyrirrúmi.